Leyndarhjúpur yfir einokun

Greinar

Póstur & sími er sama einokunarstofnunin og hún var, áður en henni var breytt í hlutafélag. Einkavæðingin á þeim bæ felst eingöngu í að bæta kjör helztu yfirmanna stofnunarinnar svo langt út af kortinu, að þau eru orðin að viðkvæmasta ríkisleyndarmáli landsins.

Póstur & sími mun haga sér hér eftir sem hingað til. Stofnunin mun rukka fyrir afnotagjald af síma, sem enn hefur ekki verið settur upp. Hún mun tregðast við að draga úr rofum og stytta rof á internetsambandi milli landa. Hún getur áfram hagað sér sem henni þóknast.

Stofnunin mun áfram nota einokunaraðstöðu sína til að stunda óheiðarlega samkeppni. Hún mun áfram loka símanum hjá þeim, sem skulda henni internetþjónustu, á sama tíma og aðrir aðilar, sem bjóða internetþjónustu, verða að rukka fyrir þjónustuna á venjulegan hátt.

Breytt eignarhaldsform á Pósti & sími er þáttur í hinu íslenzk-rússneska afbrigði einkavæðingar, sem almennt er kölluð einkavinavæðing hér á landi. Hún felst í að afhenda völdum aðilum einokunaraðstöðu og misnotkunaraðstöðu, sem áður var á vegum ríkisins.

Dæmi um íslenzka einkavinavæðingu eru Bifreiðaeftirlit ríkisins, Síldarverksmiðjur ríkisins og Lyfjaverzlun ríkisins, allt stofnanir, sem afhentar voru völdum einkaaðilum á undirverði. Það sama verður reynt að gera við hlutafélögin um Póst & síma og ríkisbankana.

Einkavinavæðing getur falizt í að gefa forstjórum stofnanir, svo sem algengast hefur verið í Rússlandi. Hún getur falizt í að takmarka aðgang að útboði með margvíslegum hætti eða binda hann við innlenda aðila. Hún getur falizt í að taka ekki lægsta tilboði í hlutafé.

Einkavinavæðingin fellur mjög vel að hagkerfi kolkrabbans. Það felst í, að atvinnurekstur er á hverju sviði í höndum eins, tveggja eða þriggja fyrirtækja, sem hafa samráð sín í milli um að haga málum á þann veg, að samkeppni verði ekki til að raska ró forstjóranna.

Þannig eru tvö og hálft félag í olíuverzlun. Þannig eru tvö félög í tryggingum. Þannig er eitt og hálft félag í kaupskipaútgerð. Þannig er eitt og hálft félag í flugi. Allt eru þetta fyrirtæki, sem byggja afkomu sína á skorti á samkeppni, rétt eins og einkavæddu ríkisfyrirtækin.

Langvinn fáokun gerir fyrirtækjum af þessu tagi kleift að safna digrum sjóðum, sem nota má, þegar einokunarfyrirtæki ríkisins eru seld. Þannig myndast hringur samtengdra fyrirtækja og einstaklinga, sem lifa fremur á aðstöðu sinni en á frjálsri markaðssamkeppni.

Íslenzka kolkrabbakerfið kemur í veg fyrir, að við höfum sama gagn af markaðshagkerfinu og aðrar vestrænar þjóðir, þar sem samkeppni fyrirtækja er mun harðari og ríkir á mun víðtækari sviðum en hér á landi. Alþjóðleg markaðslögmál gilda því ekki hér á landi.

Að grunni byggist sérstaðan á því, hvað menn láta bjóða sér á hverjum stað. Íslendingar láta valta yfir sig möglunarlítið og halda tryggð við ofsækjendur sína. Íslendingar mótmæla því ekki, þegar einkavinavæðing er stunduð undir fögru yfirskini einkavæðingar.

Þess vegna kemst samgönguráðherra upp með að bregða leyndarhjúp yfir kjör helztu forstjóra Pósts & síma, rétt eins og helztu stjórnmálaflokkarnir komast upp með að bregða leyndarhjúp yfir, hvernig hagsmunaaðilar fjármagna stjórnmálaflokka í ágóðaskyni.

Einkavinavæðing byggist eins og önnur séríslenzk spilling á því, að íslenzkir kjósendur hafa þær einar áhyggjur af spillingu að komast ekki í hana sjálfir.

Jónas Kristjánsson

DV