Hamborgara-heimsmetið

Greinar

Íslenzki hamborgarinn er hinn dýrasti í heimi, rúmlega tvöfalt dýrari en í upprunalandinu. Þessa svokölluðu hamborgarafræði, sem byggist á samanburðarhæfum Stóra-Mac, hefur tímaritið Economist stundað í áratug til að bera saman verðlagsþróun víða um heim.

Hér í blaðinu hefur verð á íslenzkum Stóra-Mac nokkrum sinnum verið tekið til samanburðar til að finna stöðu Íslands í þessum fjölþjóðlega samanburði. Nú hefur Neytendablaðið tekið undir þennan útreikning og staðfest, að íslenzki hamborgarinn er hinn dýrasti í heimi.

Íslenzkur Stóri-Mac kostar 395 krónur. Í Bandaríkjunum kostar hann sem svarar 157 krónum. Verðið fer neðst í 95 krónur í Ungverjalandi, 85 krónur í Hong Kong og 77 krónur í Kína. Þessi mikli munur endurspeglar fyrst og fremst afar misjafnt kjötverð í löndum heims.

Í áðurnefndu Neytendablaði er einnig samanburður á tilboðsverði stórmarkaða eins og það sést á tilboðasíðum í dagblöðum og í litbæklingum, sem dreift er í hús. Samanburður af þessu tagi segir mikla sögu um lífskjör þeirra, sem ganga lengst í að reyna að spara.

Tilboðsverð er vaxandi þáttur íslenzkrar kaupsýslu. Fyrir hverja helgi lækka verzlanakeðjur verð á nokkrum vörum í helgarösinni til að draga til sín viðskiptavini. Þessi viðskiptaháttur hefur lengi verið rótgróinn erlendis og er einnig að ná að festa rætur hér á landi.

Aukin fyrirferð tilboðsverðs í matvöruinnkaupum hefur varið lífskjör margra fjölskyldna á kjaraskerðingartíma undanfarinna ára. Með sanni má segja, að tilboð stórmarkaða hafa gert meira fyrir almenning en samanlögð frammistaða stéttarfélaga í kjarasamningum.

Þegar borið er saman matarverð á Íslandi og í öðrum löndum, nægir því ekki lengur að bera saman venjulegt vöruverð á báðum stöðum, heldur skerpir það myndina að bera saman tilboðsverð milli landa. Sýnishorn af því er einmitt í nýjasta tölublaði Neytendablaðsins.

Skemmst er frá því að segja, að hamborgaravísitalan er staðfest í þessu sýnishorni af samanburði. Tilboðsverð á kjötvörum og mjólkurvörum er næstum helmingi lægra í Danmörku en hér á landi. Til dæmis kostar ostur þar á tilboðsverði 466 krónur, en hér 995 krónur.

Þegar sleppir hinum hefðbundnu landbúnaðarvörum úr kjöti og mjólk, verður samanburðurinn Íslandi hagstæðari. Sumar pakkavörur eru eins ódýrar hér á landi og í Danmörku og sumar jafnvel ódýrari. Þekkt er, að ýmis merkjavara er tiltölulega ódýr hér á landi.

Að baki öllum þessum útreikningum og mörgum fleiri af sama tagi liggur sú ógnvekjandi staðreynd, að stjórnsýslan og flokkakerfið líta á það sem eitt helzta hlutverk sitt að verja innlendan landbúnað fyrir erlendri samkeppni, á kostnað íslenzkra neytenda og skattgreiðenda.

Engin ein grundvallarforsenda í stjórnmálum hefur eins mögnuð áhrif á lífskjörin í landinu og þessi. Hún veldur ekki bara háu verðlagi, sem sést í samanburði milli landa, heldur kostar hún skattgreiðendur þar á ofan fimm milljarða króna á hverju ári á fjárlögum.

Þessi grundvallarforsenda veldur því, að ríkið getur ekki sinnt skyldum sínum í heilbrigðis- og skólamálum, þótt skattbyrði sé há og fari hækkandi. Hún veldur því, að íslenzkir neytendur þurfa að vinna lengur fyrir nauðsynjum en neytendur í öllum öðrum löndum heims.

Við getum haft til marks um, að okkur hafi tekizt að brjótast undan þessu oki yfirvaldanna, þegar Stóri-Mac hefur fallið í verði úr 395 krónum í 157 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV