Þrælslund þjóðarinnar

Greinar

Ef einhverjir nenna að reyna að koma á samkeppni í bílatryggingum hér á landi og lækka verð þeirra um rúman fjórðung, taka flestir Íslendingar þá afstöðu að bíða eftir, að tryggingafélag þeirra mæti samkeppninni með lækkun iðgjalda. Þeir skipta ekki sjálfir um félag.

Erfitt er að koma á samkeppni og lægra verði á vöru og þjónustu, þegar meirihluti þjóðar er svo þrælslundaður, að hann telur ekki henta sér að taka sjálfur þátt í aðgerðunum með því að beina viðskiptum til þeirra, sem reyna að stunda samkeppni og lækka verð.

Þetta er ólíkt ýmsum nágrannaþjóðum okkar austan og vestan hafs. Þar er fólk óhrætt við að flytja viðskipti sín. Þar óttast fyrirtækin almenning og vilja þjóna honum. Hér óttast almenningur fyrirtækin. Sendinefndir sveitarfélaga biðja Flugleiðir um að auka ferðatíðni.

Þetta er íslenzkur vítahringur. Undirgefni fólks dregur vilja og þor úr þeim, sem annars vildu hætta sér út í samkeppni. Þetta eflir fáokunina í efnahagslífinu og leiðir til þess, að fólk er hrætt við að styggja fáokunarfyrirtækin með því að fara að skipta við nýja aðila.

Þannig snýst vítahringurinn. Enginn veit, hvar hann byrjaði og hvort hann tekur enda. Öflug stjórnmálaöfl styðja þessa þróun, af því að þau hafa komizt að raun um, að stuðningur þeirra við fáokunaröflin í þjóðfélaginu dregur ekki úr fylgi þeirra meðal almennings.

Þannig getur Sjálfstæðisflokkurinn leyft sér að draga ævinlega taum fáokunarinnar í þjóðfélaginu gegn hagsmunum almennings. Þess vegna geta forsætis- og samgönguráðherra lýst frati á tilraun Samkeppnisstofnunar til að hamla gegn fáokun í innanlandsflugi.

Samkeppnisstofnun hafði þó ekki gert annað en að reyna að byrja að beita nýlegum lögum. Hún hafði ekki gert annað en að reyna að feta í fótspor hliðstæðra stofnana á Vesturlöndum. Niðurstaða hennar þætti ekki í frásögur færandi í neinu nágrannalanda okkar.

Hér reynir valdahringur fáokunarfyrirtækja og stjórnmálaafla hins vegar að kúga Samkeppnisstofnun til hlýðni með því að kalla hana á teppið í samgöngunefnd Alþingis. Með fýldum athugasemdum reyna ráðherrar að hafa fyrirfram áhrif á úrskurðarnefnd deilumálsins.

Þetta er hægt hér á landi, af því að valdamenn stjórnmála og fáokunar vita, að Íslendinga á að kúga, en ekki þjóna þeim. Þeir vita, að fólk er hér haldið þrælsótta við yfirvaldið, hvert sem það er á hverjum stað. Þeir telja sér ekki munu verða refsað síðar í kjörklefunum.

Samgönguráðherra gerir lítið annað en að verja hagsmuni fáokunar og fer ekki dult með. Hann gengur nánast opinberan berserksgang við að verja hagsmuni Pósts & síma til þess að tryggja, að nýfengið frelsi fyrirtækisins leiði örugglega til einokunar þess á markaði.

Ástandið byggist á, að nógu margir Íslendingar líta á sig sem þegna, svo sem tíðkaðist á tímum einvaldskonunga, en hafa ekki vanið sig á að líta á sig sem frjálsa borgara í vestrænum skilningi. Þess vegna fær sameinað afl stjórnmála og fáokunar að mestu leyti frítt spil.

Á mikilvægustu sviðum efnahagsmála eru það einn eða tveir eða þrír risar, sem ráða markaðnum og hafa samráð sín í milli. Samkeppni í vestrænum skilningi er takmörkuð hér á landi og verð á vöru og þjónustu því óeðlilega hátt. Þjóðin borgar fyrir þrælslund sína.

Enda ræða menn í valdakerfinu sín á milli um, hvernig breyta megi lögum um Samkeppnisstofnun, svo að hún geti með góðri samvizku lagzt til svefns að nýju.

Jónas Kristjánsson

DV