Afstæð fátækt

Greinar

Af mörgum gölluðum mælitækjum fátæktar, sem menn nota til að sanna bjargfastar skoðanir sínar á fjölda fátæklinga, er sízt nothæfur sá, sem Félagsvísindastofnun notar. Hann mælir nefnilega ekki fátækt þjóðarinnar, heldur ákveðinn þátt tekjuskiptingar hennar.

Það bætir ekki mælikvarðann að kalla þennan þátt tekjuskiptingarinnar fátæktarmörk. Mælikvarðinn sýnir afstætt, hversu stór hluti þjóðarinnar hefur minna en helming af meðaltekjum fólks í landinu, hverjar sem þær eru á hverjum tíma. Sem slíkur er hann gagnlegur.

Samkvæmt honum voru 10% þjóðarinnar innan fátæktarmarka í fyrra, nákvæmlega sama hlutfall og einum áratug áður. Í millitíðinni hafði þetta hlutfall lækkað árin 1986-1989 úr 10% í 8%, síðan hækkað 1989-1995 úr 8% í 12% og lækkað aftur 1995-1996 úr 12% í 10%.

Þessi lækkun milli ára endurspeglar ekki minnkandi fátækt, eins og hún mælist hjá aðilum á borð við Mæðrastyrksnefnd og þjóðkirkjuna, sem vinna að aðstoð við þá, sem ekki hafa ráð á að halda jól. Slíkar mælingar á raunveruleikanum sýna stóraukna fátækt milli ára.

Fátækt viðskiptavina hjálparstofnana getur verið að aukast á sama tíma og þeim fækkar, sem teljast innan fátæktarmarka samkvæmt mælikvarða Félagsvísindastofnunar. Sumir þeirra kunna til dæmis að vera búnir að nýta til fulls möguleika sína til skuldsetningar.

Breytingar á almennu efnahagsástandi hafa oftast meiri áhrif á fátækt en breytt tekjuskipting á breytingatímanum. Og efnahagsbreytingar fyrri ára hafa áhrif á fátækt líðandi stundar. Þannig getur fátækt farið vaxandi í nokkur ár eftir að kreppa náði hámarki.

Það liggur í eðli fátæktar, að sveiflur hennar fylgja í kjölfar breytinga á efnahagsástandi og koma því á eftir. Þegar kreppa er að byrja, hefur fólk ýmsa útvegi við að bjarga sér, sem það hefur ekki að áliðinni kreppu. Fólk getur til dæmis safnað skuldum í upphafi kreppu.

Mælikvarði hjálparstofnana er líka að nokkru leyti afstæður. Hann mælir tilfinningu fólks fyrir fátækt sinni. Verið getur, að fleiri en áður telji sig geta gengið hin þungu spor til hjálparstofnana, af því að fátækt sé ekki talin eins niðurlægjandi og áður var.

Þannig er verið að deila um tvo mælikvarða, sem hvor um sig er afstæður á sinn hátt. Annar mælir tekjuskiptingu og hinn tilfinningu fólks fyrir eigin fátækt, en hvorugur mælir raunverulega fátækt. Hinn síðari er þó ekki eins afstæður og bókhaldslegur og hinn fyrri.

Það segir mikla sögu um aukna fátækt í þjóðfélaginu milli áranna 1995 og 1996, að viðskiptavinum hjálparstofnana fjölgaði milli ára og að þeim viðskiptavinum fjölgaði, sem ekki eru fátækir af neinum sérstökum ástæðum öðrum en þeirri að vera á lágum launataxta.

Það hentar hins vegar stjórnvöldum í landinu að flagga tölum Félagsvísindastofnunar. Þær gera valdamönnum kleift að neita að taka mark á talsmönnum Mæðrastyrksnefndar, félagsmálastofnana sveitarfélaga og þjóðkirkjunnar og að halda áfram að hlúa að hinum ríku.

Í áramótaræðu sinni kaus forsætisráðherra að láta mælingar hjálparstofnana sem vind eða öllu heldur fjölmiðlafár um eyru þjóta. Hann beindi máli sínu til eiginhagsmuna þess fjölmenna meirihluta þjóðarinnar, sem hvorki er fátækur né undir neinum fátæktarmörkum.

Fátæktin er einmitt erfið viðureignar fyrir þá sök, að fátæklingar eru eindreginn minnihlutahópur, sem er nánast ósýnilegur vel stæðum meirihluta þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV