Auknar verðkannanir

Greinar

Samkomulag Neytendasamtakanna við fjölmennustu samtök launafólks í landinu, Alþýðusambandið og bandalag opinberra starfsmanna, getur markað tímamót í neytendamálum, ef vel er á spöðum haldið. Það ætti einkum að geta leitt til fleiri og betri verðkannana.

Með samningnum fá Neytendasamtökin nokkuð af peningunum, sem ríkið hefur ekki viljað veita þeim. Á Norðurlöndum leggur ríkið neytendasamtökum til mikið fé, meðal annars af því að það veit, að verðkannanir eru ein bezta leiðin til að halda verðlagi í skefjum.

Mikilvægt er, að verðlag haldist stöðugt hér á landi í kjölfar kjarasamninganna, sem gerðir voru síðla vetrar. Þeir fela í sér árvissar kjarabætur, svo framarlega sem þær fara ekki út í verðlagið. Af því stafar áhugi stéttarsamtakanna á þáttöku í óbeinu verðlagseftirliti.

Ekki eru síðri hagsmunir ríkisins, sem stóð fyrir þjóðarsátt um kjarasamningana. Ef verðlag helzt stöðugt í landinu á næstu misserum, hefur ríkið meira svigrúm en ella til að fylgja skynsamlegri hagstefnu. Fjárveitingavaldið vill ekki átta sig á þessu augljósa samhengi.

Enginn vafi er á, að verðkannanir halda verðlagi í skefjum. Viðskipti færast frá aðilum, sem halda verðlagi uppi, til hinna, sem halda því niðri. Þessi tilfærsla eykur hagkvæmni í rekstri og bætir lífskjör allra þeirra, sem vilja notfæra sér upplýsingarnar og nenna því.

Dagblaðið var fyrst til að gera verðkannanir að föstum þætti daglega lífsins fyrir um hálfum öðrum áratug. Síðan hafa fleiri aðilar komið til skjalanna, svo sem Samkeppnisstofnun. Og nú fá Neytendasamtökin fé til að verða umsvifamikill aðili á þessu mikilvæga sviði.

Gott er að nokkrir aðilar stundi verðkannanir, hver með sínum hætti. Meiri fjölbreytni eykur líkur á, að vel sé að könnunum staðið, auk þess sem heildarfjöldi verðkannana verður miklu meiri en ella. Allt eflir þetta hin beinu og óbeinu áhrif á verðlagið í landinu.

Verðkannanir eru ekki aðeins gagnlegar á sviðum, þar sem margir aðilar eru í samkeppni og bjóða misjafnt verð. Þær koma líka að gagni með því að sýna fólki, á hvaða sviðum fákeppni lýsir sér í svipuðu verði allra þeirra, sem er að bjóða sömu vöru eða þjónustu.

Vegna fámennis þjóðarinnar og langvinnrar þjónustu stjórnvalda við gæludýr sín í atvinnulífinu er fáokun of útbreidd hér á landi. Verðkannanir einar megna ekki að rífa niður fáokunina, en þær geta virkjað almenningsálit og leitt til pólitískra aðgerða til að opna markaðinn.

Þess vegna er mikilvægt, að verðkannanir feli einnig í sér fjölþjóðlegan samanburð, svo að fólk geti séð, hvernig íslenzka samkeppnisástandið er í samanburði við önnur lönd. Þannig verður óbein samkeppni meiri en væri á fámennum markaði einum og lokuðum sér.

Þetta er sérstaklega mikilvægt í verðkönnunum á búvöru, sem nýtur sérstakrar náðar stjórnvalda. Nauðsynlegt er að vekja athygli almennings og um leið kjósenda á, hver er kostnaður hans af verðmun á landbúnaðarafurðum hér á landi og til dæmis í Bandaríkjunum.

Þá þurfa verðkannanir einnig stuðning af gæðakönnunum, þar sem sérfróðir menn eru kvaddir til að meta vöru og þjónustu til gæða. Verðið eitt er ekki algildur mælikvarði á hagsmuni neytenda, því að stundum eru í verðkönnunum bornar saman misgóðar vörur.

Á öllum þessum sviðum bíða ótal verkefni eftir ávöxtum hins nýja samstarfs Neytendasamtakanna og helztu samtaka launafólks. Það er einmitt í svona málum, sem í ljós kemur, hvort opna þjóðfélagið virkar eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV