Austur-Indíafélagið

Veitingar

Ein bezta ástæða heimsóknar til London er að fá sér snæðing á einu af indversku veitingahúsunum, sem þar skipta hundruðum. Nokkru ódýrara er þó að skreppa á Hverfisgötuna og fá sér að borða á Austur-Indíafélaginu. Þar er vönduð matreiðsla, fremur skólabókarleg og nánast kórrétt. En hún er ekki tilþrifamikil og einkum er hún dýr. Hún mun því ekki leiða sparsemdarfólk inn í leyndardóma indverskrar matreiðslu.

Hin fjölbreytta indverska matreiðsluhefð er með hinum merkari í heiminum, skemmtilegri en til dæmis kínversk. Frá fljótasvæðunum í norðri eru mongólsk áhrif með lambakjöti, jógúrt og hveiti. Frá Dekan-skaga í suðri koma sterkt kryddaðir grænmetisréttir, kókos og hrísgrjón. Frá fenjunum í austri eru svo til dæmis kotasæla og baunasúpur.

Við indverska matreiðslu, eins og raunar aðra matreiðslu en fransk-vestræna og japanska, er sá galli, að hráefnið sjálft fær ekki að njóta sín, heldur er það kryddið, sem látið er gefa tóninn. Þetta getur orðið leiðigjarnt til lengdar. Og tilgangslítið er að nota dýrt hráefni á borð við humar og nautalundir,.

Indversku innréttingarnar eru að mestu óbreyttar frá tíð Taj Mahal, sem hér var áður, ógnarlangar breiður af slæðum í lofti og indversk listaverk á veggjum. Heildarsvipur er virðulegur, parkett gljáandi og tónlist indversk. Þjónusta er afar indversk, sem sagt kurteis. Þrátt fyrir hátt verðlag er ekki mikið lagt í lín. Borðplötur eru glerlagðar og munnþurrkur úr efnisrýrum pappír. Og básar eru of þröngir á svona dýrum stað.

Við fáum okkur Poppadum, grillaðar og stökkar brauðflögur, meðan við skoðum matseðilinn. Þær eru bornar fram með koríander-sultu og tveimur öðrum kryddsultum. Með matnum borðum við Nan, mjúkar flatkökur, steiktar í leirofni. Hrísgrjónin pöntum við annað hvort Pulao, kryddsoðin, eða Biryani, með kanil, kardimommum, negul, anís og grænmeti.

Samósurnar voru einna skemmtilegustu forréttirnir, léttkryddaðar kjöt- eða grænmetisblöndur, vafðar í heilhveitiþríhyrninga og djúpsteiktar. Pagórurnar voru líka góðar, smásaxaður laukur, djúptsteiktur í kjúklingabaunadeigi, með koríander-sultu.

Tandoori-réttirnir eru einkennisréttur margra indverskra veitingastaða, meðal annars þessa. Það er jógúrt- og kryddhúðað kjöt, sem steikt er í Tandoor-leirofni. Skemmtilegi rétturinn af þessu tagi og oftast meyr var hálfi kjúklingurinn, sem borinn er fram snarkandi á pönnu.

Indversk framreiðsla veitinga hentar hópum, því að réttirnir eru ekki bornir fram á diskum, heldur fötum, sem síðan er haldið volgum á kertakössum á miðju borði. Allir geta smakkað á öllu og haldið uppi gáfulegum samræðum um réttina og samanburð á þeim.

Einstaklega gott indverskt kaffi er á boðstólum, höfugt og ilmríkt, en kostar því miður 250 krónur bollinn. Búast má við, að þriggja rétta máltíð losi 3.000 krónur á mann. Eftirréttir eru ekki merkilegir, enda nota Indverjar þá lítið. Eftir mat fá gestir heita andlitsdúka og frískandi sælgætis-smákúlur með kryddfræjum.

Jónas Kristjánsson

DV