Opinberir opinberaðir

Greinar

Ef ríkisvaldið hefur ákveðnar hugmyndir um söluverðgildi eigna Áburðarverksmiðjunnar í Gufunesi, hefði það getað sett ákvæði um lágmarksverð í útboðslýsinguna, þegar selja átti verksmiðjuna. Þar sem það var ekki gert, mátti ætla, að markaðslögmál fengju að ráða ferð.

Ef ríkisvaldið hefur ákveðnar hugmyndir um, hvað gera skuli við verksmiðjuna eftir sölu hennar, hefði það einnig getað sett rekstrarskilmála í útboðslýsinguna. Þar sem það var ekki gert, mátti ætla, að hefðbundin og heilbrigð markaðslögmál fengju að ráða ferðinni.

Ekki er siðlegt að fá aðila til að verja fé og tíma til að semja tilboð og segja þeim síðan, að ósagðar kröfur séu uppi af hálfu seljanda um, hvaða söluverð komi til greina og hvað megi gera við verksmiðjuna. Það auðveldar ekki ríkinu að afla tilboða í aðrar eignir á næstu árum.

Einkavæðing ríkisfyrirtækja á síðustu árum hefur verið samfelld hrakfallasaga. Síldarverksmiðjur ríkisins eru frægasta dæmið um það. Þá var gengið fram hjá hæsta tilboðinu til að þjónusta gæludýr Sjálfstæðisflokksins. Það var einkavinavæðing að rússneskum hætti.

Með hegðun sinni við meðferð tilboða dregur ríkið úr líkum á, að allir lysthafendur taki þátt í útboðum. Markaðurinn þrengist og minni líkur eru á, að ríkið fái bezta verð fyrir söluna. Það er dýrt spaug að haga sér eins og drottningin í sögunni um Lísu í Undralandi.

Þáttur Reykjavíkurborgar er ekki síður ámælisverður. Borgin tekur þátt í útboði í því skyni að auka líkur á, að hundrað störf varðveitist. Það vekur spurningu um, hvort borgin ætlaði sér að halda verksmiðjunni gangandi með tapi eins og Bæjarútgerðinni á sínum tíma.

Það er alþjóðlega viðurkennd sagnfræðistaðreynd, að þeim ríkjum og svæðum vegnar bezt, þar sem stjórnvöld reyna sem minnst að varðveita gömul störf og beina athyglinni fremur að vaxtarbroddum á nýjum sviðum. Þetta má sjá í Japan og sums staðar í Bandaríkjunum.

Lögmálið segir, að atvinnuleysi aukist í ríkjum og á svæðum, þar sem stjórnvöld hugsa um að varðveita störf, en minnki, þar sem þau leyfa leikreglum markaðarins að njóta sín. Lögmálið segir, að eðlilegt sé, að vinna færist frá gömlum atvinnugreinum yfir til nýrra.

Sveitarfélög úti á landi hafa mörg fallið í gryfju atvinnuverndar. Þau verja fjármunum sínum til fjárfestingar og taprekstrar í atvinnulífi og draga þar með úr getu sinni til að þjónusta aðrar þarfir. Úr þessu verður vítahringur, sem veldur flótta fólks og fyrirtækja.

Þetta er hvorki umdeilt né umdeilanlegt. Atvinnuverndunarstefna borgarinnar er út í hött og bendir til, að ráðamenn hennar hafi lítinn sem engan skilning á einföldustu lögmálum hagsögunnar. Þeir geta hvorki lært af reynslu borgarinnar né umheimsins.

Hlutverk borgarinnar í atvinnumálum er að bjóða þjónustu og aðstæður, sem hvetja til stofnunar nýrra fyrirtækja í nýjum greinum, en ekki að henda fjármunum í deyjandi fyrirtæki. Öll verndun fortíðar dregur úr getu verndarans til að mæta ótryggri framtíð.

Aðild Reykjavíkur að tilboði í Áburðarverksmiðju ríksins er dæmigerður sósíalismi af því tagi, sem vinstri flokkar um alla Evrópu hafa sem óðast verið að fleygja til að vera gjaldgengir í stjórnmálum nútímans. Forneskjan leynir sér því ekki í afskiptum borgarinnar.

Illa unnið útboð ríkisins og vanhugsuð björgunaraðgerð borgarinnar hafa þó þann kost, að þau minna á, að opinberir aðilar kunna lítið fyrir sér í rekstri.

Jónas Kristjánsson

DV