Hafnarfjörður er loksins kominn í veitingasöguna. Þar sem Linnetstígur mætir Fjarðargötu hefur verið opnuð eins konar hverfismatstofa, sem býður frambærilegan mat á viðráðanlegu verði í notalegu umhverfi. Tilveran er eins konar Laugaás í sparifötum.
Veitingasalurinn er opinn og fremur hljóðbær, með sumargrænu og samræmdu ávaxtamynztri í gluggatjöldum, borðdúkum og áklæði notendavænna armstóla. Breytilegar málverkasýningar eru á þægilega grænum og gulrauðum veggjum. Eina feilnótan felst í óvenjulega smekklausum kryddstaukum á borðum. Þjónusta er þægileg, en oft óskóluð og stöku sinnum ruglingsleg. Að tjaldabaki er lágvær dósatónlist.
Staðurinn er vel sóttur og stemningin góð. Þarna er venjulegt fólki úti að borða til spari, hjón eða barnafólk, enda kostar þríréttuð kvöldmáltíð ekki nema 2.100 krónur á mann að meðaltali, að kaffi meðtöldu, og ekki nema 1.530 krónur að meðaltali, ef valið er af seðli dagsins. Í hádeginu kosta súpa og val af seðli dagsins um 830 krónur að meðaltali.
Vínlistinn er líka ódýr og vel valinn. Vín hússins frá Chile kostar 400 krónur glasið. Heilar flöskur af traustum tegundum kosta 2.000-3.000 krónur, Villa Antinori og Santa Cristina frá Toskaníu, Monticello Crianza frá Rioja og Chateau Cadillac frá Bordeaux. Lýsingar fylgja í stíl Einars Thoroddsens.
Súpur dagsins voru yfirleitt rjómaðar hveitisúpur, heitar og miklar, hver annarri líkar, bornar fram með volgu, sætu og hvítu brauði. Það voru seljustöngulsúpa, blaðlaukssúpa og blómkálssúpa, sem hér var raunar kölluð grænmetissúpa. Skelfisksúpa af aðalseðli var mun betri, sennilega hveitilaus.
Grænmetissalat með túnfiski, camembert-osti og olífusósu var bezti forrétturinn, efnismikill og fjölbreyttur og einkum þó vel ferskur.
Fiskréttir voru lítillega ofeldaðir og sumir ofsaltaðar, en hvorugt til mikils skaða. Smjörsteikt smálúðuflök voru fremur góð og grænmetið hæfilega léttsteikt, en sveppasósa var fremur hlutlaus. Í annað skipti var pönnusteikt lúða dálítið sölt, borin fram með fallegum sveppum og hæfilega léttsteiktu grænmeti.
Ristuðu lambalundirnar voru lítillega ofeldaðar eins og fiskurinn, bornar fram með villisveppasósu og skemmtilega bakaðri kartöflustöppu á hýðisbotni, soðinni peru, léttsteiktu grænmeti og hveitilausri sveppasósu. Piparsteikin var hins vegar fín, meyr og ljúf, borin fram með hveitilausri piparsósu og sama staðlaða meðlætinu.
Bezti maturinn var léttsteikt svartfuglsbringa með gráðostsósu, hæfilega lítið elduð og bráðnaði á tungu. Meðlæti og framsetning var svipuð og með öðru kjöti og ostasósan var of hlutlaus.
Heimalagaður ís hússins var borinn fram með þeyttum rjóma, súkkulaðisósu og ávaxtasneiðum. Ostakaka hússins var alveg eins og Royal-búðingur að áferð og bragði. Heit eplabaka með þeyttum rjóma var hins vegar góð.
Matreiðslan í Tilverunni er ekki framúrstefnuleg eða hugmyndarík, heldur frambærileg og stöðluð, betri í kjöti en fiski, sem er einmitt einkenni miðlungsstaða með þröngt svigrúm til metnaðar. Við pöntun er skynsamlegt að biðja um, að salti og eldunartíma fiskrétta sé í hóf stillt.
Jónas Kristjánsson
DV