Löng eyðimerkurganga hafin

Greinar

Þingmenn Íhaldsflokksins brezka hafa ákveðið að leita ekki inn á miðju stjórnmálanna, heldur leggja út í eyðimörkina í von um, að handan hennar bíði flokksins grænni hagar og tærari vatnsból. Þess vegna hafa þeir kosið ungan hægri mann sem formann flokksins.

Þingmennirnir höfnuðu Kenneth Clarke, sem er vinsæll miðjumaður og að mörgu leyti hlynntur evrópskri samvinnu. Clarke hefði verið líklegur til að reyta fylgi af keppinautnum, hinum nýja forsætisráðherra Verkamannaflokksins, sem einnig er miðjumaður.

Nýr formaður Íhaldsflokksins er hins vegar William Hague, aðeins 36 ára að aldri og einn af drengjum lafði Thatcher. Hann hefur vakið athygli fyrir róttækar hægri skoðanir, þar á meðal stuðning við dauðarefsingu og andstöðu við fóstureyðingar og ríkisafskipti.

Fara verður varlega í að túlka hægri stefnu Hagues. Hann hefur í seinni tíð siglt meira með löndum og er talinn vera fær um að haga seglum eftir vindi, ef hugmyndafræðin reynist vera frama hans fjötur um fót. Hann er í senn hugsjónamaður og tækifærissinni.

Samt virðist nokkuð ljóst, að hann og flokkur hans eiga eyðimerkurgöngu í vændum. Flokkurinn er fámennur á þingi og hugmyndafræði formannsins nýtur ekki hljómgrunns með þjóðinni. Tony Blair forsætisráðherra veltir sér hins vegar upp úr vinsældum.

Íhaldsflokkurinn tekur þá áhættu með fyrirhugaðri eyðimerkurgöngu að verða afskrifaður sem fámennur sérvizkuflokkur á jaðri stjórnmálanna, en Frjálslyndi flokkurinn taki við sem hinn kosturinn í brezkum stjórnmálum, þegar alvara lífsins fer að brenna á Blair.

Til langs tíma litið kann þó að vera vit í valinu á Hague. Ef til vill tekst honum í eyðimörkinni að finna flokkinn upp að nýju á svipaðan hátt og Margaret Thatcher endurskóp hann á sínum tíma í róttækri hægri mynd og náði þar á ofan stuðningi almennings.

Að sinni eru horfurnar slæmar. Almenningsálit í Bretlandi og víðar í Evrópu hefur verið að sveiflast frá harðri markaðshyggju yfir til endurvakinnar velferðarstefnu. Menn þykjast sjá, að harðri markaðshyggju fylgi vandamál ekki síður en óheftri velferðarstefnu.

Þeirri skoðun vex fylgi, að upp séu að rísa fjölþjóðlegir markaðsrisar, sem noti mannauðinn eins og hverja aðra hilluvöru og etji ríkjum hverju gegn öðru til að breyta römmum viðskiptalífsins á þann hátt, að svigrúm markaðsrisanna aukist og frelsi fólksins minnki.

Ef markaðshyggja á að ná hljómgrunni hjá fólki að nýju, þarf hún að taka á vanda af þessu tagi og sýna almenningi fram á, að frelsi hans muni aukast og staða hans batna. Engin merki eru um, að hugmyndafræðingar hægri manna hafi náð tökum á þessu verkefni.

Næstu mánuði verður boltinn hins vegar hjá brezkum félagshyggjumönnum. Þeim hefur tekizt að losa sig við mestan hluta bagganna af úreltum kennisetningum og hafa nú tækifæri til að sýna, að hugmyndir þeirra leiði ekki aðeins til réttlætis, heldur einnig til hagsældar.

Það fer að nokkru eftir tökum Verkamannaflokksins á nýfengnum völdum og getu Frjálslynda flokksins til að sigla inn í eyðuna, sem er að myndast við brottför Íhaldsflokksins út í eyðimörkina, hvort síðastnefnda flokknum tekst að endurvekja traust almennra kjósenda.

Þingmenn Íhaldsflokksins hafa tekið mikla áhættu með því taka Hague fram yfir Clarke og leggja út í eyðimörkina. Flest bendir til, að gangan verði löng og ströng.

Jónas Kristjánsson

DV