Tónninn er sleginn

Greinar

Ef nýgerðir kjarasamningar flæða meira eða minna um allt þjóðfélagið, hefur almenningur loksins fengið að taka þátt í góðærinu. Með samningunum er búið að bylta lægstu launum í þjóðfélaginu og efna til umtalsverðrar aukningar á almennum kaupmætti á næstu árum.

Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti ákveðið að liðka fyrir samningum, einkum með því að lækka álagningarprósentu tekjuskatts á samningstímanum úr tæplega 42% í tæplega 38%, hækka skattleysismörk almennings og hækka álag á raunverulegar hátekjur úr 5% í 7%.

Ríkissjóður mun fá sumt af tekjuskattslækkuninni til baka í formi virðisaukaskatts af aukinni útgjaldagetu almennings. Það, sem á vantar til að halda hallalausum rekstri ríkisbúskaparins, verða stjórnvöld að spara með því að draga saman seglin á ýmsum sviðum.

Mikilvægast af öllu þessu er, að samningarnir og stjórnvaldsaðgerðirnar eiga ekki að þurfa að leiða til verðbólgu. Vinnuveitendur og ríkisstjórn hafa raunar með undirskriftum og yfirlýsingum tekið ábyrgð á því, að festa haldizt áfram í þjóðfélaginu næstu árin.

Erfiðasti þátturinn verður vafalaust viðskiptajöfnuður þjóðarbúsins gagnvart útlöndum. Með aukinni kaupgetu almennings má búast við, að ásókn aukist í innfluttar vörur og þjónustu. Við þessu verður að bregðast, einkum með auknum útflutningi á vörum og þjónustu.

Ferlið hefur verið markað í kjarasamningunum. Tvö stéttarsambönd og eitt stórt félag hafa samið til þriggja ára um miklar hækkanir lágmarkslauna og 12-14% almenna kauphækkun í þremur áföngum, sem á að fela í sér 8-10% aukningu kaupmáttar á samningstímanum.

Verzlunarmannafélag Reykjavíkur braut ísinn með tímamótasamningi við Félag íslenzkra stórkaupmanna. Nú hefur það samið við Vinnuveitendasambandið á sömu nótum. Og í hópinn hafa bætzt Rafiðnaðarsambandið og Landssamband iðnverkafólks, fjölmenn samtök.

Þótt forustumenn ýmissa annarra stéttarfélaga segist vera ósáttir við þessa samninga, er ljóst, að tónninn hefur verið sleginn og aðrir munu fylgja á eftir. Dagsbrún í Reykjavík og nokkur félög í Verkamannasambandinu munu verða tregust, en eiga fárra kosta völ.

Búast má við, að áhugi Dagsbrúnarmanna á langvinnum verkföllum minnki, þegar þeir átta sig á, hversu lítils virði það er, sem forustumenn þeirra leggja mesta áherzlu á, í samanburði við það, sem þegar hefur náðst. Helzt eru það rauðu kaupmáttarstrikin, sem enn vantar.

Kjarasamningarnir og stjórnaryfirlýsingin fela í sér svo einföld og auðskilin atriði, að erfitt verður að halda löngum dampi á verkföllum út á andstöðu við aukið svigrúm á dagvinnutíma og önnur hliðstæð atriði, sem blikna í samanburði við sjálfan kaupmáttinn.

Þjóðfélagið verður mun réttlátara, þegar lágmarkslaun lyftast upp í 65.000-70.000 krónur hjá hinum allra lægst launuðu og lágmarkslaun sumra stétta lyftast alla leið í 95.000-100.000 krónur. Þessi mikla lyfting lægstu launa er siðferðilegur hornsteinn nýju kjarasamninganna.

Sumir forustumenn í Alþýðusambandinu eru dálítið móðgaðir út af því, að einstök stéttarfélög og eitt landssamband hafa tekið frumkvæðið úr höndum þeirra. Samt er við því að búast, að þeir sjái ljósið og fylgi í humátt á eftir því. Flestum samningum mun því ljúka fljótt.

Niðurstaðan er ekki sjónhverfing, þar sem allir eru fyrst og fremst að gabba sjálfa sig. Málsaðilar hafa leyst hnútinn að þessu sinni. Það er minnisstætt afrek.

Jónas Kristjánsson

DV