Misjafnt smíðuð gæfan

Greinar

Félagsráðherra rangtúlkar niðurstöður rannsóknar í Seðlabankanum á skuldum heimilanna í landinu. Rannsóknin sýnir, að skuldirnar eru meiri og illviðráðanlegri á Íslandi en á Vesturlöndum almennt. Hún sýnir, að miklu meira er um alvarleg vanskil hér á landi.

Ráðherra kýs að einblína á, að þeir séu fleiri, sem séu í skilum, en hinir, sem séu í vanskilum, og að ástandið sé betra en ætla hefði mátt af umræðunni um það. Þannig gefur hann sér viðmiðanir, sem gera honum kleift að afskrifa vandann með einum blaðamannafundi.

Það er alvarlegt, þegar 15.000 íslenzkar fjölskyldur eru í vanskilum, sem eru þriggja mánaða eða eldri. Það er alvarlegt, þegar 2,5% af heildarskuldum íslenzkra fjölskyldna eru í vanskilum. Það er alvarlegt, þegar íslenzkar fjölskyldur skulda samtals 276 milljarða króna.

Raunar eru þessar tölur skýrslunnar úreltar, því að þær eru frá árslokum 1994. Á þeim tveimur árum, sem síðan eru liðin, hafa skuldir íslenzkra fjölskyldna aukizt úr 276 milljörðum í 350 milljarða eða um rúmlega fjórðung. Skuldastaðan hefur því versnað að mun.

Yfirleitt eru þetta nýlegar skuldir, um 267 milljarðar eða 80% frá tímabilinu 1990-1996. Það sýnir, að vandinn er tiltöluleg nýr. Hann hefur fylgt séríslenzku efnahagsástandi, sem stundum hefur verið kölluð kreppa og hefur meðal annars lýst sér í auknu atvinnuleysi.

Fegrun félagsmálaráðherra á skuldastöðu heimilanna stafar af, að honum finnst ríkisstjórnin sem eins konar stóribróðir bera ábyrgð á fjármálastefnu heimilanna. Það er ranghugsun, því að þjóðin fullorðnast ekki, ef hún fær ekki að taka fjárhagslega ábyrgð á gerðum sínum.

Fólk lendir að vísu ekki í vanskilum af ásettu ráði. Það missir atvinnu eða aukavinnu vegna samdráttar í efnahagslífinu. Það á erfiðara með að selja eignir og fá fyrra markaðsverð fyrir þær, af því að samdrátturinn hefur framkallað nýtt og lægra markaðsverð.

Þegar slíkar sveiflur verða í atvinnulífinu, reynist fólk eiga erfitt með að fóta sig. Það hefur áður tekið djarfar fjármálaákvarðanir, sem byggjast á, að óbreytt efnahagsástand verði um ókominn aldur. Þegar forsendurnar bregðast, reynast fjárhagsdæmin stundum of tæp.

Stjórnvöld geta ekki tekið ábyrgð á ákvörðunum heimilanna eða á almennt hóflítilli bjartsýni Íslendinga. Þau geta hins vegar sett á fót ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, komið upp léttara kerfi nauðarsamninga og dregið úr ábyrgð manna á skuldbindingum annarra.

Þetta hafa stjórnvöld raunar sumpart þegar gert og eru sumpart að gera. Þau hafa einnig reynt að stuðla að vinnufriði, sem heldur verðbólgu í skefjum og eykur kaupmátt almennings. Slíkar aðgerðir eru til þess fallnar að efla atvinnu og auka öryggi í fjármálum heimilanna.

Stjórnvöld hafa hins vegar haldið lífskjörum niðri með því að hlíta ekki ráðum í málum sjávarútvegs og landbúnaðar. Þau halda uppi of miklum landbúnaði, sem er of dýr í rekstri. Og þau hafa látið undir höfuð leggjast að taka upp útboð á leigu veiðiheimilda á fiski.

Þannig geta stjórnvöld með aðgerðum eða aðgerðaleysi haft áhrif á ýmsar grundvallarstærðir í efnahagsmálum, sem síðan hafa óbein áhrif á getu fólks til að standa við skuldbindingar. Stjórnvöld geta hins vegar ekki tekið ábyrgð á endanlegum ákvörðunum fólks.

Skýrslan um skuldir heimilanna sýnir fyrst og fremst, að þjóðin stendur ekki jafnfætis öðrum vestrænum þjóðum í raunsæju mati á breytilegu gengi verðmæta.

Jónas Kristjánsson

DV