Salatbar Eika

Veitingar

Bezti salatbarinn, sem ég hef fundið í borginni, er Salatbarinn hans Eika í afskekktri götu að nafni Fákafen í Skeifunni. Þar er aðeins salat á boðstólum, allt tindrandi ferskt, meira að segja jöklasalatið. Tegundirnar eru milli tuttugu og þrjátíu og verðið aðeins 700 krónur á mann, að kaffi inniföldu.

Matstaðurinn er hins vegar afar kuldalegur og fráhrindandi, þótt hreinlegur sé. Það er ekki innréttingum að kenna, því að sjálfsafgreiðsluborð með spegli og ljósum er aðlaðandi og bakháir tréstólar eru fallegir.

Fyrst og fremst er litavalið afar hart. Línuna gefur ljótur, dimmblár litur á nöktum langvegg, studdur gulum og rauðum lit á öðrum veggjum og hræðilegum vaxdúkum á borðum, grimmdarlega bláum og rauðum. Þá gefa risastórir og naktir gluggar útsýni til vetrarmyrkursins.

Hér þarf fyrst og fremst að skipta um borðdúka, mála alla veggi að nýju af smekkvísi með náttúrulega mildum litum og koma pottablómum og gluggatjöldum fyrir í glugganum. Náttúrulegur matur kallar á náttúrulega liti, ekki grunnliti litaspjaldsins.

Taka má salatborðið í fjórum áföngum. Fyrst eru það súpurnar, sem jafnan eru tvær, önnur tær og hin þykk, en ekki uppbökuð, oft karrísúpa eða spergilsúpa. Þetta eru svo sem engar verðlaunasúpur í stíl viðurkenninga, sem hanga á veggnum fyrir ofan, en góðar og hollar og hlýlegar í vetrarkuldanum, einu heitu réttirnir á staðnum. Með súpunum eru nokkrar tegundir af fallegu brauði.

Þá er gott að blanda sér hrásalat úr jöklasalati, rauðlauk, tómati, gúrkum, papriku, baunaspírum og alfaspírum, eggjum og ostbitum. Olífuolía og vínedik eru á staðnum, en litlar skálar og kryddstauka vantar til að blanda sér tæra salatsósu, til dæmis vinaigrettu. Þykkar salatsósur forblandaðar eru hins vegar sex að tölu.

Næst er rétt að snúa sér að blönduðum salötum hússins. Oftast eru tvö baunasalöt, annað úr forsoðnum nýrnabaunum og hitt úr bökuðum baunum. Kartöflusalöt eru yfirleitt tvö, annað í eggjasósu og hitt í karrísósu. Pastategundir eru fjórar. Þá er venjulega túnfiskamauk og rækjusalat í eggjasósu. Loks eitthvað af kryddlegnu grænmeti, svo sem gulróta- og rófuþráðum.

Máltíðin endar svo á ávöxum úr ávaxtakörfu og ávaxtasalati, oftast melónusneiðum, eplabitum í mjólkursósu og vínberjum með ostbitum. Við getum hins vegar sleppt kaffinu, því að það er með bandarísku lagi, sér í botn með mjólk í.

Jónas Kristjánsson

DV