Djúpsteikingar-hjúpurinn er alltaf jafn þunnur og léttur. Eldunartímar eru alltaf jafn skammir og nettir. Kínahúsið við Lækjargötu hefur árum saman verið bezta kínverska veitingahúsið í Reykjavík, ódýrt og fyrirferðarlítið, alltaf eins og alltaf traust. Matseðillinn er ekki framgjarn, býður hvorki snáka né svöluhreiður, en Canton-ættuð matreiðslan er vönduð. Hingað fer ég oftast, þegar ég nenni ekki að elda.
Matsalurinn er hóflega skreyttur á kínverska vísu, með flóknum ljósakrónum, tréskurði í skermum, skelplötumyndum á veggjum og ýmsu kínversku skrauti í gluggum. Rautt og hvítt lín er á borðum og tágar í stólsetum og baki. Hnífapör eru vestræn, svo og lágvær dósatónlist í bakgrunni. Stuttur vínlisti er vel valinn og ódýr. Þjónusta er góð og látlaus á þessum einfalda og rólega stað.
Í hádegi voru boðnar djúpsteiktar rækjur súrsætar með hrísgrjónum og súpu dagsins á 495 krónur og að kvöldi á 595 krónur. Í hádegi var hægt að fá þrjá rétti saman á 595 krónur, djúpsteiktar rækjur í karrí, súrsætt svínakjöt og lambakjöt í ostrusósu. Að kvöldi var boðið þríréttað á 695 krónur, súrsætar rækjur, kjúklingur í karrí og lambakjöt í ostrusósu.
Verðlagið gerist ekki betra í bænum, en samt er hver réttur séreldaður af natni fyrir hvern viðskiptavin. Ef valið er af fastaseðli, kosta aðalréttir um 925 krónur að meðaltali og þríréttuð máltíð með kaffi tæplega 2000 krónur, sem telst ódýrt í veitingahúsi á Íslandi.
Matarlegar og fremur þykkar súpur voru hæfilega en ákveðið kryddaðar og góðar, þar á meðal hákarlauggasúpa, humarsúpa og sjávarréttasúpa, sem oft hefur orðið fyrir valinu. Súpur koma hér á undan aðalréttum, en ekki á eftir, svo sem löngum hefur tíðkazt í Kína, enda sést strax af hnífapörum, að Kínahúsið hefur teygt sig í aðlögun að vestrænum háttum.
Viðkvæmar rækjur fóru vel við næma matreiðslu, svo sem djúpsteiktar rækjur súrsætar, pönnusteiktar rækjur með cashew hnetum og rækjur í karrí með grænmeti. Smokkfiskur með grænni papriku og bambusspírum var hins vegar fullseigur, svo sem slíkum hættir til.
Vorrúllur voru sérstaklega góðar, úr afar þunnum og stökkum pönnukökum. Þær eru raunar ekki síður vestrænt fyrirbæri í matargerð en kínverskt. Kjúklingur var yfirleitt hóflega eldaður og meyr, svo sem kjúklingur í karrí og bragðsterkur kjúklingur Kung pho Szechuan. Lambakjöt í ostruósu var líka meyrt og gott.
Eftirréttir eru ekki merkilegir, enda tíðkast þeir lítt í Kína. Sykur er hins vegar ofnotaður í sjálfri matreiðslunni, einnig að kínverskum hætti, og veldur votti af smeðjubragði. Til mótvægis er gott er að drekka mjólkur- og sykurlaust jasmínte með matnum.
Jónas Kristjánsson
DV