Íþróttir fyrir drykkjurúta

Greinar

Stjórnendur landsmóts ungmennafélaganna í Borgarnesi héldu rétt á málum, þegar rónalæti á mótssvæðinu komu þeim í opna skjöldu. Þeir sendu verstu drykkjurútana heim til Grindavíkur og höfðu vit fyrir hinum, sem voru móttækilegir fyrir leiðbeiningum.

Drykkjuvandræði íþróttahreyfingarinnar komu skýrt í ljós á landsmótinu í Borgarnesi. Í allt of miklum mæli eru íþróttafélög ekki lengur varðstöðvar gegn neyzlu geðbreytilyfja á borð við áfengi, heldur beinlínis orðin að uppeldisstöðvum í drykkjuskap, orgi og ælu.

Íslenzkir unglingar eiga erfiða daga. Í heimahúsum horfa þeir upp á helgardrykkjuskap fullorðins fólks, sem virðist segja eitt allsherjar pass í uppeldismálum. Margir foreldrar virðast halda, að uppeldi sé einhver óviðkomandi atburður, sem sennilega eigi sér stað í skólum.

Skólarnir eru ekki í stakk búnir til að sinna uppeldisskyldum foreldranna. Þeir hafa raunar ekki reynzt geta sinnt fræðslu til jafns við skóla í útlöndum. Þeir eru andvígir uppeldi, því að þeir láta börnin að mestu leika lausum hala í samræmi við hugmyndafræði agaleysis.

Á sumrin eru börnin send í svonefnda vinnuskóla, sem eru í raunninni kennslustofnanir í hangsi og kæruleysi og vinnusvikum. Engin von er til þess, að íslenzkir unglingar komist klakklaust og óbrenndir á hugarfari frá þessum sérkennilegu geymslustofnunum.

Íslenzkir foreldrar og skólamenn hafa meðtekið nútímann með þeirri skekkju, að frelsi skuli koma í stað uppeldis. Þess vegna elst fólk upp hér á landi án þess að kunna að haga sér. Það elur hvað annað upp og ákveður sjálft, að það sé smart að liggja í svínastíunni.

Ýmis kerfi á Íslandi, svo sem ríki og sveitarfélög, hafa litið á íþróttahreyfinguna sem tæki til að koma í stað mistaka þjóðarinnar í uppeldismálum. Kenningin er sú, að börnin læri heilbrigt samstarf og heilbrigða samkeppni í leik og þjálfun innan íþróttafélaga.

Í þessu skyni verja opinberu kerfin gífurlegum fjármunum til stuðnings íþróttum. Bæjarfélög greiða mestan hluta mannvirkjanna, sem notuð eru til íþrótta. Tugir milljóna liggja á lausu til íþrótta í bæjarfélögum, sem ekki eiga til hnífs og skeiðar á öðrum sviðum.

Ekkert bannar, að opinberu kerfin með digru sjóðina setji sér einhver markmið um að fá eitthvað annað í staðinn en linnulausar boltakeppnir, sem tröllríða heilum bæjarfélögum svo, að þar eru menn tæpast viðmælandi um framfarir og gengi bæjarfélagsins.

Sum íþróttafélög og sumar deildir innan íþróttafélaga reyna að sinna uppeldishlutverki. Önnur félög láta sig slíkt engu skipta og sums staðar er beinlínis unnið að spillingu æskulýðsins, svo sem sýnir dæmið frá Grindavík, þar sem verið er að framleiða drykkjurúta.

Eðlilegt er, að auknar verði kröfur um, að íþróttafélög vinni fyrir hinum opinbera stuðningi með því að taka þátt í uppeldisþörfum þjóðfélagsins og reyni meðal annars að sýna ungmennum fram á andstæður heilbrigðra íþrótta og meðvitundarlítils drykkjuskapar.

Þótt við höfum á þremur kynslóðum stokkið aftan úr miðöldum inn í vestrænan nútíma, hefur okkur tekizt að læra að þrífa okkur, halda á hníf og gaffli og laga okkur á ýmsan hátt að siðum þjóða. Við getum alveg eins lært að hætta að orga og æla af völdum drykkjuskapar.

Mikilvægt skref í þá átt felst í, að íþróttahreyfingin taki sér tak og komi þeim skilaboðum á framfæri til félagsmanna sinna, að mannasiðir séu prýðilegir.

Jónas Kristjánsson

DV