Rauðu strikin vantar

Greinar

Ríkisstjórnin mun áreiðanlega reyna að hindra fyrirhugaða kaupmáttaraukningu nýgerðra kjarasamninga. Það stafar ekki af sérstakri vonzku hennar. Ríkisstjórnir hafa yfirleitt tilhneigingu til að reyna að draga úr stærðum, sem trufla þægilegt gangverk þjóðarbúsins.

Auðveldara verður fyrir ríkisstjórnina að halda verðbólgu í um það bil 2% eða lægri tölu, ef kaupmáttur almennings eykst ekki á næstu árum. Meiri líkur eru á, að viðskiptajöfnuður gagnvart útlöndum haldist í böndum, ef kaupmáttur almennings eykst ekki á næstu árum.

Aukning kaupmáttar um 8-10% á þremur árum verður fyrirferðarmikil staðreynd í breytingum á öðrum stærðum þjóðhagsreikninga á sama tíma. Þess vegna mun ríkisstjórnin að óbreyttu reyna að haga málum á þann veg, að kaupmátturinn aukist ekki svona mikið.

Vegna þessarar freistingar var óráðlegt hjá verzlunarmönnum, rafiðnaðarmönnum og iðnverkafólki að setja ekki skilyrði um þetta efni í kjarasamningana, svo sem hin hefðbundnu rauðu strik, er gefa samninga lausa að nýju, ef ytri forsendur þeirra breytast verulega.

Eðlilegt er, að stéttarfélögin, sem eiga eftir að semja, reyni að koma rauðum strikum í sína samninga. Enda er greinilega áhættusamt að semja til þriggja ára án þess að hafa neinn endurskoðunarrétt, ef valdamenn þjóðfélagsins eyða mestum hluta kjarabótarinnar.

Með rauðum strikum í samningum eru stjórnvöldum settar þröngar skorður. Þau geta síður hossað forréttindahópum, aukið stéttaskiptingu, einkavinavætt í þágu pilsfaldafyrirtækja og dregið úr opinberri þjónustu við almenning, ef þau þurfa að standa við rauð strik.

Ríkisstjórn, sem þarf í senn að forðast aðgerðir, sem rýra umsaminn kaupmátt, og forðast verðbólgu og viðskiptahalla, er í eins konar spennitreyju. Og það er einmitt góður fatnaður fyrir aðila, sem hafa reynzt búa yfir mikilli tilhneigingu til að falla fyrir freistingum.

Það er líka gott fyrir aðra aðila, sem ráða miklu í þjóðfélaginu, að haga málum á þann veg, að kjarasamningar verði ekki lausir fyrir tímann. Lausir kjarasamningar valda alltaf óvissu, sem leitar útrásar á óhagstæðan hátt, svo sem í hærri vöxtum en ella þyrftu að vera.

Ef almennt verður samið til þriggja ára og fyrirsjáanlegur er vinnufriður í þrjú ár, munu vextir lækka og auðvelda atvinnulífinu að taka á sig kostnað kjarasamninganna án þess að hækka verð og valda verðbólgu. Það er því mikið í húfi fyrir marga aðila.

Rauðu strikin eru langsamlega mikilvægustu atriðin, sem ekki komust inn í fyrstu kjarasamningana. Öll önnur atriði, sem ekki komust inn, blikna í samanburði við þau. Þau eru forsenda þess, að ríkisstjórnin létti ekki af sér efnahagsþrýsingi með því að spilla kaupmætti.

Rauð strik þurfa ekki að vera í öllum kjarasamningum til þess að ná tilgangi sínum. Þau má vanta í samninga verzlunarmanna, rafiðnaðarmanna og iðnverkafólks, ef þau eru í nógu mörgum samningum til þess, að ríkisstjórnin vilji varðveita vinnufriðinn í landinu.

Einkennilegt er, að lífsreynt fólk, sem hefur árum og áratugum saman unnið að kjarasamningum og þekkir algengustu freistingar stjórnvalda, skuli ekki leggja meiri áherzlu á rauð strik, sem hingað til hafa þó stuðlað að því að halda stjórnvöldum við vinnuna sína.

Þeir, sem enn eiga eftir að semja, ættu að láta öll önnur atriði og óskhyggju víkja fyrir því einu, að rauð strik tryggi kaupmáttaraukann sem verið er að semja um.

Jónas Kristjánsson

DV