Nýlegur formaður Neytendasamtakanna og stjórnmálamaður helzta kerfisflokksins kvartaði hér í blaðinu yfir því í fyrradag, að landbúnaðarkerfið væri flókið og ógegnsætt og sagði starfsbræður sína skulda þjóðinni skýringu á tilgangi hinna miklu opinberu framlaga.
Samt hefur kerfið áratugum saman verið augljóst og hverjum manni læsilegt í lögum og reglum. Það eina, sem hefur gerzt á aldarfjórðungi kerfisis, er, að niðurgreiðslur og uppbætur hafa breytzt í beingreiðslur til bænda og að innflutningsbann hefur breytzt í ofurtolla.
Sá hluti kerfisins, sem áður fólst í niðurgreiðslum og uppbótum og nú felst í beingreiðslum, kemur á hverju ári fram í fjárlögum og ríkisreikningi. Á næsta ári mun þessi upphæð nema rúmlega fimm milljörðum króna, sem jafngildir 143.000 krónum á hvern meðalbónda.
Þann aldarfjórðung, sem þetta kerfi hefur verið notað, að undirlagi allra stjórnmálaflokka, hafa upphæðirnar verið þessu líkar, oftast nokkru hærri en þær eru nú. Búvörukerfið hefur á aldarfjórðungi brennt að minnsta kosti 150 milljörðum króna á þennan hátt einan sér.
Þetta eru meiri útgjöld en felast í fjárlögum ríkisins á næsta ári. Það er því ekki von, að ríkið hafi ráð á að ljúka vegaframkvæmdum við Ártúnshöfða eða tvöfalda Reykjanesbraut. Það er því ekki von, að ríkið hafi efni á að reka skóla og sjúkrahús á sómasamlegan hátt.
Beingreiðslur til meðalbónda verða á næsta ári fjórföld uppbæð bóta til meðal-atvinnuleysingja. Þetta er því afar dýr aðferð við að halda uppi dulbúnu atvinnuleysi í landbúnaði og stafar af miklum tilkostnaði í greininni, það er að segja neikvæðri framleiðni hennar.
Það nægir ekki, að ríkið greiði hverjum bónda beint sem svarar að meðaltali launum háttsettra embættismanna, heldur þarf ríkið þar á ofan að halda uppi verði á landbúnaðarvörum með því að ofurtolla innflutta samkeppnisvöru. Slík er öfugframleiðni greinarinnar.
Um þetta hefur endalaust verið rætt og ritað í aldarfjórðung. Því miður hefur meirihluti þjóðarinnar hvorki viljað heyra né sjá. Skoðanakannanir sýna, að rúmlega helmingur þjóðarinnar er sáttur við þessa stefnu, sem nýtur í reynd stuðnings allra stjórnmálaflokkanna.
Það er ekki rétt hjá nýlegum formanni Neytendasamtakanna, að þetta sé flókið eða ógegnsætt kerfi. Þvert á móti hefur það verið einfalt og gegnsætt í heilan aldarfjórðung. Hins vegar hefur heyrnarlaus stjórnmálamaður snögglega breytzt í undrandi neytendaformann.
Í aldarfjórðung hefur ríkið ekki litið á landbúnað sem atvinnuveg, heldur sem félagsmálastofnun. Jafnframt hefur ríkið notað óþarflega dýrt bótakerfi. Einfaldara og margfalt ódýrara væri, að ríkið hætti afskiptum af landbúnaði og setti alla bændur á atvinnuleysisbætur.
Kerfið er rekið á kostnað skattgreiðenda annars vegar og neytenda hins vegar. Skattgreiðendur borga þá upphæð, sem er í fjárlögum hvers árs, rúmlega fimm milljarða á næsta ári. Neytendur borga hins vegar muninn á uppsprengdu verði og heimsmarkaðsverði á búvöru.
Enginn stjórnmálaflokkur hefur í reynd viljað gæta hagsmuna skattgreiðenda og neytenda, hvorki í þessu máli né öðrum. Það stafar af, að skattgreiðendur og neytendur hafa ekki bein í nefinu til að gerast þrýstihópur til jafns við þá, sem sitja að kjötkötlunum.
Hvorki skattgreiðendur né neytendur geta falið eymd sína að baki fullyrðinga um, að flokkarnir hafi gabbað þá með flóknu og ógegnsæju rekstrarkerfi landbúnaðar.
Jónas Kristjánsson
DV