Hnignun velferðar

Greinar

Þótt erfiðleikar velferðarríkisins á Íslandi séu að flestu leyti svipaðir og annarra ríkja af því tagi, er þó unnt að sjá sérstök einkenni hér á landi. Þau sýna, að hluti vandans felst í, að hinir vel stæðu eru að stækka hlut sinn af þjóðarkökunni á kostnað hinna, sem minna mega sín.

Margt er svipað hér á landi og annars staðar. Þjónusta við sjúka hefur verið skert af því að innbyggð þensla var komin í kostnað við hana án þess að gæðin bötnuðu. Reynt hefur verið að taka á sumum hlutum vandans, svo sem að skipta úr dýrum lyfjum í jafngóð ódýrari lyf.

Ekki hefur verið tekið á sumum þáttum sjúkraþjónustunnar vegna annarra hagsmuna, svo sem byggðastefnu. Til dæmis fer of mikill hluti fjármagnsins í að reka dýr og óhagkvæm sjúkrahús í dreifbýli meðan lokað er deildum á alvöruspítölum fyrir alla landsmenn.

Þjónusta sjúkrahúsakerfisins hefur þannig rýrnað í heild, þótt hlutur þess í þjóðarkökunni hafi ekki minnkað. Ef tekið væri á öllum kostnaðarliðum þess og peningar millifærðir til knýjandi verkefna, væri unnt að halda óbreyttri þjónustu á óbreyttum tilkostnaði.

Sjúkrahúsakerfið er vandamál af því að ekki er staðið nógu vel að málum, en ekki vegna þess að verið sé að taka frá því peninga til annarra þarfa í þjóðfélaginu. Sú er hins vegar raunin á ýmsum öðrum sviðum, sem eru þættir velferðarkerfisins eða tengjast því.

Með aðgerðum ríkisins hefur ójöfnuður tekna aukizt um 22% á einum áratug. Það hefur meðal annars verið gert með breyttum skattalögum og með frumkvæði ríkisins að þjóðarsáttum á vinnumarkaði, sem hafa falið í sér, að láglaunafólk hefur fengið litla kauphækkun.

Með því að skoða skattahlutfall annnars vegar og barnabótaauka og vaxtabætur af húsbréfum hins vegar kemur skýrt í ljós, að skattbyrði ungs barnafólks, sem er að reyna að koma sér fyrir, er meiri en annarra Íslendinga og hefur hlutfallslega aukizt á síðustu árum.

Skattleysismörk hafa hækkað, þannig að fólk borgar skatta af lægri tekjum en áður. Minnkað hefur afsláttur, sem veittur var barnafólki og húsbréfafólki. Þannig hefur verið saumað að ungu fólki, sem er með mikla útgjaldaþörf og hefur frá litlum tekjum upp í meðaltekjur.

Breyting á stöðu heimilanna í þjóðfélaginu endurspeglast á uggvænlegan og raunar skelfilegan hátt í skuldum þeirra. Þær aukast með hverju einasta ári og hafa nærri þrefaldazt á einum áratug. Í heild námu þær 132 milljörðum árið 1986 og 343 milljörðum árið 1996.

Sjúkrahúsin eru dæmi um, að velferðarþjóðfélagið rýrnar sumpart vegna þess, að sumir þættir ríkisins eru ekki nógu vel reknir. Dæmin um þjóðarsáttir á vinnumarkaði, aukna skattbyrði ungs fólks og auknar skuldir heimilanna sýna hins vegar tilfærslur milli stétta.

Þegar ójöfnuður tekna eykst um meira en fimmtung á einum áratug, er það afleiðing þess, að stjórnvöld hugsa meira um velferð annarra en ungs láglauna- og millilaunafólks með börn og húsbréf á framfæri. Þau hafa verið að hlusta á hina ríku í þjóðfélaginu.

Velferðarkerfi landbúnaðarins er varið með skattfé og höftum. Velferðarkerfi útgerðarmanna er eflt með auknu svigrúmi í meðferð kvóta. Velferðarkerfi stórfyrirtækja er magnað með einkavinavæðingu ríkisfyrirtækja á borð við síldarverksmiðjur ríkisins.

Við höfum um nokkurt skeið búið við stjórn hinna ríku fyrir hina ríku. Það er veigamesta orsök aukinnar stéttaskiptingar í þjóðfélaginu á síðustu árum.

Jónas Kristjánsson

DV