26 milljarða skaðsemi

Greinar

Samningur bandarísku tóbaksfyrirtækjanna við fjörutíu ríki í Bandaríkjunum hefur fordæmisgildi og samsvarar ímynduðu 26 milljarða króna samkomulagi þeirra við íslenzka ríkið, ef miðað er við íbúafjölda. Það eru um 100.000 krónur á hvern núlifandi Íslending.

Samkomulagið í Bandaríkjunum nær aðeins yfir það tjón, sem áætlað er, að tóbaksfyrirtækin hafi valdið þar vestra. Það nær ekki til tjóns af völdum þeirra á Íslandi. Þess vegna er eðlilegt, að íslenzk stjórnvöld taki upp þráðinn í framhaldi af bandaríska samningnum.

Tóbaksfyrirtækin gera ráð fyrir að geta fjármagnað samkomulagið með því að auka tekjur sínar af tóbakssölu erlendis um hærri fjárhæð en þá, sem þau verða að greiða bandarískum aðilum. Þau telja sig samkvæmt þessu áfram hafa veiðileyfi á útlendinga.

Erlend ríki ráða auðvitað, hvort þau veita slíkt veiðileyfi. Þau hafa hagsmuna að gæta fyrir hönd borgaranna og einnig sem einn helzti fjármögnunaraðili sjúkdómakerfisins. Þeim ber að rísa upp til varna í framhaldi af sameinuðu framtaki bandarísku ríkjanna 40.

Fyrir löngu er orðin vísindaleg staðreynd, að tóbak er óvenju sterklega vanabindandi eitur, sem veldur ótímabærum sjúkdómum og dauða, svo og gífurlegum sjúkrakostnaði af völdum sjúkdómanna. Ljóst má vera, að það er ábyrgðarhluti að framleiða og selja slíkt eitur.

Komið hefur í ljós, að ráðamenn tóbaksfyrirtækjanna hafa lengi vitað um nikótínfíknina og hafa meira að segja hagrætt nikótíninnihaldi tóbaks til að efla fíkn fórnardýranna. Þeir eru því engu betri pappírar en þeir, sem selja hefðbundin fíkniefni í skúmaskotum.

Einnig hefur komið í ljós, að þeir hafa lengi vitað um geigvænleg áhrif tóbaks á heilsufar. Þeir hafa því vitandi vits árum saman verið að framleiða og selja eitur, sem hefur skelfilegar afleiðingar í formi óvenjulega illvígra og sársaukafullra sjúkdóma fórnardýranna.

Raunar eru margir hissa á því, hve vel fíkniefnabarónar tóbaksfyrirtækjanna sleppa í samningnum. Meðal annarra hefur Clinton Bandaríkjaforseti lýst efasemdum sínum um ágæti hans. Í fjölmiðlum er dregið í efa, að bandaríska þingið muni staðfesta hann óbreyttan.

Engin ástæða er fyrir Íslendinga að sætta sig við, að erlendir eiturlyfjasalar geti óátalið látið dreifa fíkniefnum sínum á öðru hverju götuhorni landsins. Vandinn er hins vegar sá, að svo margir eru ánetjaðir eitrinu, að erfitt væri að framfylgja annars sanngjörnu sölubanni.

Hægt er þó að taka tóbakið úr almennum búðum og flytja það í sérstakar verzlanir, svo sem áfengisútsölur eða lyfjabúðir, enda á það heima innan um önnur fíkniefni. Ennfremur þarf að efla um allan helming aðgerðir til að hjálpa fólki til að forðast að ánetjast tóbaki.

Árlegar tekjur ríkisins af tóbaki nema tíunda hluta bandarísku skaðabótanna, ef þær væru færðar yfir til íslenzkra aðstæðna. Af þessum tíunda hluta skilar ríkið aðeins til baka einum hundraðasta hluta til tóbaksvarna, 34 milljónum króna af 3 milljörðum króna.

Íslenzka ríkið er þannig samsekt bandarísku eiturlyfjaframleiðendunum. Það hagnýtir sér eins og þeir, að tóbaksnotendur eru háðir fíkninni og geta ekki hætt. Þess vegna breytist tóbaksnotkun lítið við verðbreytingar. Fíkniefni fylgja ekki markaðslögmálum.

Á sama hátt og íslenzka ríkið á skaðabótakröfu á hendur bandarísku tóbaksfyrirtækjunum, þá ber því einnig að nota sinn hluta illa fengins fíkniefnagróða til tóbaksvarna og lækninga á sviði tóbakssjúkdóma.

Jónas Kristjánsson

DV