Tjörnin

Veitingar

Stuð hefur verið á Tjörninni að undanförnu, enda Rúnar Marvinsson oft við eldavélina. Sama er, hvar gripið er niður í fiskréttunum, allt frá sýnishornum hráfiskjar að japönskum hætti yfir í hefðbundna rétti staðarins á borð við eldsteikta tindabikkju með capers og pernod og kryddlegnar gellur eftir kenjum kokksins. Allt kemur þetta munnvatnskirtlum á fulla ferð strax við lestur matseðils.

Matreiðslan hefur stundum slaknað, þegar Rúnar er fjarverandi, sem gerist einkum á sumrin. Þótt aðrir séu góðir í eldhúsinu, býr Rúnar yfir óskólaðri og jarðbundinni eðlishæfni, sem lyftir matreiðslu hans á góðum stundum yfir slípaða lærdómslist skólagenginna meistara, sem eyða orku í marklítil og leiðigjörn formsatriði á borð við þau, sem verðlaunuð eru á sýningum.

Raunar ætti Tjörnin að vera á niðurleið. Gæðalögmálið segir, að veitingahús versni, þegar þau stækki. Tjörnin, sem fyrst rúmaði 35 manns, tekur núna rúmlega 90 manns til borðs, auk mikils rýmis í setustofum á þriðju hæð hússins. Nánast er kraftaverk, hvernig þröngt eldhúsið stendur undir útþenslunni, sem kann varla góðri lukku að stýra til lengdar.

Samræmdar og kantaðar ljósakrónur í aðalmatstofunum hafa í seinni tíð varpað skugga á ljúflega ósamstætt aðdráttarafl gamalla húsgagna úr ýmsum áttum, ísaumaðra og heklaðra dúka, blómaveggfóðurs og dúkkulísa. Ennfremur er sem fyrr ofhlaðið fyrirferðarmiklum sófasettum í fínlegar setustofur millistríðsáranna.

Tjörnin er fremur dýr, en ekki þó í hópi dýrustu veitingahúsa borgarinnar. Meðalverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er um 3.600 krónur fyrir utan vín. Í hádeginu er enn hægt að fá súpu og rétt dagsins fyrir 1.000 krónur. Þetta frábæra tilboð bragðast eins vel og aðrir réttir matseðilsins. Um daginn fólst það í dökkri og bragðmikilli grænmetissúpu og frábærlega hvítlauksristuðum kolaflökum með hrísgrjónum og öflugri karrísósu.

Fiskréttirnir eru síbreytilegir. Síðast voru meðal þeirra bakaður saltfiskur, heilsteiktur sólkoli, pönnusteikt eldislúða, smjörsteikt þorskhrogn og hvítlauksristaður smokkfiskur. Réttirnir voru ólíkir innbyrðis, en hver um sig magnaður. Kryddjurtir voru djarft notaðar í hvítlaukssósu, karrísósu, tómatsósu, ostasósu, piparrótarsósu og engifersósu. Ljúft var að draga afganginn af sósunum upp í litlu, mjúku brauðkollurnar, sem bakaðar eru staðnum.

Sítrónuleginn hrár fiskur hússins er oft á matseðlinum, nokkrar tegundir, svo sem lúða, rækjur, humar og þorskhrogn. Þau síðastnefndu hafa einnig verið á boðstólum smjörsteikt með rjómahvítlaukssósu og reyksoðin með piparrótarsósu. Fiskisúpa staðarins reyndist vera fínleg að venju, ekki of mikið rjómuð og með afar meyru sjávarfangi.

Eldhúsið hefur yfirleitt ekki sömu tilfinningu fyrir matreiðslu kjöts og sjávarfangs. Þungsteiktar skarfabringur flutu í gríðarlegu magni af dimmri portvínssósu og þurrum bláberjum. Hins vegar var stokköndin að þessu sinni meyr og ljúf, borin fram með döðlum og mildri koríandersósu.

Matreiðslan á Tjörninni hefur löngum verið hin fjölbreyttasta og frumlegasta á landinu. Um þessar mundir er hún tvímælalaust einnig hin bezta.

Jónas Kristjánsson

DV