Aldrei hefur verið svarað spurningunni um, hvort arðbærara sé að reisa orkuver og stóriðjuver heldur en að gera það ekki. Samt er náttúra án mannvirkja og mengunar orðin að fjárhagslega mælanlegri auðlind, sem nýtist í tekjum af þjónustu við ferðamenn.
Af örvæntingarfullri framgöngu íslenzkra stjórnvalda á síðustu áratugum mætti halda, að erlend stóriðja sé eins konar himnasending, sem komi efnahagsmálum þjóðarinnar í lag og ráðherrum á spjöld sögunnar. Þeir dansa beinlínis í kringum erlenda stóriðjuhölda.
Lengst gekk þessi þráhyggja í járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, þar sem íslenzka ríkið neyddist til að reiða fram meira en helming hlutafjárins; útvega raforkuverð, sem er lægra en hjá álverinu í Straumsvík; og þola bilaðan mengunarbúnað árum saman.
Þjóðin væri líklega mun betur sett, ef stjórnvöld hefðu varið þessari fyrirhöfn til að búa í haginn fyrir ferðaþjónustu í landinu. Raforkuverð til almennings væri sennilega svipað, atvinnutækifæri væru sennilega margfalt fleiri og hátekjustörf væru sennilega nokkru fleiri.
Samningamenn okkar í stóriðju eru alltaf langt á eftir tímanum í mati á því, hvað telja megi ásættanlega mengun. Þess vegna hafa þeir alltaf samið um minni mengunarvarnir en þær, sem beztar eru í útlöndum. Þeir hafa meira að segja notað það sem agn fyrir stóriðjumenn.
Jafnframt eru ferðamenn að gera meiri kröfur. Þeim fækkar, sem vilja leggja leið sína til fjarlægra landa til að aka framhjá stóriðjuverum. Ef stóriðjuáform íslenzkra stjórnvalda væru kynnt í víðlesnum fjölmiðlum í útlöndum, mundi fljótlega stórsjá á ferðamannastraumi.
Í varnarstríði þráhyggjumanna stóriðjunnar kemur fram, að sætta megi stóriðju og náttúru. Að vissu leyti er það rétt. Þannig getur heilsulind undir gufuorkuveri orðið að heimsfrægum ferðamannastað. Tilviljun Bláa lónsins sýnir, að ótrúleg dæmi geta gengið upp.
Hins vegar dettur engum viti bornum manni í hug, að sætta megi mengun og ferðamannastraum. Efst á bannlistanum er auðvitað efnafræðileg mengun, sem er banabiti ferðamála. Ekkert þýðir að segja ferðamönnum, að útblástur stóriðjuvera sé bara meinlaust ryk.
Sjónmengun er flóknara dæmi, sem jafnvel má snúa ferðamálum í hag, ef rétt er haldið á spilunum, svo sem við Bláa lónið. Hugsanlegt er líka, að með lagni megi ganga frá uppistöðulónum, stíflum og raforkuverum á þann hátt, að það fæli ekki ferðamenn í burtu.
Frá sjónarmiði náttúruverndar og ferðaþjónustu er orðið úrelt að hengja raforkulínur upp í stálturna. Þessar leiðslur þarf allar að leggja í jörð, ekki aðeins þær, sem eftir er að leggja, heldur líka hinar, sem þegar hafa verið lagðar, oft í algeru tillitsleysi við landið.
Kostnaði við mengunarvarnir, frágang mannvirkja og strengi í jörð þarf að bæta við fjárhagsdæmi stóriðjunnar, sem þó var fyrir svo lélegt, að það er orðið að leyndarmáli, hvert orkuverð hennar er. Stjórnvöld hafa trassað að reikna kostnaðardæmi stóriðjunnar til enda.
Ekki getur heldur talizt farsæl leið til að selja þjóðinni hugmyndir um stóriðju að bregða leynd yfir það atriði, sem hingað til hefur verið eitt meginatriði umræðunnar um stóriðju, það er orkuverðið. Enda virðist ráðherrum vera að takast að koma óorði á stóriðju yfirleitt.
Linna þarf þráhyggju í stóriðju. Fá þarf færa menn til að reikna fjárhagsdæmi hennar á nýjan leik með nýjum breytum, einkum náttúruauði og ferðaþjónustu.
Jónas Kristjánsson
DV