Hæstiréttur ber ábyrgðina

Greinar

Í hverju málinu á fætur öðru halda hæstaréttarlögmenn því nú fram, að Pétur Kr. Hafstein dómari sé vanhæfur til setu í dómi, af því að annar hvor málsaðili hafi ýmist beint eða óbeint annað hvort verið með honum eða á móti honum í forsetakosningunum í fyrra.

Þar á ofan spyrja aðrir hæstaréttarlögmenn, hverjir hafi lagt peninga inn á opinn og auglýstan bankareikning, sem framboð Péturs notaði til skamms tíma. Vildu þeir vita, hvort mótaðili þeirra hefði gripið tækifærið til að reyna að gera hosur sínar grænar fyrir Pétri.

Hæstiréttur hefði getað dregið verulega úr þessu öngþveiti og borið blak af Pétri dómara, ef gripið hefði verið til aðgerða strax að loknum forsetakosningum. Þá þegar átti dómstóllinn að afla sér fræðilegrar aðstoðar í framboðsmáli Péturs, helzt virtra prófessora erlendra.

Þannig hefði Hæstiréttur strax við lok réttarhlés í fyrrasumar getað haft í höndunum vel grundaðar vinnureglur um setu Péturs í dómi, samdar af erlendum þungavigtarmönnum. Þá hefði dómstóllinn sparað sér og Pétri mikið af endurteknum hremmingum vetrarins.

Hæstiréttur hefur á mörgum fleiri sviðum sýnt dómgreindarskort. Hann hefur til dæmis verið seinn að átta sig á, að hann á ekki lengur síðasta orðið um lög og rétt. Menn kæra einfaldlega dóma Hæstaréttar til Strassborgar og fá þeim þar hnekkt hverjum á fætur öðrum.

Einn þekktasti hæstaréttarlögmaður landsins hefur meira að segja skrifað bók um Hæstarétt, þar sem því er meðal annars haldið fram, að dómstóllinn hafi kerfisbundið reynzt hallur undir ríkisvaldið í úrskurðum sínum og gert sig sekan um seinagang í ýmsum málum.

Aðrir hafa haldið fram, að vinnubrögð Hæstaréttar hafi almennt hossað hinum sterku á kostnað hinna veiku í þjóðfélaginu. Þannig hafi seinagangur dómstólsins fælt öryrkja frá því að kæra of lágar bótagreiðslur tryggingafélaga eða þvingað þá til að semja um of lágar bætur.

Réttarörygginu hefur stafað hætta af seinagangi mála í Hæstarétti og hollustu hans við stjórnsýslu og valdaaðila í landinu. Þetta geta menn núna bætt sér upp með því að leita til Strassborgar, sem tekið hefur við réttlætishlutverki einvaldskonungsins í Kaupmannahöfn.

Ennfremur hefur Hæstiréttur haft forustu um kerfislæga skekkju í mati íslenzkra dómstóla á glæpum, þar sem peningar eru taldir æðri lífi og limum. Þannig hefur mótazt sú hefð, að einungis er notaður lægri kanturinn í refsiheimildum laga í líkamlegum ofbeldismálum.

Dómsmálaráðherra sá ástæðu til að kvarta yfir þessu í hátíðlegri athöfn við opnun hins nýja dómhúss Hæstaréttar. Hann hefur síðan ítrekað þessa skoðun, enda er ljóst, að Alþingi ætlast til þess með refsirömmum sínum, að allt svigrúm þeirra sé notað í báðar áttir.

Svo hafa einstakir dómarar Hæstaréttar, einkum forsetar hans, stundað atferli, sem rýrir virðingu dómstólsins. Einn reifst við hernámsandstæðinga. Annar safnaði niðurgreiddum vodkaflöskum í kjallaranum. Hinn þriðji stóð í undarlegum bréfaskriftum til manna úti í bæ.

Vangeta Hæstaréttar til að búa í tæka tíð til starfsreglur um setu Péturs Kr. Hafstein í dómi er þannig ekki annað en eitt af langri röð dæma um þrönga hugsun og dómgreindarskort á þeim bæ. Þessi langa röð hefur dregið úr virðingu dómstólsins og úrskurða hans.

Hæstiréttur ber sjálfur mesta ábyrgð á stöðu sinni í áliti lögmanna og stjórnmálamanna og á þeirri tilfinningu almennings, að réttlæti komi frá útlöndum.

Jónas Kristjánsson

DV