Takmörkuð sinnaskipti

Greinar

Ríkisstjórnin hefur loks snúið við blaðinu í fíkniefnavörnum. Hún hefur hætt að amast við tollgæzlu og að draga úr fjárveitingum til viðnáms gegn innflutningi og sölu fíkniefna. Hún hyggst fá Alþingi til að verja 65 milljónum króna sérstaklega til slíkra varna á næsta ári.

Þetta felur hvorki í sér neina stefnubreytingu í aðgerðum gegn neyzlu fíkniefna né í auknum úrræðum til meðferðar þeirra, sem ánetjast hafa fíkniefnum. Á þeim sviðum ríkir enn sama niðurskurðarstefna og áður. Áherzlubreytingin snýr aðeins að dreifingu fíkniefna.

Stefnubreytingin felur væntanlega í sér, að hægt verður að vakta hafnir Reykjavíkursvæðisins betur að kvöld- og næturlagi og að byrjað verður að vakta aðrar hafnir, sem flestar eru hriplekar fyrir fíkniefnum. Mikið af fíkniefnum hefur einmitt farið um hafnir landsins.

Önnur mikilvæg smyglleið er tollpósturinn, sem er svo máttlaus, að þar finnst sjaldnast neitt. Átakið leiðir vonandi til endurreisnar fíkniefnavarna á þeim vettvangi, til dæmis með aukinni notkun leitarhunda. Mikilvægast væri þó að skipta um æðstu embættismenn tollgæzlu.

Ennfremur má búast við, að fjárveitingin geti aukið fíkniefnaleit í Leifsstöð, meðal annars vegna ábendinga frá fjölþjóðalögreglunni Interpol um, að suðuramerísk fíkniefni komi í auknum mæli vestan um haf. Þar er um að ræða hörð efni á borð við ópíum og heróin.

Við erum heppin að eiga ekki landamæri með öðrum þjóðum. Þess vegna eru innflutningsstaðir ólöglegra efna mun færri en þeir eru í flestum öðrum löndum og gefa betri möguleika á vörnum. Því má reikna með, að fleiri burðardýr fíkniefna verði tekin föst á næsta ári.

Búast má við, að aukin fjárveiting leiði til aukins mannahalds og betri tækjakosts í fíkniefnadeild löggæzlunnar í Reykjavík. Þar mun fjármagnið líka nýtast bezt, því að þar er fyrir mest þekking og mestur áhugi starfsmanna og yfirmanna á vörnum gegn fíkniefnum.

Í heild er vænzt, að breytingarnar dragi úr framboði fíkniefna á innlendum markaði. Þær hafa hins vegar engin áhrif á eftirspurnina, sem er mikil og ört vaxandi. Þeir eru sífellt fleiri og yngri, sem fitla við fíkniefni og þar af leiðandi sífellt fleiri, sem ánetjast þeim.

Fyrirbyggjandi aðgerðir eru af ýmsum ástæðum erfiðar. Hinir fullorðnu eru sambandslitlir við unglingana og eru þeim sízt til fyrirmyndar, vegna róttæks og almenns drykkjuskapar í landinu. Allt mælir með því, að börn leggist í óreglu eins og foreldrar og fyrirmyndir.

Dæmigert fyrir ástandið í þjóðfélaginu er, að árum saman er slegin skjaldborg þagnar um íþróttaþjálfara, sem hvað eftir annað gengur berserksgang í ölæði á almannafæri. Drykkjurútaþjóð getur ekki búizt við öðru en, að margir unglingar lendi á glapstigum fíkniefna.

Þar sem ekki eru neinar horfur á siðvæðingu þjóðarinnar á næstu árum, er ekki hægt að búast við árangri í takmörkun eftirspurnar á ólöglegum fíkniefnum. Hins vegar er hægt að grípa þá, sem falla í svaðið af þeirra völdum og reyna að endurhæfa þá til nýs lífs.

Sinnaskipti stjórnvalda ná því miður ekki til þessa mikilvæga þáttar baráttunnar gegn fíkniefnum. Samt er til í landinu töluverð þekking á meðferð áfengissjúklinga og raunar einnig fíkniefnasjúklinga, sem er mun erfiðari vegna langvinnra eftirkasta og fráhvarfseinkenna.

Skynsamlegra hefði verið, að síðbúin sinnaskipti ríkisstjórnarinnar hefðu náð til fleiri þátta fíkniefnavandans en tollgæzlunnar og löggæzlunnar einvörðungu.

Jónas Kristjánsson

DV