Kallað til arðs

Greinar

Kaup Akureyrarfélagsins Samherja á Ísafjarðartogaranum Guðbjörgu hefur magnað andstöðu við kvótakerfið hjá fólki í sveitarfélögum, sem hafa farið halloka í baráttunni um kvótann. Menn sjá beinlínis fram á, að heil sjávarpláss geti orðið kvótalaus með einu pennastriki.

Áður hafði komið í ljós, að ekki nýtast ákvæði í kvótalögum um forkaupsrétt heimamanna. Kaupendur kvóta stofna bara fyrirtæki á kvótastaðnum og flytja síðan fyrirtækið í annað sveitarfélag. Það er nefnilega ekki hægt að banna flutning á fyrirtækjum milli sveitarfélaga.

Þessi samanburður á skipi og kvóta annars vegar og fyrirtæki hins vegar sýnir í rauninni haldleysi þess að reyna að setja hömlur við tilfærslu eigna. Erfitt er að hamla gegn flutningi eignarhalds á skipum úr því að flutningur á öðrum tegundum eignarhalds er frjáls.

Kvótar eru orðnir að eign, sem gengur kaupum og sölum og erfist jafnvel milli kynslóða. Einu hömlurnar, sem máli skipta, felast í veðsetningu kvóta, sem ekki má slíta frá viðkomandi kvótaskipi. Ríkinu mun reynast erfitt að hafa sérreglur um eina tegund eignar.

Það er eðli lausafjár, að það er laust. Skip má flytja milli staða eins og bíla og flugvélar. Á síðari árum eru sum frystihús meira að segja orðin að lausafé, því að þau eru um borð í skipum, sem geta farið hvert sem er. Enn lausari eru verðmætir pappírar, þar á meðal kvótar.

Sjávarplássin í landinu standa andspænis þróun, sem hvorki fæst hamin af þeim né æðri máttarvöldum á borð við ráðuneyti og Alþingi. Allt er orðið hreyfanlegt nema fasteignirnar, sem standa auðar og hrynja í verði, þegar fólkið flytur til staða, sem gefa því betri tækifæri.

Sveitarstjórnir reyna að fá lög og reglur gegn þessari þróun, en fá ekki við neitt ráðið, af því að það er eðli markaðsbúskapar að soga fé og fyrirhöfn til arðbærari verkefna. Sveitarfélög standa bara andspænis því að þurfa að vera samkeppnishæf á sveitarfélagamarkaði.

Þeir eru auðvitað margir, sem fara halloka og vilja gjarna frysta ástandið eins og það er hverju sinni. Menn spyrja auðvitað um leið, hvers vegna aðgangur að fiskimiðum sé skammtaður með þessum hætti en ekki einhverjum öðrum, sem valdi minni röskun í heimahögum.

Sumir vilja festa kvóta við sveitarfélög og aðrir við landshluta. Sumir vilja festa kvóta við sjómenn og aðrir vilja bæta landverkafólki við. Flestir eru þó þeir, sem vilja festa kvótann við þjóðina í heild, af því að það sé sanngjarnt, að hún eigi auðlindir lands og sjávar.

Ef kvóti væri afhentur sjómönnum og landverkafólki, mundi hann ganga kaupum og sölum og jafnvel erfast eins og núverandi kvóti og hefði því svipuð áhrif. Byggða- eða landshlutakvóti mundi breyta einu stóru skömmtunarkerfi í mörg lítil og draga úr arðsemi kvótans.

Frá sjónarmiði málsaðila er þetta ekki annað en barátta um aðild að skömmtunarkerfi, sem ríkið hefur komið á fót til að draga úr veiðisókn og gera sjávarútveg arðbæran. Það undarlega er svo, að ríkið gerir enga kröfu um hlut fyrir sig, þjóðina né aðra af þessum arði.

Þannig hafa margir þættir sameinazt um að gera kvótakerfið að púðurtunnu, sem færist nær eldinum með hverjum atburðinum á fætur öðrum. Sala Ísafjarðartogara til Akureyrarfélags er eitt skrefið að óumflýjanlegu uppgjöri í þjóðfélaginu um eignarhald á fiskimiðum.

Stjórnmálamenn hafa búið til skömmtunarkerfi og afhent einum málsaðila arðinn á silfurdiski. Aðrir málsaðilar hljóta að kalla til arðs með vaxandi þunga.

Jónas Kristjánsson

DV