Hvalveiðihetjur

Greinar

Almennur stuðningur þjóðarinnar við endurnýjaðar hvalveiðar stafar fyrst og fremst af þjóðernishugsjón. Menn vilja ekki, að útlendingar segi okkur fyrir verkum, allra sízt ef málstaður okkar hefur verið studdur frambærilegum rökum, sem ekki hefur verið hlustað á.

Svo trúaðir eru margir á hugsjón hvalveiða, að þeir loka augunum fyrir tæknilegum og fjárhagslegum erfiðleikum við framkvæmd málsins, meðal annars þeirri, að erfitt verður að selja afurðirnar. Japanir hafa hreinlega skuldbundið sig til að kaupa ekki slíkar afurðir.

Líklega telja menn, að unnt verði að selja íslenzkar hvalaafurðir undir borði í útlöndum, framhjá ákvörðun, sem hugsanlegar viðskiptaþjóðir hafa tekið í Alþjóða hvalveiðiráðinu. Raunin mun þó verða sú, að Japanir og aðrir verða dauðhræddir við að kaupa hvalinn.

Ástæðunnar er fyrst og fremst að leita í Bandaríkjunum, þar sem eru fjölmenn og áhrifamikil samtök af ýmsu tagi, sem beita sér gegn hvalveiðum. Þau hafa fengið Bandaríkjastjórn til að hóta öllu illu þeim ríkjum, sem taki upp á því að veiða og selja ættingja Moby Dicks.

Japanir eru viðkvæmir fyrir bandarískum þrýstingi, af því að vöruskiptajöfnuður landanna er óhagstæður Bandaríkjamönnum, sem stundum hafa uppi viðskiptahótanir til að þvinga fram betri jöfnuð. Japanir vilja ekki láta íslenzkt hvalkjöt trufla jafnvægið.

Ekki verður breytt viðhorfum Bandaríkjamanna og annarra Vesturlandabúa hvalveiðum í hag. Þvert á móti má búast við, að sjónarmiðin harðni. Þeim fjölgar stöðugt, sem taka tilfinningalega afstöðu til meðferðar mannkynsins á náttúrulegu umhverfi jarðarinnar.

Hvalveiðar eru kjörinn þrýstihnappur fyrir þetta fólk, sem hefur lesið um gegndarlausa ofveiði hvala á fyrri áratugum. Þær eru sameiningartákn andstæðinga gróðurhúsaáhrifa og mengaðs úrgangs, skógarhöggs í regnskógum og útrýmingar tígrisdýra og allra hinna.

Ekkert umhverfismál vekur eins heitar tilfinningar umhverfissinna af ýmsu tagi og einmitt hvalveiðar. Fastlega má búast við, að þúsundir manna gangi berserksgang gegn íslenzkum hagsmunum, ef fréttist af því, að hvalveiðar hafi verið teknar hér upp að nýju.

Frá skrifstofum Ferðamálaráðs í Frankfurt og New York berast afdráttarlausar áhyggjur af framvindunni. Markaðsstjóri Flugleiða segir, að fyrirtækið hafi fundið fyrir óþægindum vegna umræðunnar um hvalveiðar. Kaupendur íslenzkra fiskafurða skjálfa á beinunum.

Nýlega var hér varaforseti landssamtaka bandarískra fyrirtækja í fiskiðnaði. Hann varaði okkur eindregið við því að hefja hvalveiðar að nýju. Hann sagði ekki nokkurn vafa á, að hvalveiðar Íslendinga mundu kalla á hörð viðbrögð og jafnvel viðskiptabann í Bandaríkjunum.

Mál þetta er ekki innan ramma rökhyggju og verður ekki leyst með fleiri skýrslum og fleiri ráðstefnum. Andstæðingum hvalveiða fer einfaldlega fjölgandi í umheiminum og áhrif þeirra fara ört vaxandi. Þeir eru í aðstöðu til að valda Íslendingum miklu fjárhagstjóni.

Samt erum við enn að heimta endurvaktar hvalveiðar. Við erum svo mikil hetjuþjóð, að þorri manna er reiðubúinn að gefa dauðann og djöfulinn í þvæluna úr útlendingum og neitar að horfast í augu við hrikalegt efnahagshrun í landinu af völdum viðskiptaþvingana.

Það hæfir þó betur smáþjóð, sem á allt sitt undir góðum samskiptum við kaupendur víða um heim, að hún sigli milli skers og báru og ýfi ekki öldur tilfinninga.

Jónas Kristjánsson

DV