Fáokunin magnast hraðar

Greinar

Stærsti fáokunarbankinn hefur keypt helminginn í stærsta fáokunar-tryggingafélaginu. Stórt skref hefur verið stigið í átt til sameiningar helztu fáokunarfyrirtækjanna, er Landsbankinn hefur keypt eignarhelming Brunabótafélags Íslands í Vátryggingafélagi Íslands.

Kostnaður þjóðarinnar af fáokun á þessum sviðum hefur verið mikill. Það sést meðal annars af miklum vaxtamun innlána og útlána, sem stafar af stjarnfræðilegum afskriftum heimskulegra útlána. Landsbankinn einn tapaði þannig nærri tveimur milljörðum á ári.

Kostnaðurinn af fáokun í tryggingum sést meðal annars af því, að iðgjöld bílatrygginga hrundu um meira en fjórðung, þegar erlent tryggingafélag brauzt inn á fáokunarmarkaðinn, þar sem tryggingafélögin höfðu safnað digrum sjóðum á kostnað viðskiptamanna sinna.

Nú verður fáokunin enn harðari og samkeppni milli fyrirtækja enn vægari, svo að hlutur viðskiptamanna verður lakari en áður. Það er einmitt stóri kosturinn, sem ríkið, kolkrabbinn og smokkfiskurinn sjá í auknu samstarfi og eignatengslum helztu fáokunarfyrirtækjanna.

Slíkar breytingar má sjá á mörgum sviðum. Flugleiðir hafa verið að éta keppinauta í innanlandsflugi, ferðaskrifstofurekstri, bílaleigu, rútuútgerð og hótelrekstri. Yfirlýst markmið þeirra er að verða almennt og yfirgripsmikið fyrirtæki í ferðalaga- og fólksflutningageiranum.

Eimskipafélagið hefur byggt upp víðtækt net vöruflutninga á landi og losnað við samkeppni Samskipa í Ameríkusiglingum. Markmið félagsins er að verða allsráðandi í vöruflutningum á landi og sjó, innan lands og milli landa. Samskip verða étin við gott tækifæri.

Breytingar í sandkassa stórfyrirtækja hafa hnigið í þá átt, að eitt risafyrirtæki verði í hverjum geira, eitt í vöruflutningum, annað í fólksflutningum, eitt í tryggingum, annað í fjármálaþjónustu og svo framvegis. Þessa ferils gætir víða í kaupsýslu landsins, en mishratt.

Með kaupum banka á helmingi tryggingafélags er samruninn að aukast milli geira. Verið er að leggja grunn að fjármálatrölli, sem sjái um bankaviðskipti, fjárfestingar og tryggingar fólks. Raunar var slíkt eignarhald Eimskips í Flugleiðum þegar komið í samgöngugeirunum.

Breytingin verður hraðari, ef ríkisstjórninni tekst sú ætlun sín að koma hluta af lífeyrissparnaði undan lífeyrissjóðunum og í hendur fjármálafyrirtækja. Frumvarp um það efni liggur tilbúið og bíður eftir að linni þeim hvelli, sem varð í kjaraviðræðum um helgina.

Raunar hefur ríkisvaldið um margra ára skeið stuðlað að breytingunni, meðal annars með tilraunum til sameiningar ríkisbanka og nú með útþenslu Landsbankans. Einkavinavæðing ríkisfyrirtækja hefur verið önnur aðferð ríkisins við að koma verðmætum í arma kolkrabbans.

Öll er þessi breyting úr samkeppni í átt til fáokunar, með einokun að markmiði, eðlileg tilraun til að bæta stöðu fyrirtækja. Um leið er hún hörmuleg fyrir almenning, sem verður að borga brúsann af hærra verði á vöru og þjónustu fáokunar- og einokunarfyrirtækja.

Eina vörn almennings gegn þessu innlenda skrímsli er að freista erlendra fyrirtækja til að hefja samkeppni við hina innlendu kúgara. Það hefur Félag íslenzkra bifreiðaeigenda reynt að gera með því að semja við eitt af Lloyd’s félögunum um bílatryggingar félagsmanna.

Sterk bein þarf til að standa undir óbeit kolkrabbans. Óvíst er, að þau dugi í bílatryggingum eða finnist á öðrum sviðum, svo sem í fjármálaviðskiptum almennings.

Jónas Kristjánsson

DV