Hvorki hér á landi né annars staðar hefur fólk gert sér fulla grein fyrir afleiðingum sjónvarps sem helzta uppeldistækis Vesturlanda. Má þó ljóst vera, að notkun sjónvarps sem barnapíu fyrir 5-12 ára börn hlýtur að vera að breyta lífsviðhorfum upprennandi kynslóða.
Hingað til hefur verið einblínt á ofbeldisáhrif sjónvarps, þótt þau séu aðeins hluti vandamálsins. Deilur hafa lengi staðið um þessi sérstöku áhrif, af því að ýmsar rannsóknir á þeim hafa ekki enn leit til ótvíræðrar niðurstöðu, enda eru fleiri áhrifavaldar að verki.
Hér á landi er jafnvel deilt um svo sjálfsagða staðreynd og þá, að ofbeldi hefur aukizt og orðið harðvítugra. Lögreglan hefur birt tölur, sem eiga að sýna, að ofbeldi hafi ekki aukizt á undanförnum árum. Heilbrigð skynsemi segir okkur, að þær tölur séu tómt rugl.
Aðrar tölur segja okkur, að tíðni alvarlegra meiðsla af völdum ofbeldis hafi tvöfaldazt á Reykjavíkursvæðinu á tæpum áratug, frá 1987 til 1995. Ýmislegt fleira en sjónvarp er þar að verki, svo sem aukin notkun áfengis og annarra vímugjafa meðal unglinga og ungs fólks.
Nýjar tölur frá útlöndum segja okkur, að sjónvarpið eigi mikinn þátt í þessu. Nú sýna rannsóknir, að 15% barna og unglinga, er horfa á ofbeldismyndir, sýni merki um mikla árásarhneigð, og rúmlega 35% í viðbót verði fyrir nokkrum áhrifum í þá átt. Samtals eru þetta 50%.
Sjónvarpið er svo gegnsýrt af ofbeldi, að tæpast er hægt að horfa á sjónvarpsfréttir vegna innskots ofbeldisauglýsinga um bíómyndir í kvikmyndahúsum borgarinnar. Þessar kynningar sýna sumar hverjar samfellda röð af ógeðfelldu, stjórnlausu og tilgangslausu ofbeldi.
Því er haldið fram, þótt ósannað sé enn, að veruleikafirring sjónvarps byrji með Tomma og Jenna, þar sem ofbeldi er hrikalegt, nánast sársaukalaust, oftast fyndið og jafnan án nokkurs varanlegs líkamstjóns. Þessi firring hlýtur að síast inn í hugi 5-12 ára gamalla barna.
Ofbeldi er bara eitt af mörgum vandamálum sjónvarps. Sápurnar eru ekki síður veruleikafirrtar, þótt þær séu lausar við ofbeldi. Þær sýna neyzluþjóðfélag, þar sem fólk virðist eiga frí alla daga vikunnar. Þá sjaldan sem sápurnar sýna vinnustaði, eru þar allir á kjaftatörn.
Þannig grafa framhaldsþættir sjónvarps undan siðfræði vinnu, uppfinninga, afreka og yfirleitt öllu því, sem kostar fyrirhöfn, en hossa stjórnlítilli og fyrirhafnarlausri neyzlu. Þeir sýna einfaldlega ekki framleiðsluþjóðfélag, heldur skrípamynd af neyzluþjóðfélagi.
Fólk á miðjum aldri hér á landi hafði ekki tækifæri til að horfa á ofbeldi og sápu á mótunarskeiði sínu á 5-12 ára aldri og gerir sér því takmarkaða grein fyrir áhrifunum á þá, sem hafa einmitt haft ofbeldi, sápu og teiknimyndasögur að barnapíum á þessu viðkvæma æviskeiði.
Í Bandaríkjunum er sjónvarpið heilli kynslóð eldra en hér. Þar hefur því verið hægt að sjá betur þessi áhrif. Þar óttast menn nú, að þjóðfélagið sé að skiptast í tvennt, annars vegar þá, sem hafa staðizt mótunaráhrif sjónvarps, og hins vegar þá, sem hafa látið mótast.
Síðari hópinn skipa atvinnuleysingjar, sem geta ekki haldið neinni vinnu. Þeir búa í afmörkuðum fátækrahverfum, þar sem ofbeldi og vímugjafar eru þungamiðja hversdagsins. Börnin þekkja tæplega hefðbundið fjölskyldumynztur og alast upp af sjónvarpi og götunni.
Hér á landi eru foreldrarnir úti að vinna og sjónvarpið farið að leika hlutverk uppfræðarans. Fyrr eða síðar munum við standa frammi fyrir alvarlegum afleiðingum.
Jónas Kristjánsson
DV