Hyggjuvitið skerpt

Greinar

Nýjasta sjónhverfingin í afsláttaleikjum neytenda eru svokölluð fríkort, sem eiga að gera stórfjölskyldu kleift að senda einn fulltrúa sinn til útlanda á nokkurra ára fresti, ef hún er feiknarlega iðin við að skipta við nokkur þekkt fyrirtæki, sem hafa ágætar vörur á boðstólum.

Í smáa letrinu stendur að vísu, að punktarnir falli úr gildi að fjórum árum liðnum, ef ekki hefur tekizt að nýta þá í tæka tíð. Ennfremur segir þar, að útgefendum kortsins sé þar fyrir utan hvenær sem er heimilt að hætta leiknum og fella úr gildi alla uppsafnaða punkta.

Reiknimeistarar deila um, hversu miklu stórfjölskyldan þurfi að troða í sig af mat, hvað hún þurfi að aka marga hringi umhverfis landið og hvað hún þurfi að kaupa margar frystikistur á ári til að lyfta punktafjöldanum upp í farseðil fyrir einn á tilskildum tíma.

Niðurstöðurnar eru auðvitað jafnmargar reiknimeisturunum. Flestar eiga þær þó það sameiginlegt að sýna fram á ævintýralega fyrirhöfn stórfjölskyldna við tiltölulega vonlitla baráttu um að komast yfir einn farseðil til útlanda. Láglaunafólk þarf ekki að reyna þetta.

Í matvörunni felur tilboð kortsins í rauninni ekki annað í sér en daufa von um 0,5% afslátt. Hann er auðvitað ekkert annað en skítur á priki í samanburði við þann afslátt, sem fólk getur aflað sér frá degi til dags með því að nýta sér frelsi í viðskiptum við ýmsa kaupmenn.

Með því að festa sig í viðskiptum við eitt fyrirtæki í hverri grein eru neytendur að fórna meiri hagsmunum sínum og áþreifanlegum hagsmunum sínum fyrir minni hagsmuni sína og óáþreifanlega. Í stað þess að verzla, þar sem bezt býðst, eru þeir bundnir einum aðila.

Allt eru þetta atriði, sem hver neytandi fyrir sig getur séð af hyggjuviti sínu. Hitt er athyglisverðara, hvernig forstöðumönnum valinkunnra fyrirtækja dettur í hug, að almenningur falli fyrir sjónhverfingum af þessu tagi. Getur kannski verið, að þeir hafi rétt fyrir sér?

Tilboðið gerir ráð fyrir, að Íslendingar séu svo sjúkir í tilboð og afslætti, að þeir rjúki upp til handa og fóta af minnsta tilefni. Að baki hlýtur að liggja einhver athugun og eitthvert mat á viðbrögðum neytenda við sjónhverfingum. Eru þeir kannski taldir vera án hyggjuvits?

Mikil umræða var í fjölmiðlum undir lok vikunnar um fríkortin. Fólk hefur átt kost á að kynna sér þessa umræðu og lesa auglýsingar fyrirtækjanna, þar sem þau verja málstað sinn með útreikningum. Reynslan mun svo skera úr um, hvort aðferðin heppnast eða ekki.

Eðlilegt er og ágætt, að fyrirtæki þreifi fyrir sér með afslætti og tilboð af ýmsu tagi. Það er eðli markaðshagkerfisins og leiðir yfirleitt til lækkunar á útjöldum þeirra, sem hafa fyrir því að kynna sér málin og greina milli innihalds og ímyndana í afsláttum og tilboðum.

Við erum tiltölulega nýlega sloppin úr viðjum sovézks verðlagskerfis og þurfum tíma til að átta okkur á markaðshagkerfinu. Albaníumenn fóru mjög snöggt milli kerfa og kunnu sér ekki læti, með þeim afleiðingum, sem við höfum séð í fréttum. Okkar leið er mun mildari.

Ástæða er til að vona, að smám saman læri fólk á hagkerfið og fari að haga viðskiptum sínum í samræmi við það. Ýmislegt er í boði af góðum tilboðum og afsláttum, sem margir eru þegar farnir að nota sér á skipulegan hátt til að bæta sér upp létta pyngju.

Það dregur síður en svo úr gildi kerfisins, þótt misjafnt hlutfall sé milli innihalds og ímyndar í tilboðum markaðarins. Slíkt á bara að skerpa hyggjuvit neytenda.

Jónas Kristjánsson

DV