Engu verður Gróska fegin

Greinar

Þótt formaður Alþýðubandalagsins segi, að ræða megi Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið, kom skýrt fram hjá honum, að niðurstaða umræðunnar gæti verið til beggja átta, meðal annars brottför úr Atlantshafsbandalaginu og úr Evrópska efnahagssvæðinu.

Ótímabær er fögnuður Gróskumanna og annars áhugafólks um vinstra samstarf út af ræðu Margrétar Frímannsdóttur formanns á miðstjórnarfundi Alþýðubandalagsins. Það er óskhyggja að túlka ræðuna sem vatnaskil í utanríkisstefnu bandalagsins.

Formaðurinn tók sérstaklega fram, að algerlega óviðunandi væri núverandi staða, það er að segja aðild okkar að Efnahagssvæðinu. Að þeirri forsendu gefinni er langsóttara, að lausnin felist í aðild að Evrópusambandinu en að hún felist í aðild að hvorugu samstarfinu.

Formaðurinn tók sérstaklega fram, að endurskoðun á aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu gæti leitt til þeirrar niðurstöðu, að við ættum að standa utan bandalagsins eða fækka þeim sviðum bandalagsins, sem við tökum þátt í. Þetta eru gamalkunn afturhaldsviðhorf.

Miðstjórn Alþýðubandalagsins varð við tillögunni um að ræða þessi mál og komst eftir umræðuna að nákvæmlega sömu niðurstöðu og alltaf áður, að Evrópusambandið og Atlantshafsbandalagið væru hinar verstu stofnanir, sem Alþýðubandalagið væri algerlega andvígt.

Miðstjórnarfundurinn lagði því þungan stein í götu sameiningarhugsjónar vinstri manna. Þegar Gróskumenn segjast sjá jákvæðar hliðar á fundinum, tala þeir gegn betri vitund. Þeir eru að reyna að forðast þá ímynd úti í bæ, að hugsjón þeirra sé að daprast flugið.

Fundur Alþýðubandalagsins staðfesti, að himinn og haf er milli samstarfs í sveitarstjórnarmálum, svo sem í Reykjavík, og samstarfs á landsvísu. Í borgarstjórn er hvorki verið að ræða utanríkis- og varnarmál né önnur viðkvæm mál á borð við sjávarútveg og landbúnað.

Alþýðubandalagið hefur hafnað að rétta hönd í átt til Grósku og hefur ítrekað fyrri afturhaldsstefnu sína. Það er andvígt því varnarbandalagi, sem öll Austur-Evrópa heimtar nú að fá að ganga í. Alþýðubandalagið er ófeimið við að verða síðasti móhíkaninn í Evrópu.

Þetta stafar af, að Alþýðubandalagið er hjartanlega andvígt hugmyndafræði Vesturlanda. Bandalagið er algerlega andvígt markaðshyggju Vesturlanda, takmörkun ríkisafskipta, auknu viðskiptafrelsi og öllu öðru, sem flokkast getur undir bannorðið kapítalismi.

Afturhaldið einskorðast ekki við yfirstétt bandalagsins. Sömu skoðanir eru útbreiddar í kjósendahópi þess. Þetta afturhaldssama fólk óttast nútímann og mun í hjarta sínu ekki fallast á aðild að nýjum samtökum, sem styðja mikilvæga þætti markaðshyggju Vesturlanda.

Sameiningarsinnar í Grósku hafa lengi tekið tillit til þessa vandamáls. Til þess að forðast, að Gróska verði stimpluð sem nýtt nafn á Alþýðuflokknum og Þjóðvaka, hafa þeir talið sér nauðsynlegt að kasta öllum mikilvægum málum í einn haug, merktan: “Til síðari skoðunar”.

Á stofnfundi Grósku fyrr í þessum mánuði kom fram, að nýja aflið segir pass í flestum málum, sem tekizt verður á um í þjóðfélaginu á næstu árum, svo sem í Evrópusamstarfi, kvótakerfum, byggðastefnu og veiðileyfagjaldi. Nýja aflið verður því utanveltu í umræðunni.

Eftir fund sinn hefur Alþýðubandalagið það áfram umfram Grósku að hafa skoðanir á ýmsum slíkum grundvallaratriðum, sem Gróska kallar dægurmál.

Jónas Kristjánsson

DV