Sauðfé í Sahara Íslands

Greinar

Enn gerir landgræðslustjóri ekkert, þótt mývetnskir bændur reki sauðfé á gróðurvana Austurafrétt í trássi við umvandanir og siðaprédikanir. Hann tuðar og tuðar og tuðar, en beitir ekki því valdi, sem hann hefur, til að láta loka viðkvæmum svæðum fyrir ágangi búfjár.

Friða þarf þessi svæði af almennum vistfræðilegum ástæðum og einnig vegna þess, að sandfokið af þeim ógnar náttúruperlunni í Dimmuborgum. Þær munu smám saman fyllast af sandi. Hann er raunar þegar er farinn að berast niður í þær með vaxandi hraða.

Landgræðslustjóri hefur þó samvizkubit vegna þessa aðgerðaleysis, því að nýlega sagði hann í blaðaviðtali: “Þeir eru að skaða ímynd bænda og landbúnaðarins í heild, og ég tel, að flestallir bændur eigi erfitt með að sætta sig við þennan upprekstur á þessum tíma.”

Það sannast hins vegar á landgræðslustjóra, að fagurt hugarfar og góð áminningarorð eru til lítils, ef menn hafa ekki bein í nefinu til að framkvæma það, sem þeir eru beinlínis ráðnir til að gera. Þannig skaðar hann málefnið, sem honum hefur verið falið að varðveita.

Annar maður stendur einnig í vegi gróðurverndar á afréttum Mývatnssveitar. Það er landbúnaðarráðherra, sem líka gerir ekkert, en hefur hins vegar ekkert samvizkubit, enda hefur hann alltaf staðið dyggan vörð um ýtrustu sér- og stundarhagsmuni í landbúnaði.

Árum saman hafa verið miklar deilur um upprekstur mývetnskra bænda. Landgræðslustjóri hefur verið að reyna að hafa vit fyrir þeim og ná samkomulagi við þá, fyrst um takmörkun og síðan stöðvun, en þeir hafa látið allt slíkt hljóma sem mýflugusuð í eyrum sínum.

Mývetnskir bændur líta á tuðið í landgræðslustjóra sem linkind eins og norsk stjórnvöld líta á tuðið í utanríkisráðherra okkar. Ef brotaviljinn er eindreginn, þýðir ekkert að nudda vandræðamönnum með góðu til að haga sér eins og samfélagið ætlast til af þeim.

Svo var upprekstur þessi orðinn óvinsæll vorið 1992, að þá var hluti fjárins fluttur á afrétt á bílum í skjóli myrkurs. DV frétti af þessu og fór á staðinn, þar sem aðgerðir bænda voru festar á filmu. Eftir þetta fóru náttúruverndarmenn að kveða fastar að orði.

Áfram héldu mývetnskir bændur að nauðga landinu. Vorið 1994 kom seint. Þá fluttu þeir sauféð á hvíta skafla í svörtum sandi. Þá neyddist landgræðslustjóri til að segja, að breytingar væru í nánd, en sú nánd er því miður ekki kominn enn, þremur árum síðar.

Landgræðslustjóri hefur sagt í viðtali við DV, að í rauninni séu upprekstrarlönd Mývetninga í heild óbeitarhæf. Þetta er nákvæmlega sama skoðun og fræðimenn hafa. En mývetnskir sérhagsmunaaðilar telja sig vita betur og hafna skoðunum úr öðrum sveitum.

Vísindamenn ganga raunar lengra en embættismenn og segja afréttir Mývetninga vera stærsta rofsvæði í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Verði ekkert aðhafzt, mun nærri allt gróðurlandi frá Vatnajökli og norður í Öxarfjörð smám saman verða sandinum að bráð.

Þetta kom fram á ráðstefnu í Mývatnssveit í fyrra, er lögð var fram áætlun um friðun 3000­4000 ferkílómetra svæðis á þessum slóðum. Samkvæmt henni á að hafa Mývetninga með í ráðum, ráða þá til landverndarstarfa og borga þar á ofan fyrir túnrækt þeirra.

Brotamenn Mývatnssveitar hafa samt alls engan samstarfsvilja sýnt og því ber embættismönnum skylda til að stöðva landeyðingu þeirra með lögregluvaldi

Jónas Kristjánsson

DV