Ekki bara Slobodan

Greinar

Ef stjórnarandstöðu og stúdentum tekst með hjálp stéttarfélaga að fá framgengt niðurstöðum sveitarstjórnakosninga í Serbíu, er lýðræðislegu réttlæti fullnægt í málinu. Menn munu gráta þurrum tárum, ef þeim tekst þar á ofan að hrekja Sloboldan Milosevic frá völdum.

Milosevic er óvenjulega ógeðfelldur leiðtogi, smjaðursfullur og kurteis í umgengni við fulltrúa vestrænna ríkja, en eindreginn áhangandi ofbeldis í Serbíu og öðrum arfaríkjum Júgóslavíu. Enn verri er eiginkona hans, sem fer mikinn í skrifum og heimtar, að blóð renni.

Milosevic á mikinn þátt í afmyndun þjóðarinnar. Hann fór um 1990 úr fötum kommúnismans, þegar þau voru ekki lengur við hæfi, og klæddist ofsafenginni þjóðernishyggju í staðinn. Hann hafði sjálfur forustu um að efna til blóðbaðs Serba í arfaríkjum Júgóslavíu.

Ekki má hins vegar reikna með, að Serbía verði minna hættuleg umhverfi sínu, þótt annar hvor leiðtogi stjórnarandstöðunnar taki við af Milosevic. Þeir hafa báðir gælt við þjóðernisofstækið, sem einkennir stjórnmál Serbíu, og gagnrýnt svik hans við Bosníu-Serba.

Serbía er engu landi lík. Landið hafa flúið flestir lýðræðissinnar, sem það hafa getað. Meðal annars hafa menntamenn yfirleitt reynt að komast út úr þeirri martröð ofstækis og ofbeldis, sem Serbía er orðin. Eftir sitja glæpamenn og þeir, sem ekki geta bjargað sér.

Stúdentar í Serbíu eru ekki líkir stúdentum annarra landa. Meðal þeirra geisar þjóðernisofstækið og ofbeldishyggjan, sem ríkisfjölmiðlar landsins hafa matað þjóðina á um nokkurra ára skeið. Þeir eru fráleitt neinir fulltrúar vestræns lýðræðis, umburðarlyndis og mannúðar.

Í mótmælagöngum um götur Belgrað er ekki krafizt reikningskila fyrir glæpi Serba gegn mannkyninu, sem þeir hafa framið í Bosníu, Króatíu og Kosovo. Á torgfundum eru ekki gagnrýnd fólskuverkin, sem hafa gert Serba að viðurstyggð góðra manna um allan heim.

Serbía er fjárhagslega, efnahagslega, menningarlega, félagslega og sálfræðilega í rúst. Allir búa þar við sult og seyru nema þeir, sem lifa á glæpum. Seðlabanki landsins hamast við að prenta verðlausa seðla og verðbólgan er stjórnlaus. Hálf þjóðin er atvinnulaus.

Svartamarkaðsbraskarnir ganga um vopnaðir og ógna fólki. Sonur Milosevic-hjónanna fer með hirð sína í fínum bílum og lætur eins og hann eigi heiminn. Sjálfsvirðing þjóðarinnar er horfin og hefur vikið fyrir ofbeldishneigðu þjóðernisofstæki og hatri á nágrannaþjóðum Serba.

Undir kynda eins konar sagnfræðingar og sagnaskáld, sem útmála hremmingar, er forfeður Serba hafi orðið fyrir af völdum forfeðra nágrannaþjóðanna fyrir nokkur hundruð árum. Menningarlífið sjálft er mengað af ofstækinu. Radovan Karadzic er læknir og ljóðskáld.

Ef Íslendingar hugsuðu eins og Serbar, mundum við leita uppi Dani til að nauðga þeim og drepa þá út af einhverjum aldagömlum og bezt gleymdum atburðum í Íslandssögunni. Þetta dettur engum í hug, enda hefur þjóðarsál Íslendinga ekki krumpazt að hætti Serba.

Bezta leiðin til að hafa hóf á vandræðum umheimsins af völdum Serbíu er að loka að nýju fyrir viðskipti og önnur samskipti við landið, draga til ábyrgðar þá leiðtoga, sem í næst, svo sem helzu villimenn Bosníu-Serba, og hætta að líta á Milosevic sem lykil að lausn mála.

Síðan kann tíminn að lækna Serbíu. En það koma engin blóm í haga, þótt stjórnarandstæðingar víki upphafsmanni ógnaraldarinnar á Balkanskaga frá völdum.

Jónas Kristjánsson

DV