Tímaritið Economist hefur löngum skrifað skynsamlega um efnahagsmál, þar á meðal um stjórnkerfi sjávarútvegs. Blaðið hefur auðvitað mælt með sölu veiðileyfa eins og flestir fræðimenn, sem fjallað hafa um málið hér á landi, en sérstaklega þó bent á uppboð veiðileyfa.
Einn ritstjóra blaðsins og höfundur tveggja bóka um umhverfismál, Frances Cairncross, var hér á landi fyrir helgina í boði umhverfisráðuneytis og Verzlunarráðs. Hún flutti erindi á föstudaginn og bætti sínu lóði á vogarskál stuðnings við sölu veiðileyfa í sjávarútvegi.
Margir hafa lengi mælt með sölu veiðileyfa, en talað fyrir daufum eyrum pólitískra ráðamanna, enda eru miklir hagsmunir í húfi. Til skamms tíma var almenningur fremur áhugalaus um fremur fræðilega umræðu málsins, en hefur þó rumskað á síðustu mánuðum.
Sumir forustumenn í sjávarútvegi hafa áttað sig á hugarfarsbreytingunni og vilja koma til móts við hana í tæka tíð, áður en almenningur snýst beinlínis gegn hagsmunum útgerðarinnar. Aðrir hanga fastir á sínu roði og munu enn um sinn ráða ferð samtaka útgerðarinnar.
Krafan um sölu veiðileyfa er komin í flokk málefna, sem njóta víðtæks stuðnings í þjóðfélaginu, þvert á flokkakerfið í landinu, án þess að stóru stjórnmálaflokkarnir hafi tekið við sér. Hugsanlega er að myndast jarðvegur fyrir nýjan flokk utan um þessi nýju mál.
Það er til dæmis ærið verkefni fyrir nýjan stjórnmálaflokk að berjast fyrir sölu veiðileyfa í sjávarútvegi og afnámi ríkisafskipta af hefðbundnum landbúnaði, svo að tvö veigamestu dæmin séu nefnd. Markhópar fylgismanna ættu alténd að vera nógu fjölmennir.
Mikilvægur þáttur sinnaskipta fólks felst í, að fólk í sjávarplássum hefur áttað sig á, að kvótakerfið verndar ekki hagsmuni byggðarlaga. Kvótar eru á fleygiferð milli sveitarfélaga og landshluta. Fyrirtæki gleypa hvert annað í stórum stíl og útgerðarmenn festa fé í útlöndum.
Tökum Eskifjörð sem dæmi. Þegar Alli ríki hættir að gera út og erfingjar fara að hugsa um fjármál sín, fer eignarhald í sjávarútvegi á Eskifirði á tvist og bast. Einn góðan veðurdag situr Eskifjörður uppi með engan Alla og engan kvóta og algert hrun í atvinnulífinu.
Ríkisvaldið getur með góðri samvizku selt veiðileyfi. Það er höfundur allrar velgengni í sjávarútvegi. Ef það hefði ekki skammtað aðgang að fiskimiðum, væri afli mjög rýr og afkoma sjávarútvegs hörmuleg. Með skömmtun hefur ríkið nánast framleitt auðlindina.
Eina leiðin til að meta sannvirði leigunnar fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind er að bjóða hana út og sjá, hvað markaðurinn vill borga fyrir hana. Þetta er ein helzta grundvallarregla markaðshagkerfisins og gildir fyrir sjávarútveg eins og aðrar athafnir.
Það væri meira að segja hægt að leyfa útlendum aðilum að bjóða í veiðileyfi, svo framarlega sem afla sé landað á íslenzka fiskmarkaði. Með leigugjaldi útlendinganna hefði þjóðfélagið allan arð sinn af auðlindinni á hreinu, áður en nokkurt veiðarfæri er bleytt í sjó.
Alþjóðlegt uppboð veiðileyfa ryður úr vegi einu hindrun þess, að við getum tekið þátt í Evrópusambandinu og notið margvíslegra hagsmuna þess og fríðinda til fulls. Sá ávinningur bætist við arðinn af markaðsvæðingu sjávarútvegs og eflir framtíðarhagsmuni þjóðarinnar.
Margir eiga vafalaust erfitt með að sætta sig við svo róttæka útfærslu á sölu veiðileyfa. En hún er samt einmitt rökréttasta niðurstaðan af forsendum málsins.
Jónas Kristjánsson
DV