Á að fresta fíknum?

Greinar

Tæplega hundrað Íslendingar hafa leitað aðstoðar á rúmu ári vegna spilafíknar sinnar. Þar af hafa 75 farið í meðferð vegna þessarar fíknar, sem hefur snögglega orðið afar fyrirferðarmikil vegna fjölgunar spilakassa á vegum samstarfshóps nokkurra hjálparsamtaka.

Ekki er furða, þótt margir horfi nú til Svíþjóðar, þar sem nýlega voru bannaðir spilakassar af þessu tagi. Einnig fer það fyrir brjóstið á mörgum, að hjálparsamtök skuli hagnast á fíkn, þar á meðal samtök, sem starfa fyrir ríkið að meðferð hinnar sömu fíknar.

Sagan segir okkur, að niðurskurður framboðs er virkasta leiðin til að draga úr vandamálum eftirspyrjendanna. Þannig dró áfengisbann úr áfengisvandamálum á sínum tíma og þannig er fíkniefnavandinn minni en hann væri, ef fíkniefni væru seld á löglegan hátt.

Enginn vafi er heldur á, að heilsufar þjóðarinnar mundi stórbatna, ef tóbaksnotkun væri bönnuð. Ekki mundi heilsan skána minna, ef bannaður væri innflutningur á sykri og sykurblönduðum vörum. Þannig er alltaf til hin einfalda leið gegn fíknum að banna þær.

Áfengisbannið var fljótlega afnumið hér á landi eins og annars staðar. Ástæðurnar voru sumpart af hagsmunalegum toga, einkum hér á landi, þar sem saltfiskútflutningur var háður rauðvínsinnflutningi. En einnig hafði komið í ljós, að ekkert fékk hamið heimabrugg.

Erlendis hefur komið í ljós, að önnur vandræði aukast, þegar fíknarvandinn minnkar. Skipulagðir glæpaflokkar taka við starfseminni, sem bönnuð hefur verið, og verða svo fyrirferðarmiklir, að þjóðfélaginu stafar ógn af, svo sem gerðist í Bandaríkjunum á bannárunum.

Hér á landi er forsjárstefnan misjöfn eftir fíkniefnum. Fíkniefnið sykur og vörur úr sykri eru seldar í öllum matvörubúðum. Sama gildir um tóbak. Aðgangur að áfengi er hins vegar takmarkaður með því að hafa það aðeins í sérverzlunum og á veitingastöðum.

Aðgangur er takmarkaður að spilakössum með því að hafa framboðið takmarkað eins og að áfengi. Munurinn á kössunum annars vegar og áfengi og tóbaki hins vegar er, að í öðru tilvikinu hirða hjálparstofnanir tekjurnar, en í hinu er ríkið sjálft fíkniefnasalinn.

Í deilunum um meiri eða minni forsjá á þessum sviðum gleymist oft, að Íslendingar eru ekki lengur einangruð þjóð. Það er erfiðara en áður að framfylgja takmörkunum, sem ganga mun lengra en gerist í öðrum löndum. Við erum háð umheiminum í þessu sem mörgu öðru.

Með tímanum mildast vandamálin. Ítalir, sem hafa umgengist vín í þúsundir ára, búa við minna en 5% drykkjusýki. Engilsaxneskar þjóðir eru ekki eins þjálfaðar og fást við 10% drykkjusýki. Íslendingar koma úr meiri einangrun og verða að þola 20% drykkjusýki.

Enn verr á vegi staddir eru þeir, sem síðar lentu í samneyti við umheiminn. Þannig nemur drykkjusýki yfir 50% meðal Grænlendinga. Þjóðir, sem eru seint á ferðinni, verða að taka út sneggra og hastarlegra breytingaskeið en hinar. En þær geta ekki læst sig inni.

Af þessari ástæðu er ekki ráðlegt til lengdar að reyna að banna fíknivalda, sem hafa náð almennri útbreiðslu í umheiminum. Ríkið getur hins vegar skattlagt þá til að hafa upp í kostnað við forvarnir, heilsugæzlu og meðferð sjúkdóma, sem beint eða óbeint stafa af fíknum.

Til lengdar er farsælla, að þjóðin læri að lifa við spilakassa eins og ýmsa aðra fíknivalda fremur en að fara sænsku leiðina, því að hún gefur aðeins frest í málinu.

Jónas Kristjánsson

DV