Utanríkisstefna til sölu

Greinar

Kínastjórn hótar Dönum um þessar mundir að ná sér niðri á þeim, ef þeir láti ekki af tilraunum til að fá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna til að fordæma víðtæk mannréttindabrot í Kína. Danir láta sér fátt um finnast og fara eftir því, sem samvizkan býður.

Vinnubrögð Kínastjórnar í samskiptum við útlönd byggjast mikið á viðskiptahótunum annars vegar og gylliboðum hins vegar. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af síðari aðferðinni. Íslenzkar sendinefndir hafa notið gestrisni Kínverja og gæta óbeint hagsmuna þeirra.

Ef útlendingar makka ekki rétt að mati Kínastjórnar, ofsækir hún fyrirtæki, sem þeir hafa komið upp í Kína í tengslum við drauma um stóran markað. Hún sýnir þannig, hver valdið hefur, og notar réttaróvissu til að láta fjárfesta þjóna pólitískum hagsmunum hennar.

Clinton Bandaríkjaforseti er maður að skapi Kínastjórnar. Hann er nokkurn veginn alveg siðlaus og notar fjáröflunarleiðir út í yztu æsar. Meðal annars hefur kosningavél hans tekið við framlögum erlendra aðila, sem eru að gæta hagsmuna erlendra ríkja í Bandaríkjunum.

Því er nú haldið fram, að sjóðir Clintons hafi notið stuðnings kínverskra peninga, en það hefur ekki sannazt. Hins vegar er ljóst, að þeir hafa tekið við peningum frá ýmsum öðrum ríkjum, sem telja sér hag í að hafa áhrif á bandarísk stjórnmál og stjórnsýslu.

Þannig hafa menn Clintons neyðst til að skila peningum frá Indónesíu, þar sem ríkir harðskeytt þjófræði, sumpart í skjóli Bandaríkjanna. Suharto einræðisherra, ættingjar hans og einkavinir, reka víðtæka spillingu og blóðmjólka þjóðfélagið sér til persónulegs ábata.

Ríkisstjórn Indónesíu hefur gengið fram af mikilli grimmd í hernámi sínu á Austur-Tímor. Eftir íslenzka tilnefninu fékk Jose Ramos Horta, útlægur leiðtogi sjálfstæðishreyfingar eyjarinnar, friðarverðlaun Nóbels í vetur. Hann verður góður gestur hér á landi um helgina.

Koma Hortas minnir okkur á, hve mannleg verðmæti mega sín lítils í heiminum, þegar í húfi eru fjárhagslegir hagsmnunir stórþjófaforingja á borð við Suharto og siðblindra stjórnmálamanna á borð við Clinton, sem þáði mola af nægtaborði glæpagengis Suhartos.

Bandaríkjamenn hafa verið svo ólánsamir að rækta með sér kosningakerfi, sem kallar á stjarnfræðilega og sífellt vaxandi fjármuni. Þetta hefur haft í för með sér, að völd kjósenda hafa minnkað, en aukizt völd þeirra, sem fjármagna kosningar í eiginhagsmunaskyni.

Þannig hefur fjársterkum stuðningsmönnum Ísraelsríkis í Bandaríkjunum tekizt að gera Bandaríkin að einu helzta haldreipi hins unga gestapó-ríkis fyrir botni Miðjarðarhafs, í takmarkalausum yfirgangi þess og ofbeldi, hryðjuverkum þess og efnahagslegum ofsóknum.

Stuðningsmenn Ísraelsríkis í Bandaríkjum hafa verið sérstaklega gjafmildir í garð Clintons, enda hefur ríkisstjórn hans aldrei vikið millimetra frá stuðningi við Ísraelsríki, jafnvel þegar hún hefur staðið alein gegn því, að mannréttindabrot þess hljóti alþjóðlega fordæmingu.

Þannig ráða peningaöflin ferð í Bandaríkjunum. Tóbaksframleiðendur kaupa sér pólitíska vernd til að eitra fyrir fólk. Byssuframleiðendur kaupa sér stuðning við auðveld byssukaup, þótt þau leiði til margfalt meiri manndrápa en þekkjast í öðrum vestrænum ríkjum.

Verst er, að bandarísk utanríkisstefna skuli mótast af hagsmunum kosningasjóðs Clintons, svo sem lesa má út úr stuðningi hans við Ísrael, Indónesíu og Kína.

Jónas Kristjánsson

DV