Samurai

Veitingar

Innrétting í Samurai er einföld og vönduð að japönskum hætti, andspænis Gamla Bíói við Ingólfsstræti. Hrár fiskur í sushi og sashimi er yfirleitt ferskur og fallegur að japönskum hætti. Og verðlag er hátt að japönskum hætti. En tilfinningasnauð og ofgerð matreiðsla staðarins er hins vegar ekki merkileg og úr stíl við önnur sérkenni.

Gráblátt er í gólfi og lofti og ljósbrúnt í veggjum, undir japönskum listaverkum. Rúmt er um smekklega valin tréborð og tréstóla. Reitaðir tréskermar skipta staðnum í þrjá hluta, sem stór pottablóm gera fremur notalega. Nokkrir barstólar eru við sushi-barinn, þar sem kokkurinn setur saman hráa fiskbita.

Gestir fá volga dúka fyrir máltíð að hreinlátum hætti Japana. Þjónusta er elskuleg og fremur hæglát. Á leiðbeiningarsíðu í matseðli er því haldið fram fullum fetum, að bjór og viskí henti vel með japönskum mat, en ekki minnzt á te. Þetta sérstæða viðhorf kann að skýra metnaðarlitla matreiðslu. Töluvert er um gesti, einkum viðskiptakarla og jafnvel Japani.

Bezt er að fá sér hráa fiskinn, því að hann er yfirleitt ferskur og góður, lax, silungur, úthafsrækjur, lúða, humar, gervikrabbi, laxahrogn, smokkfiskur, rauðspretta og karfi. Sushi útgáfur hans eru mótaðar með hrísgrjónum, en sashimi án þeirra. Réttirnir eru bornir fram með sterkri piparrót og sojasósu til hliðar. Fimm saman kosta sushi 650 krónur, sjö kosta 860 og níu kosta 1020 krónur. Sama magn af sashimi kostar 780 krónur, 1080 krónur og 1440 krónur.

Mikið úrval smárétta er á matseðlinum og kosta um 600 krónur hver. Þrír eða fjórir saman mynda þeir heila máltíð fyrir einn. Aðrir kaflar matseðilsins fjalla um núðlusúpur, hrísgrjónarétti, pottrétti, súpur og djúpsteikingar.

Yaki Ramu voru hæfilega grillaðir og bragðgóðir lambakjötsbitar á teinum. Furai Mono var djúpstekt og hlutlaus blanda af svínakjöti, kjúklingum og rækju í of miklum steikarhjúpi. Masu Yaki var grillaður silungur sæmilegur með sætri sósu. Yakitori voru ofgrillaðir kjúklingabitar á teinum. Oyalu Don voru egg, ofeldaður kjúklingar og laukur á hrísgrjónabeði í súpuskál. Yakitori Don voru eggaldin, paprika, seigur kjúklingur, og kryddlegnir hvítkálsþræðir á hrísgrjónabeði í súpuskál. Miso-súpan skildist sundur, einkum í hádeginu.

Samurai gefur takmarkaða innsýn í japanska matreiðslu, hina einu í heiminum, sem stenzt samjöfnuð við hina franskættuðu matreiðslu Vesturlanda. Sú japanska einkennist af áherzlu á bragði og gæðum hráefnanna, snöggri eða engri matreiðslu þeirra, einfaldri og litríkri framreiðslu. Japanskir kokkar kunna vel með þang og þara að fara og ættu að því leyti að geta verið okkur til fyrirmyndar.

Bezt er hér að halda sig við sushi og sashimi. Þessir réttir eru að vísu ekki eins girnilegir og slíkir réttir voru nokkur haust í boði á Borginni, en þeir eru frambærileg kynning á því, hvernig góður japanskur matur er einfaldastur. Að öðru leyti má skola matnum niður með viskíi og gleyma honum.

Jónas Kristjánsson

DV