Þriðja heims strand

Greinar

Dögum saman fréttist ekkert af sjónarmiðum viðkomandi stjórnvalda á strandi Vikartinds við Þjórsárósa og eftirmálum þess. Ekkert var til dæmis vitað um, hvort þau teldu nógu hratt staðið að hreinsun mengunarefna, né sýndu þau neitt framtak sjálf á slíkum sviðum.

Eftir því sem dagarnir liðu, bárust fréttir af erlendum sérfræðingum, sem hingað voru komnir til að meta stöðuna. Síðan var upplýst, að tryggingafélög ætluðu að bjóða út björgunina. Ennfremur, að seigfljótandi svartolía væri í farminum og sennilega blásýruduft einnig.

Ekkert fréttist af svefni margfrægrar Hollustuverndar ríkisins fyrr en mörgum dögum eftir slys. Þá sagði talsmaður mengunarvarna stofnunarinnar, að hún vildi einmitt, að varlega yrði farið í sakirnar í máli þessu. Þá þegar var brestur kominn í skipsskrokkinn.

Meðhöndlun málsins er hin sama og við svipaðar aðstæður í þriðja heiminum. Stjórnvöld á staðnum klóra sér í höfðinu, en sérfræðingar frá vesturveldunum koma á staðinn, þegar þeir mega vera að, og láta bjóða út björgunaraðgerðir til að finna, hver býður lægst verð.

Ekkert er vitað um, hvort hagsmuna viðkomandi ríkis og borgara þess er gætt á fullnægjandi hátt með þessum vinnubrögðum. Engin af hinum fjölmörgu innlendu ríkisstofnunum hefur nein sjáanleg afskipti af framvindu málsins, heldur horfa menn opinmynntir á útlendinga.

Það er eins og skipsströnd séu óþekkt fyrirbæri við strendur Íslands og að innlendir aðilar séu óvanir að taka til hendinni við slíkar aðstæður. Það er eins og eftirmál skipsstranda séu svo flókin, að bíða þurfi í ró og mag eftir úrskurðum og útboðum erlendra sérfræðinga.

Lögreglan á Hvolsvelli hefur haft framtak til að fylgjast með blásýrugámi, sem hún segir vera orðinn hættulega tæpan í síminnkandi gámastæðu á þilfari skipsins. Ekkert hafði í gær verið sjáanlega gert til að bregðast við þessum fróðlegu upplýsingum úr héraði.

Í gær var enn verið að sjóða stiga á síðu skipsins til að koma um borð tólum og tækjum til að reyna að dæla svartolíunni frá borði. Þá voru liðnir fimm dagar frá strandinu og ekki vitað, að viðkomandi stjórnvöld hafi reynt að fá þessum aðgerðum flýtt sem mest.

Mengunarráðherra landsins hafði loks á sunnudag tíma til að fara í túristaferð á strandstað og blaðra um málið eins og honum og embætti hans væri það meira eða minna óviðkomandi. Slík viðbrögð virðast framhald af stefnu ráðuneytisins í mengunarvörnum stóriðjuvera.

Kjarni þessa eftirleiks er, að við eigum þriðja heims stofnun, sem heitir Hollustuvernd ríkisins, sem heyrir undir þriðja heims ráðuneyti, sem heitir Umhverfisráðuneytið, sem heyrir undir þriðja heims ríki, sem heitir Ísland. Þetta eru allt saman vanhæfar stofnanir.

Af þessum ástæðum eru það erlendir aðilar á vegum erlendra tryggingafélaga, erlendra útgerðarmanna og erlendra björgunarfélaga á útboðsmarkaði, sem ákveða, hvernig og hversu hægt staðið er að málum og þá út frá hagsmunum, sem kunna að vera aðrir en okkar.

Það má hafa til marks um, að ríki hafi fullorðnazt og sé ekki lengur þriðja heims ríki, heldur aðili að Vesturlöndum, þegar það getur tekið ákvarðanir í eigin hagsmunamálum og þarf ekki lengur að horfa upp á, að útlendar stofnanir taki völdin á erfiðum stundum.

Dæmin sýna, að Ísland er sem ríki skammt á veg komið í mengunarvörnum. Við höfum áður séð það í sinnuleysi stjórnvalda vegna mengunar frá stóriðjuverum.

Jónas Kristjánsson

DV