Stimpill fiskgæða

Greinar

Eftir árangursríka baráttu fyrir afnámi laxveiða í Norður-Atlantshafi hefur Orri Vigfússon kynnt í nokkrum löndum nýja hugmynd um gæðabandalag um fisk úr Norður-Atlantshafi. Komið verði upp vörumerki, sem ábyrgist gæði, hreinlæti og viðnám gegn ofveiði.

Hugmynd Orra er, að nokkrar þjóðir, sem búa við Norður-Atlantshaf, komi sér saman um ákveðna staðla, sem geti eflt ímynd sjávarfangs þessara þjóða og aukið verðgildi þess á markaði. Verði þetta væntanlega gert með vottunarkerfi, sem aflar sér trausts neytenda.

Orri telur til dæmis, að staðlarnir eigi að ná til gæða og hreinlætis við fiskvinnslu, svo og þess, að fiskurinn sé hvorki veiddur úr ofveiddum stofnum né með veiðarfærum, sem valda spjöllum á náttúrunni. Hann vill aðild hófsamra náttúrverndarsamtaka að gæðastöðlunum.

Hugmynd Orra er frábær. Hún tekur tillit til hræringa á neytendamarkaði. Hún er í samræmi við þróun vottunarkerfa á ýmsum sviðum. Markmiðið er að geta boðið afurðir, sem óháðir aðilar hafa staðfest, að eru framleiddar eftir reglum, er neytandinn telur mikilvægar.

Unnt er að sjá fyrir sér, að framkvæmd hugmyndarinnar muni leiða til, að vörumerki eða stimpill samstarfsaðilanna framkalli í hugum milljóna neytenda víða um heim jákvæða ímynd hreinnar og góðrar framleiðslu, sem beri af í heimi mengunar, óhollustu og sóðaskapar.

Verðgildi slíkrar ímyndar, stimpils, vörumerkis og vottunarkerfis er ómetanlegt, ef vandað er til verksins. Dæmin frá öðrum vottunarkerfum sýna, að þau leiða til hærra verðs fyrir afurðir, af því að nógu margir neytendur eru tilbúnir að borga meira fyrir vottaða vöru.

Það getur líka verið hættulegt að hafa ekki hliðsjón af breyttum kröfum neytenda víðs vegar á Vesturlöndum. Ef við höldum til dæmis áfram ofveiði á ýmsum tegundum nytjafiska, getum við fengið á okkur óorð, sem dregur úr verðgildi afurða okkar á erlendum markaði.

Endurnýjun hvalveiða getur líka haft sterk áhrif á ímynd íslenzks sjávarfangs og leitt til þess, að stórir aðilar í útlöndum þori beinlínis ekki að hafa það á boðstólum af ótta við tilfinningaríkar aðgerðir margra eða allra þeirra fjölmennu hópa, sem andúð hafa á hvalveiðum.

Við þurfum að hafna framtíðarmyndinni, sem felst í, að við kúrum hér norður í höfum og reynum sjálf að torga fiskinum okkar og hvalnum, af því að annað fólk fyrirlítur okkur og vill ekki skipta við okkur. Við erum ekki ein í heiminum. Við þurfum að vera með á nótunum.

Þegar breytingar verða á hugsun viðskiptavina, á andrúmslofti markaðarins, á rekstarumhverfi fyrirtækja, er bezt að draga ekki lappirnar, heldur verða á undan öðrum að laga sig að nýjum aðstæðum. Í viðskiptum er ávallt bezt að vera framan við öldufaldinn.

Hugmynd Orra vísar fram á veginn. Einhverjir verða fyrstir til að framkvæma hana og ná kúfnum af varanlegu trausti og ímynd, sem því fylgir. Aðrir munu koma í kjölfarið, en minna verður tekið eftir þeim. Enn aðrir munu reyna að sleppa ódýrt og munu bera tap úr býtum.

Orri er að tala um innihald og ímynd hugsjónarinnar um hreint og ómengað úthaf, um sífellt endurnýjaðar auðlindir þess, um hreinlæti og natni í matvælaiðnaði án aukefna, um stóran ímyndarpakka, sem eflir stöðu okkar á fleiri sviðum, svo sem í ferðaþjónustu.

Hugmynd Orra er rökrétt. Vegna fyrri árangurs hans við að tengja saman hagsmunaaðila víða um lönd er ástæða til að vona, að hann nái einnig árangri nú.

Jónas Kristjánsson

DV