Þeir neita sér um aflaspákerfi

Greinar

Klúðrað hefur verið ágætu tækifæri til að auka þekkingu í fiskveiðum við Ísland og gera skipstjórnarmönnum kleift að ná meiri afla með minni tilkostnaði. Vegna misskilnings og greindarskorts hefur verið stöðvuð vinna við þróun athyglisverðs aflaspákerfis.

Sökin er jöfn annars vegar hjá Hafrannsóknastofnun, Sjávarútvegsstofnun háskólans og Radíómiðun, sem hafa þróað spákerfið, og hins vegar Landssambandi íslenzkra útvegsmanna og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, sem komu í veg fyrir framgang málsins.

Misskilningurinn byrjaði að leika lausum hala eftir sjávarútvegssýninguna í fyrra, þar sem aðstandendur aflaspákerfisins settu árangur þróunarstarfsins fram í hinum hefðbundna ýkjustíl, sem allt of oft einkennir framsetningu sölumanna á afurðum sínum.

Skipstjórnarmenn töldu, að Hafrannsóknastofnun hefði afhent utanaðkomandi aðilum aðgang að afladagbókunum, sem þeir hafa afhent stofnuninni sem trúnaðarskjöl. Þannig yrði sérþekking þeirra og þjálfun gerð aðgengileg óviðkomandi samkeppnisaðilum.

Þegar misskilningurinn var kominn á flot, var reynt að bæta úr skák með því að kynna málið fyrir útvegs- og skipstjórnarmönnum. Útskýrt var, að frumgögn afladagbóka voru ekki notuð, heldur síaðar safntölur, sem ekki ljósta upp um veiðistaði einstakra skipstjóra.

Vegna greindarskorts ráðamanna í samtökum útvegsmanna og skipstjórnarmanna tókst ekki að koma útskýringunum til skila. Samtökin fóru fram á, að þróun aflaspákerfisins yrði hætt. Orðið var við óskinni og tölunum skilað aftur til Hafrannsóknastofnunar.

Í málflutningi ráðamanna í samtökum útvegsmanna og skipstjórnarmanna kemur fram mikið af illskiljanlegri þvælu. Eitt stendur þar upp úr sem gild röksemd, að afladagbækurnar eru trúnaðarmál og Hafrannsóknastofnun þarf að fara gætilega með efni þeirra.

Hafrannsóknastofnunin átti að hafa samráð við höfunda afladagbókanna um notkun efnis úr þeim. Sjávarútvegsstofnun háskólans og Radíómiðun áttu að fara með löndum í kynningu málsins. Samtök útvegs- og skipstjórnarmanna áttu að lokum að taka sönsum.

Niðurstaðan verður því sú, að Ísland dregst aftur úr í fiskveiðitækni. Eftir að hafa verið áratugum saman fremstir í tæknivæðingu, verðum við nú að horfast í augu við, að japanskir og bandarískir skipstjórnarmenn, en ekki íslenzkir, geta hagnýtt sér aflaspákerfi.

Slíkt kerfi hefði verið eitt tækið enn í brúnni, gert sókn íslenzka fiskiskipaflotans markvissari, sparað olíukostnað, dregið úr olíumengun og á ýmsan annan hátt gert skipstjórum kleift að nýta betur almenna veiðireynslu sína og sérþekkingu á góðum veiðistöðum.

Verstur er hlutur félagsmálaberserkja, sem af völdum greindarskorts lögðu ekki nógu mikið af mörkum til að sýna félagsmönnum sínum fram á, að ekki væri verið að ráðast gegn hagsmunum þeirra, heldur halda áfram að bæta tækjum í vopnabúr þeirra í lífsbaráttunni.

Mál þetta minnir á, að þjóðin getur ekki leyft fámennum og misvitrum hópi manna að ráðskast með fiskimiðin sem sína persónulegu eign, svo sem Alþingi hefur gert með lögum um veðsetningu aflaheimilda. Þjóðin verður að endurheimta eignarhald sitt á auðlindum hafsins.

Þegar samtök útvegs- og skipstjórnarmanna standa stjörf gegn hagþróun í landinu, rennir það nýjum stoðum undir kröfuna um þjóðareign á auðlindum hafsins.

Jónas Kristjánsson

DV