Hægfara stóriðjuþróun

Greinar

Stóriðja er eðlilegur þáttur atvinnulífsins. Hún rennir fleiri stoðum undir efnahag þjóðarinnar. Mönnum er hins vegar ekki sama um, hvar hún er reist og hvernig staðið er að hollustu og umhverfisvernd. Um þau atriði snúast yfirleitt íslenzkar deilur um stóriðju.

Þrír fjórðu hlutar þjóðarinnar eru samþykkir álveri á Keilisnesi og tveir þriðju á Grundartanga. Munurinn sýnir, að staðsetning stóriðju hefur áhrif á stuðning fólks. Reykjanesskagi er frá sjónarmiði umhverfisverndar og að mati fólks betri kostur en Hvalfjörður.

Valið stendur að vísu ekki milli Keilisness og Grundartanga, því að stefnt er að álveri á báðum stöðum. Það vill hins vegar svo til, að samningar við Columbia um Grundartanga gengu greiðar en samningar við þríeykið, sem er að hugsa um að reisa álver á Keilisnesi.

Stóriðja hefur í rekstri ekki mikil áhrif í atvinnulífinu. Hún veitir tiltölulega fáum atvinnu og tengist lítið öðrum atvinnugreinum. Reynslan sýnir ekki, að úrvinnslugreinar myndist í kjölfar stóriðju. Hún stendur að ýmsu leyti utan íslenzks hversdagsleika.

Stóriðja í byggingu hefur hins vegar mikil skammtímaáhrif. Í senn þarf að reisa orkuver og stóriðjuver. Þessar framkvæmdir kalla tímabundið á mikinn mannskap. Við sjáum nú þegar, að stækkun álversins í Straumsvík hefur átt þátt í að lagfæra atvinnujafnvægið.

Ráðagerðir um mikla stóriðju á næstu árum ýta undir kröfur stéttarfélaga um hærri laun. Félagsmenn þeirra hafa ekki eins miklar áhyggjur af atvinnuleysi við núverandi aðstæður og þeir höfðu fyrir svo sem tveimur árum, þegar kreppan var því sem næst í hámarki.

Fyrirhugaðar framkvæmdir við stóriðju geta hæglega orðið svo miklar, að það leiði til skorts á vinnuafli og launaskriðs, sem síðan setur verðbólguna af stað aftur. Til að forðast sveiflur vinnukúfa og vinnulægða er farsælast, að hver framkvæmdin taki við af annarri.

Því mega stjórnvöld ekki halda, að sérhver hugmynd um stóriðju sé eins konar ávísun á happdrættisvinning, sem afla verði, hvað sem hann kostar. Menn verða að kunna að velja milli þess, sem ætla má, að gefi þjóðfélaginu mestan arð, og hins, sem minna gefur af sér.

Ennfremur mega stjórnvöld ekki halda, að beita megi öllum ráðum til að fá hingað stóriðju, þar á meðal slá af eðlilegum kröfum um hollustu- og umhverfisvernd. Því miður hafa þau verið í slíkum stóriðjuspreng, að þau hafa fórnað nokkru á þessum mikilvægu sviðum.

Ríkið rekur afleita stofnun, sem heitir Hollustuvernd, en ætti að heita Óhollustuvernd. Þessi óheillastofnun hefur unnið gegn hollustu- og umhverfissjónarmiðum. Það gildir bæði um undirbúning nýrrar stóriðju og eftirlit með þeirri stóriðju, sem fyrir er.

Ráðagerðir stjórnvalda um stóriðju vektu meira traust, ef þessari stofnun væri bylt og á rústum hennar reist ný stofnun, sem starfaði á eðlilegan hátt að hollustuvernd í atvinnulífinu og gæfi ekki hvað eftir annað tilefni til flimtinga í skopþáttum fjölmiðlanna.

Jöfn og þétt og ekki of hröð uppbygging stóriðju ætti að vera svo eðlilegur þáttur íslenzks efnahagslífs, að ekki ætti að þurfa stórfelldar illdeilur um sérhverja verksmiðju. Þess vegna þarf að skipta út stjórnendum Hollustuverndar og herða kröfur um mengunarvarnir.

Einnig þarf að vanda svo til staðsetningar stóriðju, að hún verði nágrönnum sínum fagnaðarefni og mannasættir, en setji ekki allt á annan enda í héraði.

Jónas Kristjánsson

DV