Ópólitísk stjórnmál

Greinar

Gæzlumaður hagsmuna Alþýðuflokksins í Reykjaneskjördæmi óttast atvinnuskort nokkurra flokksmanna, sem fengu vinnu í fríhöfn flugvallarins í skjóli flokksins, þegar formaður hans var utanríkisráðherra. Gæzlumaðurinn telur þá ekki samkeppnishæfa á vinnumarkaði.

Þetta er eitt helzta ágreiningsefnið á Alþingi í lokahrinu síðustu vikunnar fyrir sumarhlé. Deilt er um, hvort bjóða eigi út ýmsan rekstur í flugstöðinni í stað þess að ráða til hans kvígildi á vegum stjórnmálamanna. Sem betur fer mun framfarastefna sigra í þessu máli.

Stefna útboða hefur um langt skeið verið að hríslast um þjóðfélagið, þar á meðal ríkisgeirann. Flestar framkvæmdir eru boðnar út og farið að bjóða út rekstur af ýmsu tagi. Endanlegan sigur vinnur útboðastefnan, þegar hafin verða uppboð á veiðileyfum í sjávarútvegi.

Sæmileg sátt er um flest lög, sem koma frá Alþingi. Þau hafa sum breytzt lítillega í meðförum þingsins, meðal annars í samlögum stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga. Þannig er stofnunin öðrum þræði ópólitísk snyrtistofa fyrir misvel unnin frumvörp úr ráðuneytum.

Ríkisstjórnin hefur öflugan þingmeirihluta. Hún ætti þess vegna að geta knúið fram hugmyndafræðileg óskamál á borð við frumvarpið um lífeyrissjóði. Það gerir hún hins vegar ekki. Má telja það ótvírætt merki þess, að bardagagleði hafi dvínað í leikhúsinu við Austurvöll.

Niðurstaða lífeyrismálsins er málefnaleg. Meirihluti varð í þingnefndinni um margvíslegar breytingar, sem miða í þá átt að sætta annars vegar ýmis sjónarmið og efla hins vegar efnahagslegan framfaraþátt málsins. Að öðru leyti er málinu frestað til næsta vetrar.

Meirihlutaálitið gefur ákveðinn tón, sem mun hafa áhrif á togstreituna um frumvarpið milli þinga. Það segir hagsmunaaðilum, hvernig línurnar liggja á Alþingi, og setur þannig umræðunni óbeinar skorður. Og málið verður orðið þrautrætt, þegar það verður að lögum.

Þetta er að flestu leyti góð aðferð. Hún er greinilega lýðræðisleg. Hún er ennfremur siðferðileg, af því að hún gætir hófs í beitingu aflsmunar. Hún magnar einnig málamiðlunarstefnu á kostnað ágreiningsstefnu og eflir þannig málefnaleg vinnubrögð í stjórnmálum landsins.

Vinna þingmanna hefur færzt í auknum mæli inn í nefndir. Þingfundir liggja niðri heilu vikurnar, af því að nefndastörf taka allan daginn, dag eftir dag. Þótt þetta sé öðrum þræði málefnalegt, þá byrgir það kjósendum sýn, því að nefndafundir eru enn lokaðir áheyrendum.

Í framhaldi af þessari breytingu er orðið brýnna en áður, að kjósendur geti komið á palla í þingnefndum. Þær eru hinar raunverulegu valdamiðstöðvar, þar sem lagafrumvörpum er breytt í það horf, sem þau verða síðan að lögum. Opnun þingnefnda færir fólkið nær valdinu.

Svipur hefðbundinna þingfunda hefur dofnað. Af þingi eða úr framvarðasveitum eru horfnir sumir skörungarnir, sem gáfu áður hvellan tón. Nýjabrumið er farið af beinu sjónvarpi þingfunda. Viðkynning og vani áhorfenda hafa lækkað gengi málefnasnauðra ræðutilþrifa.

Stjórnarandstaðan er tiltölulega fámenn og lætur ekki mikið að sér kveða. Fjölmennur stjórnarmeirihluti klofnar á ýmsa vegu og nýtist ríkisstjórninni ekki til fullnustu. Þessar aðstæður bætast við aðra þætti, sem valda því að þingstörf eru núna rólegri en oft áður.

Þegar ríkisstjórn nennir ekki lengur að lengja þinghaldið til að ljúka lífeyrismálinu, er ljóst, að hugmyndafræðin hefur vikið fyrir ópólitískum stjórnmálum.

Jónas Kristjánsson

DV