Kelly Jean Helton fékk sömu fyrirgreiðslu hér á landi og Sophia Hansen hefði átt að fá fyrir löngu í Tyrklandi. Íslenzk stjórnvöld urðu við bandarískri framsalsbeiðni og afhentu móðurinni barnið. Tíminn var ekki látinn naga réttlætið með langvinnu dómsmáli.
Tyrkland stendur á mörkum tveggja heima, Evrópu og íslams, og veit ekki, í hvaða átt það er að fara. Að forminu til eru þar vestrænar stofnanir og að forminu til er Tyrkland aðili að vestrænum fjölþjóðasáttmálum. Síðan fer eftir aðstæðum, hvort formin eru marktæk.
Tyrknesk stjórnvöld hafa vikið sér undan að framselja dætur Sophiu í hennar hendur. Þau hafa vikið sér undan að hafa hendur í hári barnaræningjans Halims Als. Jafnframt hefur verið leikinn ljótur blekkingaleikur fram og aftur og upp og niður í dómskerfinu.
Ljóst er, að hvorki framkvæmdavald né dómsvald í Tyrklandi hafa farið eftir vestrænum leikreglum, þótt rammar þessara stofnana séu vestrænir að ytra formi. Undir yfirborðinu, sem Mústafa Kemal Tyrkjafaðir þröngvaði upp á ríkið, kraumar miðaldakvika íslams.
Trúarskríll er svo sem eins hvar sem er í heiminum, jafnt í Norður-Írlandi sem í Serbíu. Íslamskur trúarskríll er frekar fyrirferðarmikill um þessar mundir, svo sem dæmin frá Alsír sýna, af því að íslamskar þjóðir hafa öldum saman farið halloka fyrir kristnum.
Trúarskríllinn í Tyrklandi nýtur pólitísks stuðnings annars stjórnarflokksins og hinn er undir stjórn tækifærissinnaðs fjármálabraskara. Við slíkar aðstæður komast glæpamenn upp með margt í skjóli skrílsins. Og Halim Al hefur einmitt leitað skjóls í trúarfaðminum.
Hvorki framkvæmdavaldið né dómsvaldið í Tyrklandi treysta sér til að standa gegn trúarskrílnum í máli barna Sophiu. Sumir embættismenn ríkisins vilja gera það, en ráða ekki við málið, af því að Tyrkland vegur salt milli íslamskra miðalda og vestræns nútíma.
Undanfarin misseri hefur Tyrkland færzt nær miðöldum. Meira en áður er traðkað á mannréttindum, einkum af hálfu hers og lögreglu. Baráttumenn mannréttinda og blaðamenn eru myrtir í fangelsum í vaxandi mæli. Blóðugar ofsóknir gegn Kúrdum hafa færzt í aukana.
Áhrifamikil öfl í landinu reyna að hamla gegn öfugþróuninni og eru þar fjölmiðlar fremstir í flokki, einkum dagblöðin. Starfsmenn þeirra reyna að halda uppi vestrænni fréttamennsku, þrátt fyrir hótanir trúarskrílsins, sem til dæmis hefur tekizt að kúga marga dómara.
Stjórnvöld og hinn vestræni þáttur þjóðfélagsins reyna að auka samstarfið við Evrópu og leggja einkum áherzlu á aðild að Evrópusambandinu, í von um, að samstarfið snúi landinu aftur í vestrænan farveg. Því miður hafa tyrknesk stjórnvöld ekki gætt að heimavinnunni.
Til þess að fá aukna aðild að evrópsku samstarfi verða tyrknesk stjórnvöld að taka af meiri festu á yfirgangi trúarskrílsins og á mannréttindabrotum ríkisvaldsins, þar á meðal brotum þess gegn dætrum Sophiu. Aðild að Vesturlöndum er ekki og á ekki að vera ókeypis.
Ekki er nóg að reyna að fá bandaríska embættismenn til að hvetja evrópska leiðtoga til að setja kíkinn fyrir blinda augað, þegar rætt er um aukna aðild Tyrklands að evrópsku samstarfi. Slíkt leysir ekki sjálfar orsakir pólitískrar einangrunar Tyrklands í Evrópu.
Valdhafar geta ekki valið úr pakkanum, sem þeir telja henta, og hafnað öðru, svo sem mannréttindum. Vestræna er fyrirbæri, sem bara fæst í heilum pakka.
Jónas Kristjánsson
DV