Flest virðist úr pappa innanhúss, þar á meðal múrveggir og marmarasúlur. Vínviðarhafið með berjaklösum er úr plasti. Þetta gaf þá leiksviðstilfinningu, að öll innréttingin mundi hrynja, ef slegið væri í hana á einum stað. En ofhlæði Madonnu við Rauðárstíg er þægilegt og rómantískt, stutt lágværri óperutónlist og svo daufri lýsingu lampa og kerta, að nálgast myrkur um miðjan dag.
Þröngur inngangur fyrir miðju skiptir staðnum í tvo jafna og svipaða hluta, með gangvegi og eldhúsafgreiðslu á milli. Á veggsillum er mikið af tómum vínflöskum frá Spáni og alls konar kraðaki. Á veggjum eru ítölsk mótíf í ótal smámyndum. Þjónusta er góð og bezt, þegar hún er ítalskrar ættar.
Flest borðin eru í þröngum og bakbröttum básum fyrir kjörþyngdarfólk, en aðrir geta setið á virðulegum tréstólum úti á gólfi. Undir glerplötu er borðdúkur og ofan á er samstætt blómamynztur í kryddstaukum, olíukönnu, blómavasa, öskubakka og jafnvel lampa.
Rómantíska stemningin kostar ekki mikið. Tólf tommu pizzur kosta 980 krónur og níu tommu 870 krónur, pösturnar 950 krónur. Í hádeginu kosta súpa og einn af réttum dagsins að meðtaltali 935 krónur og þríréttað að kvöldi 1945 krónur. Ef valið er af matseðli kostar þríréttuð máltíð með kaffi um 2620 krónur.
Stuttur vínlisti býr yfir traustu og ódýru vín frá Spáni, Frakklandi og Ítalíu, sum til í hálfflöskum. Húsvínið er raunar franskur Merlot ágætur, á 430 krónur glasið.
Humarsúpa var vel rjómuð, rauð og matarleg, með meyrum humri, afar vel heppnuð. Lauksúpa var snarpheit og góð, undir þykku lagi af brauði og osti. Grænmetissalat var stökkt og ferskt og fjölbreytt, með jöklasalat að grunni og ostasósu til hliðar. Ítalskt salat var með olífum, salami og túnfiski til viðbótar.
Grænmetispitsan var góð, bæði botn og fylling. Fettucine pastaræmur með humri í skelfisksósu voru afar vel heppnaðar, mátulega soðnar og bragðljúfar.
Í hádegi var pönnusteikt ýsa sennilega fryst og lítillega of lengi elduð, þynnri hlutinn fremur þurr, en þykkri hluti sæmilegur, borin fram með fersku hrásalati, ofbakaðri kartöflu og ostasósu. Að kvöldi var léttilega smjörsteiktur skötuselur mun betri, en lítillega ofsaltaður, borinn fram með léttsteiktu grænmeti, hæfilega bakaðri kartöflu og hlutlausri hveitisósu.
Lambahryggvöðvi var lítillega ofsteiktur, en þó rósrauður, með sojabættri rjómasósu fínni og vel kryddaðri, nákvæmlega rétt steiktu grænmeti og bakaðri kartöflu.
Súkkulaðifrauð var ómerkur eftirréttur. Eplakaka var fremur þurr, með þeyttum rjóma og ís. Bezt var óvenjulega létt ostakaka með sítrónubragði, borin fram með sultu, þeyttum rjóma og ávaxtasneiðum. Espresso kaffi var ekta, en allt of veikt.
Úrval rétta var fábreytt og framsetning þeirra stöðluð, en sjálf matreiðslan yfirleitt í góðu meðallagi, einkum á kvöldin, þegar nákvæmni var beitt í eldunartíma á grænmeti, pasta og fiski. Og þetta er ódýrasti Ítalíustaðurinn, sem ég veit um í bænum.
Jónas Kristjánsson
DV