Kaflaskil í hagblindusögu

Greinar

Furðulegum kafla lýkur í hagblindusögu Íslendinga á þriðjudaginn, þegar þeir geta valið sér flugfélag milli staða innanlands. Frá og með þeim degi verða sérleyfi lögð niður í innanlandsflugi. Samkeppni hefst að nýju eftir áratuga hlé og frjálst verð tekið upp á farseðlum.

Hagblinda hélt innreið sína í hagstjórn ríkisins snemma í kreppunni miklu á fjórða áratug aldarinnar. Hún lá eins og mara á þjóðinni í þrjá áratugi og byrjaði ekki að sjatna fyrr en með Viðreisn. Leifar hagblindunnar sjást t.d. í skömmtun í samgöngum og fjölmiðlun.

Enn eimir eftir af hagblindu hugarfarsins. Enn reikna margir verðgildi hluta og þjónustu út frá fyrirhöfninni, sem fer í að búa hlutina til eða sinna þjónustunni. Þeir hafa ekki áttað sig á, að í markaðskerfi er ekki beint orsakasamband milli fyrirhafnar og tekna af henni.

Í markaðskerfi ræðst verðlag af því, sem markaðurinn vill borga, en ekki af útreiknuðum fjölda vinnustunda margfölduðum með tímakaupi og af útreiknuðu verðgildi fjárfestinga deilt með afskriftatíma þeirra. Það er ekki til neitt verð, “sem kostar að gera hlutina”.

Í markaðskerfi er spurt, hvers virði varan eða þjónustan sé fyrir þann, sem vill eða vill ekki nota hana, en ekki hvers virði fyrirhöfnin var fyrir þann, sem býður vöruna eða þjónustuna. Íslendingar hafa átt vestrænna þjóða erfiðast með að skilja þetta grundvallarlögmál.

Samt er lögmálið ekki ný bóla. Markaðshyggjan hefur verið mannkyninu eðlileg frá örófi alda. Skömmtunarhagfræðin var hins vegar tiltölulega ný bóla, sem á skömmum tíma sannaði undraverða hæfni við að leggja heilar þjóðir að velli í efnahagsmálum.

Einna sterkust er hagblinda Íslendinga í landbúnaði. Þar eru framdir flóknir útreikningar á kostnaði og síðan fundið út, hvað neytendur og skattgreiðendur eigi að borga til að reikningsdæmin gangi upp. Þar er þó að renna upp fyrir mönnum, að útreikningarnir dugi ekki.

Árum saman höfum við heyrt og lesið, að tap sé á innanlandsflugi, að tekjur af því svari ekki kostnaði. Þetta hefur verið notað sem rök gegn endurheimtu frelsi á flugleiðum innanlands og sem rök með framhaldi forsjárhyggju á vegum reiknimeistara ríkisins.

Árum saman hefur farþegum í innanlandsflugi verið talin trú um, að verið sé að gefa með 14 þúsund króna farseðli fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur. Frá og með þriðjudeginum gefst fólki kostur á að borga helminginn, 7 þúsund krónur, fyrir þessa leið.

Nú er viðurkennt eins og fyrr á öldum, að það sé ekki hlutverk ríkisins að hafa vit fyrir athafnamönnum, sem vilja bjóða lægra verð fyrir vöru sína og þjónustu. Hlutverk ríkisins sé þvert á móti að setja leikreglur, sem ryðji samkeppnishindrunum úr vegi markaðarins.

Ein af leikreglunum er, að ríkið varðveiti tryggingafé til að nota til aðstoðar farþegum, sem annars yrðu strandaglópar, ef illa fer fyrir kappsömum athafnamönnum. Þannig tryggir velferðarríki nútímans, að óheft samkeppni komi ekki niður á óheppnum notendum hennar.

Fullur sigur er ekki unninn, þótt tvö fyrirtæki stundi innanlandsflug. Skemmst er að minnast þess, að nýlega var með sameiningu lögð niður samkeppni tveggja fyrirtækja á nokkrum flugleiðum. Hugsanlegt er, að Flugfélagið og Íslandsflug verði einhvern tíma sameinuð.

Ef nýja samkeppnin dofnar, er mikilvægt, að leikreglur ríkisins séu jafnan slíkar, að ekki sé lagður steinn í götu annarra, sem vilja hlaupa í samkeppnisskarðið.

Jónas Kristjánsson

DV