Enn eyðist landið

Greinar

Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðslan hafa að nýju tekið út jarðvegsrof á Íslandi og staðfest það, sem flestir vissu áður, að rofið er mikið á nærri helmingi landsins, að fimmtungur landsins er ekki beitarhæfur og að stjórna verður beit á þriðjungi þess.

Rannsóknirnar staðfesta, að friða ber hálendi landsins og flest afréttalönd fyrir búfé. Helzta undantekningin er norðurhluti borgfirzkra afrétta og vesturhluti húnverskra. Einkar illa farnar eru allar afréttir Sunnlendinga, Skagfirðinga, Eyfirðinga og Suður-Þingeyinga.

Rannsóknirnar staðfesta, að móbergssvæði landsins þola ekki beit. Þetta er belti, sem nær þvert yfir landið, að sunnanverðu einkum Rangárvallasýslu og að norðanverðu einkum Suður-Þingeyjarsýslu. Þetta er eldfjallabeltið, þar sem berg er lint og veðrast hratt.

Þótt sauðfé hafi fækkað töluvert á síðustu árum, þarf því að fækka enn verulega, svo að fjöldinn verði í samræmi við beitarþol landsins. Sums staðar þarf ekki að fækka fé, svo sem í Borgarfirði og Húnavatnssýslum, en á sumum stöðum þarf beinlínis að hætta sauðfjárrækt.

Dæmi um óhæft sauðfjárland eru beitarlönd Mývetninga. Þar hafa bændur árum saman þverskallazt við reglum Landgræðslunnar og sigað sauðfé sínu á nálina í sandinum, sumpart í skjóli nætur til að forðast myndatökur fjölmiðla. Sauðfé við Mývatn er glæpur.

Til viðbótar við ofbeit af völdum sauðfjár er að koma til sögunnar ofbeit af völdum hrossa. Hin síðartalda er yfirleitt á öðrum stöðum, ekki á hefðbundnum afréttum, heldur í fjallshlíðum í nágrenni heimahaga. Þetta má til dæmis sjá sums staðar í Skagafirði og Eyjafirði.

Fjölgun hrossa hefur verið úrræði margra bænda, sem hafa orðið að fækka öðru búfé. Viðbótin kemur að litlu gagni við ræktun góðhrossa, en eykur fjölda sláturhrossa. Útflutningsmarkaður hrossakjöts hefur hrunið á síðustu árum, svo að þessi hross eru verðlaus.

Góðhrossin, sem seljast í vaxandi mæli og dýrum dómum til útlanda, eru afrakstur tiltölulega lítils hluta hrossastofnsins. Þetta eru hross bændanna, sem hafa sérhæft sig í hrossarækt og yfirleitt byggt ræktun sína upp á löngum tíma og safnað dýrmætri sérþekkingu.

Hrossum má fækka mikið hér á landi, án þess að það skaði neitt útflutningstekjurnar, jafnvel þótt hliðstæð sprenging verði í sölunni vestan hafs og áður hefur orðið austan hafs. Ofbeit af völdum hrossa stuðlar því ekki að auknum tekjum í landbúnaði. Hún er óþörf með öllu.

Bændasamtök Íslands berja enn höfðinu við steininn og virðast föst í ógæfulegu hlutverki þjóðaróvinar númer eitt. Enn einu sinni neita þau að fallast á niðurstöður fræðimanna, jafnvel þótt þær komi að þessu sinni frá rannsóknastofnun landbúnaðarins sjálfs.

Því miður eru næstum öll stjórnmálaöfl landsins sem strengbrúður í höndum landbúnaðarins. Þess vegna hefur áratugum saman verið reynt að hamla gegn sjálfsagðri og eðlilegri eyðingu byggða, í stað þess að byrja fyrir löngu að borga mönnum fyrir að bregða búi.

Engin ný sannindi eru á ferð í þessum efnum. Gróðurkortagerð var búin að leiða ástandið í ljós fyrir aldarfjórðungi. Í aldarfjórðung hefur rækilega verið rökstutt, meðal annars í blaðaskrifum, að markvisst þurfi að draga úr hefðbundnum landbúnaði, einkum sauðfjárrækt.

Samt eru ráðamenn bænda og þjóðar enn í dag ákveðnir í að þola framhald landeyðingar inn í næstu öld, rétt eins og hér sé þriðja heims ríki í jaðri Sahara.

Jónas Kristjánsson

DV