Bandarískir þokubakkar

Greinar

Valdahrun Mobutus í Saír er enn eitt dæmið um hrun Kissingers-stefnu Bandaríkjanna gagnvart þriðja heiminum. Sú stefna felst í að styðja valdamiklar ríkisstjórnir og sjá í gegnum fingur við ógeðfellda stjórnarhætti þeirra. Þetta ímyndaði Kissinger sér, að væri raunsæ stefnu.

Síðan falla einræðisherrarnir og til valda koma nýir ráðamenn, sem telja, að gömlu valdamennirnir hafi kúgað fólk með aðstoð bandarískra peninga og bandarískra hergagna. Síðan borga Bandaríkin stórfé til að fá nýju mennina til að láta af andstöðu við Bandaríkin.

Erfitt er að hanna flókna atburðarás. Þeir, sem slíkt reyna, átta sig ekki á, að afleiðingar hönnunarinnar framleiða aðstæður, sem framleiða eigin atburðarásir þvert á hina fyrri. Kissinger-stefnan var óvenjulega barnaleg útgáfa af órum áhugamanna um hönnun atburðarása.

Mobuto hefur í manna minnum verið eitt helzta óskabarn Bandaríkjanna í Afríku. Hann studdi Bandaríkin á alþjóðavettvangi gegn bandarískum stuðningi við stjórnarhætti hans í Saír. Þetta vanheilaga bandalag gleymist ekki, þótt Bandaríkin þvoi hendur sínar núna.

Allan þennan tíma ástarsambands Mobutos og Bandaríkjanna vissu allir, sem vita vildu, að Mobuto var einn af mestu þjófum heims. Hann stal öllu lauslegu í landi sínu og rúði það gersamlega inn að skinninu. Er þó Saír eitt auðugasta land heims að dýrustu góðmálmum.

Kúgaðir íbúar Saírs kenna auðvitað Bandaríkjunum um þetta, enda bera þau óbeina ábyrgð á skjólstæðingi sínum. Auðvitað leiddi þetta til stuðnings fólks við uppreisnarforingja, sem þekktur var að andstöðu við bandarísk sjónarmið í stjórnmálum og efnahagsmálum.

Laurent Kabila tekur senn við völdum í Saír. Hann er mótaður af vinstri sinnaðri hugmyndafræði Patrice Lumumba, sem var fyrsti og eini forseti Saír, áður en hermenn tóku völdin. Síðan hefur hann verið skæruliði, meðal annars í samlögum við Che Guevara frá Kúbu.

Bandaríkjastjórn sér fyrir, að Kabila verði óþægur ljár í þúfu. Þess vegna reynir hún að stilla upp hverjum milligöngumanninum og sáttaframbjóðandanum á fætur öðrum. Öll mun þessi fyrirhöfn koma fyrir ekki og Kabila mun sjálfur taka öll völd í landinu.

Kabila gerir sér ljósa grein fyrir, að Bandaríkin hafa reynt að hindra sigurgöngu hans og eru nú að reyna að koma í veg fyrir, að völdin renni beint úr höndum Mobutos til hans. Hann mun því láta Bandaríkin finna til tevatnsins, þegar tækifærin verða hans megin.

Samkvæmt Kissingers-stefnunni neyðast Bandaríkin brátt til að snúa við blaðinu. Þau munu hlaða á Kabila peningum og vopnum og sjá í gegnum fingur við hann, þegar hann byrjar að afrískum hætti að ofsækja fólkið í landinu og stafla eigin bankainnistæðum í Sviss.

Þótt stefna Kissingers sé sögð vera raunsæisstefna gegn hugsjónastefnu, er betra að kalla hana skammtímastefnu gegn langtímastefnu. Hún miðast við, að núverandi ástand, hvert sem það er á hverjum tíma, haldi áfram endalaust, en kalli ekki fram andstöðu sína.

Afleiðingar stefnunnar eru annars vegar linnulaus sóun bandarískra peninga og hins vegar þrálátar hörmungar í þriðja heiminum, þar sem hver kúgarinn og rummungsþjófurinn rekur annan, yfirleitt í skjóli bandarískrar afskiptasemi að hætti Kissingers.

Engin ástæða er til að fagna valdatöku Kabilas. Fólkið í Saír mun áfram þjást og áfram verður bruggað rugl á þokubökkum bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Jónas Kristjánsson

DV