Fákeppni í sjónvarpi

Greinar

Stöð 2 keypti Stöð 3 beinlínis til þess að leggja hana niður og minnka þannig samkeppnina. Með kaupunum dregur Íslenzka útvarpsfélagið kjark úr nýjum aðilum og úr líkum á verðstríði á markaði sjónvarpsrása. Þannig eykur það langtímalíkur á rekstrarhagnaði sínum.

Kaupin voru annars eðlis en kaup Frjálsrar fjölmiðlunar á Degi-Tímanum og Alþýðublaðinu. Í því tilviki var markmiðið ekki að leggja litlu blöðin niður eða sameina þau DV, heldur að gefa þau áfram út sem sjálfstæð blöð með hefðbundnum fyrri stjórnmálaviðhorfum þeirra.

Eigendur Stöðvar 3 voru einnig að gæta sinna hagsmuna. Þeir höfðu þegar tapað hundruðum milljóna króna á skipulagsleysi og beinum mistökum. Þeir voru ekki líklegir til stórræða í samkeppni við mun farsælli eigendur Stöðvar 2 og sáu það sjálfir undir lokin.

Málsaðilar beggja vegna borðsins voru því að gæta hagsmuna sinna eins og bezt þeir gátu. Þeir gerðu það í samræmi við eðlilegar leikreglur og lögmál markaðshagkerfisins. Þar verða hinir veiku venjulega að víkja, annað hvort með því að gefast upp eða sameinast.

Athyglisvert er, að þetta er í fyrsta skipti í manna minnum, að hefðbundin stórfyrirtæki, sem kennd eru við kolkrabba og voru helztu eignaraðilar Stöðvar 3, hafa tapað í harðskeyttu valdatafli við fyrirtæki og einstaklinga, sem standa utan svonefnds kolkrabba.

Engu er enn hægt að spá um, hvort neytendur hagnast eða tapa á brottfalli Stöðvar 3, þótt venjulega tapi þeir á fækkun samkeppnisaðila. Enn síður er hægt að spá um, hvort hagsmunum íslenzkrar tungu og íslenzks sjónvarpsefnis verður betur borgið eða lakar.

Eitt er þó ljóst, að Stöð 3 hefur með sameiningunni leikið grátt þá starfsmenn, sem hún sótti fyrir skömmu af Stöð 2 við litla hrifningu ráðamanna hennar. Ólíklegt er, að þeir fái störf við hæfi á markaði, sem snögglega hefur dregizt saman við brottfall Stöðvar 3.

Athyglisvert er, að í hagkerfi Íslands er það yfirleitt óskadraumur samkeppnisfyrirtækja að losna úr samkeppninni og komast í einokunarstöðu á sinni hillu í lífinu. Þannig leiðir samkeppnin til fækkunar fyrirtækja og minnkunar á samkeppni, þegar tímar líða fram.

Eftir uppgjöf Stöðvar 3 er ekki líklegt, að neinir innlendir aðilar séu nógu sterkir til að leggja í samkeppni við Stöð 2 og ríkið sjálft. Fordæmi Stöðvar 3 er víti til varnaðar, sem sýnir, að auðvelt er að tapa miklum peningum á tilraunum til sjónvarpsrekstrar.

Nú er svo komið, að ríkið eitt heldur uppi samkeppni við Stöð 2 á ljósvakamarkaði. Búast má við, að andstaða við einkavæðingu Ríkisútvarpsins muni aukast í kjölfar andláts Stöðvar 3. Margir munu telja samkeppni af hálfu ríkisins skárri kost en alls enga samkeppni.

Athyglisvert er, að ríkið kemur raunar að málinu beggja vegna borðsins. Sem einkaeigandi ljósvakans hefur það úthlutað takmarkaðri auðlind hentugra sjónvarpsrása á þann hátt, að hún er öll komin á tvær hendur, ríkisins sjálfs og Íslenzka útvarpsfélagsins.

Búast má við, að útvarpsréttarnefnd ríkisins þurfi að taka afstöðu til hinnar nýju stöðu, sem felst í, að allar rásir, sem úthlutað hefur verið einkaaðilum á þeim tveimur bandvíddum, er hæfa núverandi loftnetum, hafa að lokum runnið í hendur Íslenzka útvarpsfélagsins.

En fákeppni er síður en svo ný bóla hér á landi. Flestir helztu þættir viðskipta og þjónustu á Íslandi lúta einmitt séríslenzkum lögmálum fákeppninnar.

Jónas Kristjánsson

DV