Byggðastefnuæði

Greinar

Byggðastefnuþingmenn fjárlaganefndar Alþingis komust í feitt, er þeir áttuðu sig á, að þeir gætu notað væntanlegar orku- og stóriðjuframkvæmdir til að skera niður opinberar vegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, þótt þær séu arðbærustu kostir fjárlaganefndar.

Frestað verður að ljúka breikkun Ártúnsbrekku og brúar í Elliðaárdal. Frestað verður tvöföldun Reykjanesbrautar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Í skjóli þessara ákvarðana telur nefndin sig hafa auðfengna peninga til að halda uppi spottaframkvæmdum úti um allt.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa ekki beðið um orku- og stóriðjuframkvæmdirnar, sem hafðar eru að blóraböggli ákvarðana fjárlaganefndar. Miðað við íbúafjölda auka þær fyrst og fremst atvinnu á Vesturlandi og Suðurlandi, en minna í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi.

Veigamikið hlutverk fjárveitingavalds hins opinbera er að framleiða atvinnu í þeim kjördæmum, sem telja sig hlunnfarin af sagnfræðilegri þróun, flótta fólks úr strjálbýli til þéttbýlis. Um þetta hlutverk hefur verið búin til byggðastefna, sem jafngildir trúarbrögðum.

Afleiðing stefnunnar sést í lítið notuðum höfnum, lítið notuðum vegum, lítið notuðum skólum og lítið notuðum sjúkrahúsum, á meðan raunveruleg samgöngumál, menntamál og heilbrigðismál þjóðarinnar eru í ólestri og verða samkvæmt fjárlögum áfram í ólestri.

Samkvæmt þessari stefnu er framkvæmdin sjálf ekki minna virði en reksturinn, sem fylgir á eftir. Oft er meira verið að sækjast eftir byggingaframkvæmdum en þjónustunni, sem framkvæmdirnar eiga að gera kleifa. Þetta sést bezt í spottastefnu varanlegrar vegagerðar.

Milli Vegagerðarinnar og byggðastefnumanna Alþingis og ríkisstjórnar er samsæri um, að varanleg vegagerð skuli unnin í svo litlum spottum, þriggja til sjö kílómetra, að heimamenn geti keppt um verkið við stóru fyrirtækin, sem mörg koma af höfuðborgarsvæðinu.

Ef samgönguhagsmunir einir réðu ferðinni, mundu byggðastefnumenn sjá, að margfalt lengri og færri spottar mundu skila lengri vegum fyrir sama fé. Af því að framkvæmdahagsmunirnir eru brýnir, láta menn þá ganga fyrir hinum varanlegri byggðahagsmunum.

Þetta kerfi er við lýði, af því að þingmenn Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis styðja það. Þeir kveina að vísu stundum, sérstaklega heima í héraði, þegar kjósendur eru nálægir, en á Alþingi rétta þeir upp höndina til samþykkis, þegar byggðastefnumálin eru afgreidd.

Nánast allir, ef ekki allir stjórnmálaflokkar bera ábyrgð á stefnunni, sem nú hefur leitt til frestunar fjárlaganefndar á brýnum og arðbærum verkefnum á höfuðborgarsvæðinu, svo að heimamenn úti um land geti haft trygga atvinnu af spottagerð í heimahögum.

Fjárlaganefnd Alþingis er einn helzti leikvöllur byggðastefnunnar. Þar er í einstökum atriðum gengið frá, hvernig sparaðar séu framkvæmdir og rekstur á Reykjavíkursvæðinu, svo að halda megi uppi framkvæmdum og rekstri á landsbyggðinni.

Þegar fjárlaganefnd kemst að niðurstöðu, er nánast formsatriði, að Alþingi fellst á hana. Gildir þá einu, hvaða meirihluti er hverju sinni í nefndinni og á Alþingi. Útkoman er alltaf sama byggðastefnan, af því að hún er rekin af öllum núverandi stjórnmálaflokkum.

Kjósendur á höfuðborgarsvæðinu þurfa einhvern tíma að svara spurningunni um, hvort flokkarnir séu færir um að gæta hagsmuna þeirra til jafns við aðra.

Jónas Kristjánsson

DV