Orð skulu standa

Greinar

Þegar þú færð þér leigubíl, heimtar bílstjórinn ekki fyrirframgreiðslu á þeim forsendum, að þú gætir hlaupið burtu að ferð lokinni. Þegar þú ferð í veitingahús, er ekki krafizt upphafsgreiðslu á sömu forsendum. Einföld viðskipti byggjast á gagnkvæmu trausti aðila.

Þegar fræðimenn leiða hugann að ástæðum þess, að þjóðum gengur misvel að komast í álnir á forsendum lýðræðis og markaðsbúskapar, hafa þeir á síðustu árum einkum staðnæmzt við nauðsyn þess, að orð skuli standa. Traust milli manna er forsenda sjálfvirkra samskipta.

Reynt hefur verið að stuðla að þessu trausti með því að setja lög og reglur um samskipti á ýmsum sviðum, einkum í viðskiptum. Lög og reglur setja mönnum leikreglur, sem einfalda þessi samskipti og koma þeim í sjálfvirkan farveg. Með lögum skal land byggja.

Ekki er nóg, að lög séu framleidd og skráð. Einnig þarf að gæta þess, að allir séu jafnir fyrir þeim. Og loks er mikilvægt, að þau endist, svo að ekki sé verið að skipta um leikreglur í miðju spili. Og fleira þarf en lög ein.

Dæmi Bandaríkjanna sýnir, að lög og reglur nægja ekki. Til skamms tíma voru Bandaríkjamenn meðal fremstu þjóða í gagnkvæmu trausti málsaðila. Þessi hornsteinn hefur óðum verið að bresta, svo sem sést af ótrúlegri fjölgun málaferla af furðulegasta tilefni.

Læknar þora ekki að skera af ótta við málaferli. Olíuleitarfélög gera ráð fyrir skaðabótakröfum sem stærsta útgjaldaliðnum í bókhaldi sínu. Ekki er lengur hægt að handsala einfalda samninga, heldur verða sveitir lögmanna að semja tugi síðna til að varðveita traustið.

Þetta flækir auðvitað mál og eyðir orku og tíma málsaðila. Vakin hefur verið athygli á, að Japanir gangi þjóða lengst í að handsala samninga með einföldum hætti og að það sé ein helzta ástæðan fyrir því, að í seinni tíð hefur þeim gengið efnalega betur en Vesturlandabúum.

Traust hefur fleiri hliðar en viðskipti með vörur og þjónustu. Það felur í sér, að kjósendur treysta stjórnmálamönnum til að efna loforð. Það felur í sér, að starfsmenn treysta forstjórum til að taka tillit til mannlegra þátta, þegar megra þarf fyrirtæki af samkeppnisástæðum.

Samdráttarstefna bandarískra fyrirtækja hefur á síðustu árum haft þá hliðarverkun, að traust fólks á sjálfu þjóðskipulaginu hefur minnkað. Æ fleiri komast á þá skoðun vestan hafs, að hver sé sjálfum sér næstur og engrar hjálpar sé að vænta af gráðugum náunganum.

Ekki er auðvelt að staðsetja Íslendinga á mælikvarða trausts og vantrausts. Sennilega standa orð síður hér á landi en á Norðurlöndum, en þó mun fremur en í þriðja heiminum eða á fyrra valdasvæði Sovétríkjanna sálugu. Við þurfum að huga að þessari stöðu okkar.

Við höfum reynt að fara eftir hugsjóninni um, að orð skuli standa og að með lögum skuli land byggja. Okkur hefur gengið betur á sviði formlegra laga en óformlegra samskipta. Við höfum búið til lög og reglur um flesta þætti samskipta og látið þau gilda fyrir alla.

Sú skaðlega venja hefur skapazt á löngum tíma, að stjórnmálamenn standa ekki við gefin loforð og kjósendur ætlast ekki til þess af þeim. Önnur hættuleg venja hefur skapazt, að skuldunautar standa ekki við gefin loforð og skipta jafnvel um kennitölur, ef illa árar.

Allt slíkt spillir forsendum þess, að lýðræði og vel smurður markaðsbúskapur komi okkur í þær álnir sem tíðkast með þjóðum, er ákveða, að orð skuli standa.

Jónas Kristjánsson

DV