Vandinn er bara verkefni

Greinar

Forusta Dagsbrúnar kveikti elda, sem hún réð ekki við. Hún magnaði væntingar félagsmanna í þeim tilgangi að sýna viðsemjendum sínum sterkt bakland í kjaraviðræðunum. Það endaði svo með því, að forustan gat ekki selt félagsmönnum niðurstöðu kjaraviðræðnanna.

Rauðu strikin fengust ekki í samninginn, sem var undirritaður um miðjan þriðjudag og síðan felldur um kvöldið. Í stað þeirra var gert óljóst samkomulag um að fylgjast með aukningu kaupmáttar hér á landi og bera saman við aukningu hans í viðskiptalöndum okkar.

Ákveðið var, að fulltrúar heildarsamtaka vinnumarkaðarins skyldu meta þróunina og gera tillögur um viðbrögð, ef kaupmáttur vex hægar á samningstímanum en í viðskiptalöndunum. Óljóst er, hvernig heildarsamtökin muni síðan geta komið sér saman um viðbrögð.

Þetta atriði stóð þó ekki mest í þeim, sem felldu samninginn, heldur lágmarkslaunin. Fundarmenn voru ósáttir við, að ekki náðust 70.000 króna lágmarkslaun. Krafan um þau reyndist eiga sér dýpri rætur í hugum fólks en samningamenn Dagsbrúnar höfðu reiknað með.

Atburðarás af þessu tagi veldur auðvitað vandræðum í þjóðfélaginu. Átök harðna oft, þegar slitnar upp úr samningum og verkfallstjónið margfaldast á stuttum tíma. Núna bætist við öryggisleysið, sem felst í, að annar aðilinn lítur út fyrir að vera nánast umboðslaus.

Erfitt hlýtur að vera að reyna að semja við fulltrúa, sem ekki hafa á hreinu, hvað umbjóðendur þeirra telja þolanlega niðurstöðu, hvað þá við fulltrúa, sem hafa enga hugmynd um stöðu baklandsins. Slíkt ástand setur hefðbundinn feril kjarasamninga í uppnám.

Það reynir á menn, þegar svona ástand skapast. Samt þarf ekki að líta á það sem náttúrulögmál, að allt fari í bál og brand. Menn geta, ef þeir bara vilja, setzt aftur niður og fundið, hvar hnífurinn stendur í kúnni. Það á að vera hægt að ná nýju samkomulagi í skyndingu.

Fyrstu ummæli formanns Dagsbrúnar eftir ósigur hans í atkvæðagreiðslunni heima í héraði lofuðu ekki góðu. Hann spáði löngu verkfalli, að minnsta kosti fram yfir páska. Hann talaði þá eins og ábyrgðarlaus áhorfandi, en ekki eins og ábyrgur samningastjóri.

Ef formaðurinn heldur þannig áfram að leika hlutverk hins veika, sem skilur ekki upp né niður í neinu, talar á hverjum stað eins og hver vill heyra og lætur koma sér í opna skjöldu, mun hann leiða til mikils tjóns fyrir alla málsaðila og mest fyrir félagsmenn Dagsbrúnar.

Slíkt hefði aldrei komið fyrir Guðmund J. Guðmundsson. Hann tefldi sínar skákir af öryggi og þekkti alltaf undankomuleiðir. Viðsemjendur hans vissu, að hann hafði raunverulegt umboð. Hann leiddi yfirleitt mál til lykta án þess að láta almenna félagsmenn færa fórnir.

Til þess er reynslan að læra af henni. Málsaðilar í kjaradeilunum eiga að geta áttað sig á stöðunni og fundið á henni þolanlega lausn, án þess að láta málið gerjast fram í apríl. Þeir verða bara að líta á vandann eins og hvert annað verkefni, sem verði að leysa.
br>Enginn efast um, að lítið ber á milli. Allar viðræður munu hér eftir sem hingað til snúast um tilbrigði við þann kjarasamning, sem Landssamband iðnverkafólks hefur gert. Ef viðræðurnar dragast enn á langinn, er það fyrst og fremst yfirlýsing um getuleysi málsaðila.

Kominn er tími til að ná áttum og veita þjóðinni vinnufrið. Ekkert er erfiðara að gera það nú þegar heldur en að gera það eftir nokkra daga eða nokkrar vikur.

Jónas Kristjánsson

DV