Góður samningur gallaður

Greinar

Í nýja öryggissamningnum við Rússland fórnaði Atlantshafsbandalagið hinum fámennari og fjarlægari hagsmunum Eystrasaltsríkjanna fyrir hina fjölmennari og nálægari hagsmuni Póllands, Tékklands og Ungverjalands. Með þessu óhappaverki hafði verið reiknað.

Samningurinn var raunar svo óhagstæður Vesturlöndum, að beita varð gamalkunnri aðferð við að kynna hann. Hún fólst í að fá ginnkeypta fjölmiðlunga til að hrósa honum í hástert, áður en þeir höfðu fengið að sjá hann. Þetta bragð hefur heppnazt eina ferðina enn.

Með því að fresta birtingu samningsins í nokkra daga og nota tímann til að leka til fjölmiðlunga þægilegum og leiðandi upplýsingum um innihald hans, reyndist vera hægt að afla honum jákvæðari viðbragða, en orðið hefðu, ef samningurinn hefði strax fengið að tala sjálfur.

Ójöfn valdastaða Vesturlanda annars staðar og ríkja rétttrúnaðarkirkjunnar hins vegar veldur því, að ástæðulaust er fyrir Atlantshafsbandalagið að gefa eftir þá meginstefnu, að öll vestræn lönd í Evrópu séu í Atlantshafsbandalaginu, þar á meðal Eistland, Lettland og Litháen.

Hins vegar var í lagi að heita Rússlandi því, að bandalagið hefði ekki í hyggju að seilast inn á yfirráðasvæði réttrúnaðarkirkjunnar í Hvíta-Rússlandi, Úkraínu, Rúmeníu, Búlgaríu, Makedóníu og Serbíu. Eðlilegt er að þau ríki líti á Rússland sem sitt forusturíki.

Skilin í Evrópu eiga að vera hin sömu og þau hafa verið frá ómunatíð. Annars vegar eru lönd Rómarkristninnar og hins vegar lönd kristninnar frá Miklagarði. Þessi skil skerast eins og strik eftir endilangri álfunni, allt frá Kólaskaga í norðri til Adríahafs í suðri.

Það eina, sem hefur breyzt í aldanna rás, er, að Vesturlönd eru ekki lengur skilgreind á grundvelli vestrænnar kristni, heldur póltískra trúarbragða, sem fela einkum í sér félagslegan markaðsbúskap, dreifingu valds, fastbókað réttlæti að lögum og traust mannréttindi.

Þetta er svipað og í kínverska menningarheiminum, sem einnig skilgreinir sig á sviði þessa heims trúarbragða, sem fela í sér meiri áherzlu á hópinn og minni áherzlu á einstaklinginn, meiri áherzlu á aga og undirgefni gagnvart yfirvöldum og þolir illa gagnrýni.

Heimurinn er smám saman að skiptast í nokkrar valdablokkir ríkja, sem standa á menningarsögulegum grunni fremur en hagsmunapólitískum. Vesturlönd eru sterkasti hópurinn um þessar mundir, með valdamiðstöðvum í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu.

Þrír kristnir valdahópar ríkja standa nálægt Vesturlöndum og gefa vonir um gott samstarf í framtíðinni. Það eru ríki austrænu rétttrúnaðarkirkjunnar með miðstöð í Rússlandi, ríki hinnar kaþólsku Ameríku með miðstöð í Brasílíu og ríki Afríku með miðstöð í Suður-Afríku.

Vesturlönd eru einnig í góðu sambandi við tvo menningarheima, sem ekki hafna beinlínis vestrænum gildum á sviði þessa heims trúarbragða. Þetta eru Indland og Japan, þar sem fólk hefur meira eða minna tileinkað sér svipaðar væntingar og gildismat og Vesturlandabúar.

Utan við standa tveir öflugir hópar, annars vegar kínverskur menningarheimur með Kína sem valdamiðju og hins vegar íslamskur menningarheimur með óræðri valdamiðju. Þessir heimar hneigjast í auknum mæli að því að skilgreina sig í andstöðu við vestræn gildi.

Frá þessu heimspólitíska sjónarmiði er gott, að Atlantshafsbandalagið skuli semja frið við Rússland, þótt einstök atriði samningsins séu lakari en vera þurfti.

Jónas Kristjánsson

DV