Lán eru fíkniefni

Greinar

Tekjulágt fólk, sem þarf að dreifa kostnaði af sumarleyfisferð á lengri tíma en eitt ár, hefur ekki efni á ferð af því tagi. Ef það leiðist inn í villigötu auðfenginna ferðaskrifstofulána, getur það hæglega skuldað að lokum meira eða minna í sumarleyfum þriggja síðustu ára.

Eins er um tekjulágt fólk, sem þarf að dreifa kostnaði af bílkaupum á svo langan tíma, að skuldin lækkar hægar en verðgildi bílsins. Sú villigata gerir höfuðstólinn neikvæðan og hlýtur að enda með skelfingu, ef önnur fjármál bílkaupandans eru með líkum hætti.

Einnig er hættulegt fyrir fólk að kaupa bíla með lánum, sem fela í sér, að það verður að skipta við ákveðið tryggingafélag, sem hefur mun dýrari tryggingar en fólk getur aflað sér sjálft, ef það hefur augun opin. Þá er fólk að taka á sig dýrar kvaðir umfram skráða vexti.

Við höfum á undanförnum árum búið við stóraukið framboð lánsfjár. Margir eiga erfitt með að breyta hugarfari sínu frá þeim tíma, þegar skortur var á lánsfé og menn gripu hvert tækifæri, sem gafst. Nú verða menn að kunna að velja og hafna í offramboði lánsfjár.

Ekki er hægt að koma í veg fyrir, að fyrirtæki reyni að auka veltuna með því að bjóða lengri lán en skynsamlegt er fyrir viðskiptavinina að taka. Fólk verður einfaldlega að læra að lifa við þá staðreynd, að lánsfé er farið að fljóta um þjóðfélagið eins og önnur fíkniefni.

Ef litið er á arðgjöf þeirra hluta, sem fólk aflar sér með því að taka á sig afborganir og vexti af lánum, þá er ljóst, að neyzluvörur eða skammlífar eignir á borð við ferðalög, bíla og heimilistæki eru ekki líkleg til að standa undir hefðbundnum kröfum hagfræðinnar um arðsemi.

Alvarlegra er, að nýjar mælingar benda til, að almennt sé ekki arðbært að taka lán til að komast í langskólanám. Það stafar af, að almennt mat í þjóðfélaginu á gildi langskólamenntunar er ekki í samræmi við það, sem haft er á orði á tyllidögum þjóðarinnar.

Ýmist endurspegla umsamin laun háskólastétta ekki umframkostnað þeirra af langskólanámi eða þá að atvinnulífið metur ekki langskólanám sem svarar þessum umframkostnaði. Þetta er auðvitað alvarlegt íhugunarefni fyrir þjóðina í heild og einkum unga fólkið.

Ástandið hefur ekki alltaf verið svona. Á efri árum viðreisnartímabils sjöunda áratugarins var langskólagengið fólk orðið tiltölulega vel sett í samanburði við aðra. Þá voru líka bjartsýnir tímar í þjóðfélaginu og langskólagengið fólk horfði fram á traust vinnufæri.

Nú er öldin önnur. Stjórnvöld standa á framfarahemlunum og fyrirsjáanlegt er aukið atvinnuleysi langskólafólks ofan á tiltölulega lágar tekjur þeirra, sem fá vinnu. Þetta kann að breytast á löngum tíma, en í bili er ekki hægt að mæla með langskólanámi fyrir ungt fólk.

Húsbréf eru einu lánin, sem skynsamlegt er að taka um þessar mundir. Þau spara fólki húsaleigukostnað, sem yfirleitt er dýrari kostur og einkum óþægilegri vegna skorts á langtíma húsnæðisöryggi. Eigið húsnæði gefur fólki mun fastara land undir fætur en ella.

Á því verður að hafa þann fyrirvara, að brugðizt geta tekjurnar, sem greiðslumat byggist á. Fólk missir vinnu án þess að hafa gert neitt af sér. Fyrirtækjum getur gengið illa af öðrum ástæðum, til dæmis vegna aukinnar samkeppni. Þá geta húsbréf orðið að hengingaról.

Fólk þarf að átta sig á, að lán er ekki happdrættisvinningur, heldur umframpeningur, sem reynt er að pranga inn á það eins og hverju öðru fíkniefni.

Jónas Kristjánsson

DV